Halda jólamarkað í Hagkaup Smáralind

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir markaðs- og upplifunarstjóri Hagkaups.
Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir markaðs- og upplifunarstjóri Hagkaups. Ljósmynd/Aðsend

Föstudaginn 25. nóvember verður haldinn jólamarkaður í Hagkaup Smáralind. Þar verða samankomnir yfir tuttugu íslenskir smáframleiðendur sem munu kynna sínar vörur og bjóða upp á smakk. Um er að ræða vörur sem framleiddar eru í litlu magni og því oft illfáanlegar auk þess sem stórverslanir almennt bjóða síður upp á slíkar vörur en erfitt getur reynst fyrir smáframleiðendur að koma vörum sínum á framfæri. Því er hér um að ræða tækifæri fyrir bæði smáframleiðendur og neytendur til að kynnast einhverju nýju en matvælaframleiðsla hér á landi meðal lítilla framleiðenda er einstaklega blómleg og fjölbreytt.

Að sögn Evu Laufeyjar Kjaran, markaðs- og upplifunarstjóra hjá Hagkaup, er mikil tilhlökkun þar á bæ enda hefur Hagkaup gert sitt ýtrasta til að hampa íslensku matarhandverki og býður eitt mesta úrval landsins af vörum smáframleiðenda.

„Við erum ótrúlega stolt af því að vera með þessar vörur hjá okkur og þvílíkt gaman að fá tækifæri til þess að búa til viðburð þar sem við getum hitt þessa flottu framleiðendur. Það verður sannkölluð jólastemning með öllu tilheyrandi, frábær tilboð í verslun í tilefni af Black Friday og einnig verður við með átak til styrktar Kvennaathvarfinu en við verðum með flygil staðsettan fyrir utan Hagkaup Smáralind, fyrir hvert lag ætlum við að borga 5.000 þúsund krónur. Öllum er frjálst að spila og vonum við að sjálfsögðu að við söfnum góðri upphæð til styrktar Kvennaathvarfinu – málefni sem varðar okkur öll,“ segir Eva Laufey en markaðurinn hefst kl. 16 og stendur til klukkan 20.

Aldrei að vita nema að sérfræðingarnir í Sælkerabúðinni bjóði upp …
Aldrei að vita nema að sérfræðingarnir í Sælkerabúðinni bjóði upp á smakk. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is