Nýstárlegur morgunverðargrautur með ítölsku ívafi

Berglind Hreiðars galdraði fram þennan dásamlega Tiramisu morgunverðargraut með ítölsku …
Berglind Hreiðars galdraði fram þennan dásamlega Tiramisu morgunverðargraut með ítölsku ívafi. Ljósmynd/Berglind Hreiðars

Um helgar má gera betur við sig og fá sér morgunverð sem er að betri gerðinni. Berglind Hreiðars fagurkeri og matarbloggari sem heldur úti uppskriftarsíðunni Gotterí og gersemar sameinar hér sparigrautinn og kaffibollann í Tiramisu morgunverðargraut með stórkostlegri útkomu. Ef ykkur langar í eitthvað súper gott í morgunverð án þess að töfra fram bröns eða hlaðborð þá er þetta málið. Tiramisu morgunverðargrautur með ítölsku ívafi, gæti ekki verið betra fyrir þá sem elska kaffi.

Fallegt að skreyta grautinn með rifnu súkkulaði og sigta yfir …
Fallegt að skreyta grautinn með rifnu súkkulaði og sigta yfir hann kakói. Ljósmynd/Berglind Hreiðars

Tiramisu morgunverðargrautur

Fyrir tvö glös

Morgunverðargrautur

  • 40 g tröllahafrar
  • 30 g chiafræ
  • 1 msk. bökunarkakó
  • 130 ml mjólk að eigin vali
  • 60 ml sterkt kaffi
  • 1 tsk. vanilludropar
  • 1 tsk. síróp

Aðferð:

  1. Setjið allt saman í skál/könnu, hrærið saman og skiptið niður í glös.
  2. Plastið og geymið í ísskáp í lágmark 2 klukkustundir eða yfir nótt.

Ofan á:

  • 2 msk. grísk jógúrt
  • Bökunarkakó
  • Smá saxað súkkulaði

Aðferð:

1. Toppið með grískri jógúrt, sigtið bökunarkakó yfir og setjið smá saxað súkkulaði og njótið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert