Nýr veitingastaður opnar á Höfðatorgi

Bræðurnir Ásgeir og Bjarki Gunnlaugssynir hafa áralanga reynslu og öllum …
Bræðurnir Ásgeir og Bjarki Gunnlaugssynir hafa áralanga reynslu og öllum hnútum kunnugir.

Nýr veitingastaður hefur opnað á Höfðatorgi þar sem boðið er upp á nýja nálgun á hádegishlaðborð fyrir starfsfólk Höfðatorgs og nágrennis. Staðurinn ber nafnið Intro og er staðsettur í glerskálanum í Turninum í Höfðatorgi.

Það er Múlakaffi sem sér um rekstur Intro en staðurinn er að ræða hluta af nýrri stefnu sem er vaxandi í nýbyggingum fyrir fyrirtæki og stofnanir. Eitt hádegishlaðborð sem starfsmenn allra fyrirtækja í nærumhverfinu hafa aðgang að. „Við erum afar stolt af Intro, þetta er samvinnuverkefni með Reginn, sem er rekstraraðili Höfðatorgs, og í raun framtíðin í hádegishlaðborðum,“ segir Guðríður María Jóhannesdóttir, framkvæmdastjóri Múlakaffis.

Maturinn á Intro er í höndum Bjarka Gunnlaugssonar sem hefur víðtæka reynslu úr veitingageiranum en hann stýrði Tapas barnum í 14 ár og var einn af lykilmönnum við opnun veitingastaða á borð við Sushi Social, Sæta Svínið og Fjallkonuna. Bróðir Bjarka, Ásgeir, stendur einnig vaktina en hann hefur starfað sem barþjónn við hlið bróður síns í gegnum árin.

Einfalt, gómsætt og hluti af nútímalegu vinnuumhverfi

Allir eru velkomnir á Intro, hvort sem um er að ræða starfsmenn nærliggjandi fyrirtækja eða bara hinn almenna Íslending. Fyrirtækjum er boðið að koma í reikningsviðskipti og notast er við QR kóða til að flýta fyrir afgreiðslu. Mánaðarleg uppgjör eru svo send til fyrirtækja á einfaldan og þægilegan hátt

„Við erum afar spennt fyrir Intro og þessu nýja landslagi í veitingaþjónustu við klasa af fyrirtækjum. Nú geta fyrirtæki losað sig við höfuðverkinn sem fylgir því að starfrækja mötuneyti en samt boðið sínum starfsmönnum frábæran hádegisverð. Við erum afar stolt af þessu verkefni og lítum á þetta sem framtíðina í hádegishlaðborðum,“ bætir Guðríður við.

Frábær staðsetning Intro

Intro er til húsa í glerskála Turnsins við Höfðatorg. Glerskálinn er einkar glæsilegur og mjög vinsæll til veisluhalda. „Við erum strax farin að bóka jólakokteil og aðra skemmtilega viðburði og veislur fyrir fyrirtæki, glerskálinn er einstaklega fallegur og spennandi kostur fyrir viðburði,“ bætir Guðríður við að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert