Hollur morgunverður að hætti Ebbu Guðnýjar

Ebba Guðný Guðmundsdóttir ljóstrar upp um sinn uppáhaldsmorgunmat sem er …
Ebba Guðný Guðmundsdóttir ljóstrar upp um sinn uppáhaldsmorgunmat sem er meinhollur og bragðgóður. Samsett mynd

Ebba Guðný Guðmundsdóttir er einstaklega hæfileikarík og hefur verið í mörgum hlutverkum, enda leikari. Hún er menntaður kennari, heilsufyrirlesari, sjónvarpskona, bókaútgefandi, mamma og húsmóðir, auk þess að vera leikari, eins og áður sagði. Ebba Guðný er til að mynda þekkt fyrir bækurnar sínar og þættina Eldað með Ebbu. Hún hefur mikla ástríðu fyrir hollum og góðum mat og leggur sig fram um að sporna gegn matarsóun.

Hún elskar að fá sér góðan morgunverð og ljóstrar hér upp um hverju hún blandar saman til töfra fram hollan og bragðgóðan morgunverð. „Morgunmaturinn minn er oftast svona,“ segir Ebba Guðný sem leggur metnað sinn í borða hollt og gott. „Svo drekk ég gott kaffi með. Mjög heilög stund.“

Ebba Guðný ristar bæði kókosflögur og bókhveiti og býr til …
Ebba Guðný ristar bæði kókosflögur og bókhveiti og býr til ljúffengt glútenlaust múslí til að toppa morgunmatinn með. Ljósmynd/Ebba Guðný

Hollur og góður morgunverður að hætti Ebbu Guðnýjar

 • 1 dós lífræn hrein sojajógúrt eða hrein laktósalaus AB-mjólk
 • Heimagert glútenlaust múslí eftir smekk
 • Ristaðar kókosflögur og ristað bókhveiti eftir smekk
 • Ber og/eða mangó (gott að nota frosið og láta þiðna yfir nótt í krukku í kæli. Gott að kreista sítrónu- eða límónusafa yfir).
 • Mórber eða örfáar rúsínur til að fá smá sætu
 • 1 tsk. af chiafræjum í jógúrtina, má sleppa

Aðferð:

 1. Setjið sojajógúrt eða laktósalausa AB mjólk í skál.
 2. Dreifið glútenlausu múslí yfir eftir smekk (sjá uppskrift fyrir neðan).
 3. Sáldrið ristuðum kókosflögum og ristuðu bókhveiti yfir (sjá uppskrift fyrir neðan).
 4. Stráið berjum eða mangóbitum yfir eftir smekk.
 5. Dreifið örlitlu af mórberjum eða rúsínum yfir.
 6. Setjið eina teskeið af chiafræjum út í ef vill.

Einfalt glútenlaust múslí

 • 8 dl lífrænir glútenlausir hafrar
 • 1 tsk. salt
 • ½  msk. kanill
 • 1 dl heitt soðið vatn
 • 0,5 dl kaldpressuð kókosolía
 • 0,75 dl hreint hlynsýróp
 • 2 dropar vanilla eða English toffee stevia ef vill (geymið glasið í kæli)

Aðferð:

 1. Byrjið á því að stilla ofninn á 180°C blástur.
 2. Blandið saman í sæmilega stórri skál höfrum, salti og kanil eftir smekk.
 3. Blandið soðnu vatni saman við kókosolíu og hrærið. Þannig leysist kókosolían upp.
 4. Bætið hlynsírópi eða annarri sætu saman við og hellið þessu svo yfir hafrana.
 5. Hrærið vel saman.
 6. Dreifið þessari blöndu á bökunarpappír á bökunarplötu og bakið þangað til brúnt, ilmandi og fallegt.
 7. Hrærið í við og við svo þetta brenni ekki við.
 8. Kælið og setjið í krukku.

Ristaðar kókosflögur

 • 1 pk. kókosflögur

Aðferð:

 1. Hitið ofninn í 180°C.
 2. Setjið bökunarpappír á ofnplötu, dreifið kókosflögunum á og setjið inn í ofn.
 3. Tekur skamma stund að rista, fylgist vel með, þær verða fallega bakaðar á örskotsstund.

Ristað bókhveiti

 • Bókhveiti eftir smekk

Aðferð:

 1. Hitið ofninn í 180°C.
 2. Setjið bökunarpappír á ofnplötu, dreifið bókhveiti á og setjið inn í ofn.
 3. Bakið við 180° í um það bil 15-20 mínútur. Borgar sig að fylgjast vel með.
mbl.is