Ljúffengar laxasteikur með sítrónu og hvítvíni

Ljúffengar laxasteikur með sítrónum og hvítvíni sem hitta í mark. …
Ljúffengar laxasteikur með sítrónum og hvítvíni sem hitta í mark. Svo má skreyta með ferskri steinselju að vild. Unsplash/Melanie Andersen

Ekkert er betra en nýr villtur lax og á þessum árstíma er yndislegt að snæða lax í góðum félagsskap. Hér eru laxasteikur með sítrónu og hvítvíni sem bragðast alveg ljómandi vel og sítrónurnar gefa þetta frískandi bragð sem passar vel með bleikum fiski. Þá má líka nota bleikju, hún er einstaklega bragðgóð og hittir ávallt í mark.

Laxasteik með sítrónu og hvítvíni

Fyrir 4 til 6

  • 4 – 6 laxasteikur (100 g hver)
  • salt og pipar eftir smekk
  • 1 ½ msk. ólífuolía
  • 2 hvítlauksrif
  • 1 dl hvítvín að eigin vali, má sleppa
  • 1 dl vatn
  • 2-3 msk. hveiti

Skraut

  • 1-2 sítrónur
  • 1 búnt fersk steinselja

Aðferð:

  1. Byrjið á því að krydda laxasteikurnar með pipar eftir smekk. Má líka nota salt ef vill, sumir sleppa því.
  2. Brúnið laxasteikurnar á heitri pönnu með ólífuolíu.
  3. Hvítvín og vatn sett saman við og allt er steikt við lágan hita í um það bil 10 mínútur eða þar til laxinn er gegnsteiktur.
  4. Laxasteikurnar teknar upp úr og sósan jöfnuð út með smá hveiti ef vill. Það má líka bæta við hvítvíni og láta suðuna koma upp og sleppa þá hveitinu.
  5. Skerið sítrónurnar í fallegar sneiðar og grófsaxið steinseljuna.
  6. Leggið laxasteikurnar í eldfast mót eða fat og skreytið með sítrónusneiðum og steinselju eftir smekk.
  7. Má baka örstutt í bakaraofni við 180°C hita.
  8. Berið fram með bökuðu smælki og/eða hrísgrjónum og fersku salati að eigin vali.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert