Fann sína hillu þegar hún gerðist grænkeri

Elín Kristín breytti um lífsstíl eftir að hafa greinst með …
Elín Kristín breytti um lífsstíl eftir að hafa greinst með krabbamein og gerðist grænkeri og hefur blómstrað síðan. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Elín Kristín Guðmundsdóttir matarfrumkvöðull stóð á ákveðnum tímamótum fyrir nokkrum árum og breytti um lífsstíl, tileinkaði sér annað mataræði.

Hún gerðist grænkeri og stofnaði sitt eigið fyrirtæki eftir að hún þróaði sína eigin vöru. Fyrirtækið ber heitið Ella Stína vegan og starfsemin blómstrar og Elín þróar sínar eigin vörur sem njóta mikilla vinsælda.Aðspurð segist Elín hafa sett sér ákveðin lífsgildi sem hún hefur haft að leiðarljósi. „Fyrir nokkrum árum síðan stóð ég á ákveðnum tímamótum í lífinu þar sem ég var að jafna mig eftir erfið veikindi þar sem ég greindist með brjóstakrabbamein árið 2018. Í kjölfarið á þeim veikindum ákvað ég að gerast grænkeri, vegan, sem þýðir að ég tók út allar dýraafurðir úr mínu mataræði. Ég þurfti að finna taktinn á ný og ákvað þá að taka stefnubreytingu með nýtt hugarfar. Ég ákvað í veikindunum mínum að ég ætlaði aldrei að gera neitt leiðinlegt ef ég þyrfti þess ekki og hef lifað eftir þeirri möntru síðan. Lífið tekur mann í alls konar áttir og því er mikilvægt að gera það sem manni þykir skemmtilegt,“ segir Elín.

„Eftir því sem ég fór að kynna mér betur allt um vegan mat og úrvalið á Íslandi þá fannst mér vanta meiri fjölbreytni og sérstaklega á íslenskri framleiðslu. Úr varð að ég fór af stað með mína fyrstu vöru, sem er vegan buff . Ég elska að fá mér góðan hamborgara og því lá beint við að búa til minn eigin.“

Handvalið hágæðahráefni beint frá býli

Ástríðan fékk að njóta sín og Elín fann sína hillu. „Ég fann að ég gat skapað, pælt í alls konar næringargildi, samsetningum og því sem mikilvægast er, góðu bragði. Töfrað fram nýjungar á borðið og reynt að nýta allt hráefni sem best með því að láta hugmyndaflugið ráða för. Ég hef alltaf notið þess að fá fólk í mat til mín og fjölskyldan mín nýtur að sjálfsögðu góðs af áhugamáli mínu.“

Uppistaðan í vörunum hennar Elínar eru vörur beint frá býli. „Ég reyni eftir bestu getu að vera með hráefni beint frá býli og handvalið hágæða hráefni í hverja uppskrift. Ég vil ávallt tryggja að viðskiptavinir geti treyst vörunum frá mér, að þær innihaldi engan viðbættan sykur eða aukaefni. Það hefur alltaf einkennt mína matargerð að vanda val á hráefnum og hugsa út í hvert smáatriði, ég einfaldlega kann ekki að búa til mat öðruvísi.“

Fyrirtækið hefur vaxið hratt. „Í dag, tveimur árum síðar, hefur fyrirtækið stækkað hratt og er Ella Stína vegan komin með átta vörur á markað og níunda kemur mjög fljótlega í verslanir,“ segir Elín og er þakklát fyrir viðtökurnar sem vörurnar hennar hafa fengið.

Grillaðir veganborgarar í uppáhaldi

Elín segir að mataræði breytist á sumrin og þá sé líka meiri fjölbreytni til staðar. „Sumarið er sannarlega tíminn þar sem fjölbreytnin verður meiri og við höfum aðgang að íslenskri uppskeru af grænmeti og núna er ég farin að rækta mitt eigið grænmeti uppi í sumarbústað. Við fjölskyldan borðum mikið af grænmeti og ávöxtum árið um kring en úrvalið verður svo miklu betra á sumrin og fjölbreytnin eftir því.“

Grillið er mikið notað á sumrin og Elín er dugleg að leika sér með hráefni á grillinu. „Ég borða mikið grillað grænmeti og nota buffin mín í mismunandi útfærslu með ýmsum tegundum af heimagerðri sósu. Ég leik mér að því að prófa mig áfram með allt sem mér dettur í hug að grilla. Það er skemmtilegt að grilla vatnsmelónu og ananas á góðviðrisdögum. Annars er ég yfirleitt alltaf með eggaldin, maís, tómata, gulrætur, papriku, alls konar sveppi, rauðlauk og nýjasta nýtt hjá mér er að grilla rauðrófur. Marínerað grænmeti og veganbuff með góðri sósu er eitthvað sem ég fæ aldrei leið á,“ segir Elín dreymin á svip.

Elín deilir hér með lesendum einni af sínum uppáhaldsgrilluppskriftum. „Hérna er ein af mínum uppáhaldsuppskriftum að veganborgara með lime- og kóríanderhrásalati fyrir grillveisluna. Hrásalatið er ekki síðra daginn eftir svo það er vel hægt að vinna sér í haginn og útbúa það kvöldið áður ef þú átt til að mynda von á gestum.“

Veganborgararnir hennar Elínar eru girnilegir og litadýrðin í salatinu er …
Veganborgararnir hennar Elínar eru girnilegir og litadýrðin í salatinu er falleg. Ljósmynd/Aðsend

Grillaðir veganborgarar með lime- og kóríanderhrásalati

Lime- og kóríanderhrásalat

  • 300 g rauðkál
  • 300 g hvítkál
  • 200 g gulrætur
  • 2 dl vorlaukur, græni parturinn
  • 1 dl ferskt kóríander
  • Ferskur safi úr 2 límónum
  • 1,5 dl vegan majónes
  • 1,5 dl vegan jógúrt hrein
  • 2 tsk. dijon sinnep
  • 1 tsk. cumin frá Kryddhúsinu
  • Salt og pipar eftir smekk

Aðferð:

  1. Saxið rauðkál og hvítkál í þunna strimla.
  2. Rífið gulrætur á rifjárni. Setjið í skál.
  3. Saxið vorlauk og kóríander smátt og bætið út í skálina.
  4. Blandið saman í annarri skál majónesi, jógúrt, dijon sinnepi, límónusafa, cumin, salti og pipar eftir smekk.
  5. Hellið sósunni út á grænmetið og hrærið saman með sleif eða höndunum.
  6. Lokið skálinni og geymið í kæli þar til hrásalatið er borðað með veganbuffinu.

Veganborgari

  • 1 pakki veganbuff frá Ella Stína vegan
  • 4 gróf hamborgarabrauð eða
  • brauðbollur - vegan
  • 1 stk. stór tómatur
  • 1 rauðlaukur
  • 4 Violife-ostsneiðar
  • Veganmajónes

Aðferð:

  1. Setjið veganbuffið á grillið og þegar það hefur fengið á sig brúnan lit og grillrendur er það tilbúið.
  2. Þegar buffið kemur af grillinu er það mjög heitt svo það er oft gott að leyfa því að kólna aðeins áður en er borðað.
  3. Setjið veganostsneiðar ofan á buffið og lokið aðeins grillinu til að osturinn bráðni.
  4. Hitið hamborgarabrauðin aðeins á grillinu til að gera þau stökk.
  5. Smyrjið þau með veganmajónesi eða þeirri sósu sem ykkur langar í.
  6. Setjið salat á hamborgarabrauði, ég nota ýmist frá Myllunni eða útbý mín eigin ef ég hef góðan tíma.
  7. Skellið svo tómatsneið ofan á buffin og þar næst lime- og kóríanderhrásalati og smá rauðlauk.
Falleg sjón að horfa á þessa fallegu borgara.
Falleg sjón að horfa á þessa fallegu borgara. Ljósmynd/Aðsend
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert