Meira næs með Tobbu Marinós

Jóhanna Soffía Birgisdóttir framkvæmdastjóri Lemon, Tobba Marinós og Unnur Guðríður …
Jóhanna Soffía Birgisdóttir framkvæmdastjóri Lemon, Tobba Marinós og Unnur Guðríður Indriðadóttir eru alsælar með samstarfið. Ljósmynd/Lemon

Náttúrulega sætir sjeikar, safar og gúmmelaði í nafni Tobbu Marinós munu hefja innreið sína á veitingastaði Lemon á næstu dögum.

Tobba og móðir hennar, Guðbjörg Birkis, seldu nýverið Granólabarinn en héldu eftir öllum uppskriftum sem nú hafa eignast nýtt heimili hjá Lemon.

Hefur lagt safapressunni í bili

„Ég er alsæl með samstarfið og sé nú loks fram á að stórkostlegt gúmmelaði án viðbætts sykurs verði fáanlegt á fjölmörgum stöðum Lemon án þess að ég og mamma förum yfir um við framleiðsluna. Lemon hefur vaxið ört upp á síðkastið og það eru mörg spennandi verkefni á teikniborðinu og fólkið í brúnni þar er framúrskarandi, það er ekki síður mikilvægt,” segir Tobba Marinósdóttir.

Sjálf segist hún hafa lagt safapressunni í bili eftir að hafa þurft að fara í aðgerð á hendi eftir langar vaktir við safapressuna.

„Við vorum ekki lengi að hugsa okkur um þegar samstarfið við Tobbu kom upp, en Lemon er staðurinn fyrir þau sem eru að huga að heilsunni og vilja holla og góða næringu og vörurnar hennar Tobbu smellpassa inn í vöruúrvalið okkar. Viðskiptavinir okkar eiga eftir að verða glaðir með þessa viðbót hjá Lemon,” segir Unnur Guðríður Indriðadóttir markaðsstjóri Lemon.

„Það er engin lognmolla í kringum Tobbu og hafa undanfarnar vikur verið virkilega skemmtilegar við undirbúninginn. Mikið hlegið og mikið drukkið af söfum.”

Að sögn Unnar eru að bætast við þvílíkar orkubombur, stútfullar af vítamínum og hollustu, í vöruúrvalið hjá Lemon. Einmitt það sem kroppurinn þarfnast núna. Fyrst um sinn verður boðið upp á detox-pakka Tobbu og sellerísafann fræga sem Tobba hefur dásamað síðustu ár.

Föndur og sumarsukk

„Nú get ég loks einbeitt mér að vöruþróun. Draumurinn um að fólk geti borðað betur á viðráðanlegu verði og án þess að vera alltaf með hnetur í bleyti og föndrandi fram á nótt er því rætast. Einföld hráefni og engin aukaefni eða sykur eru mín mantra og Lemon fólkið góða eru fullkomnir samstarfsaðilar í því,” segir Tobba spennt fyrir framhaldinu.

„Nú er loksins komið íslenskt sellerí frá Höllu bónda en hún er eini selleríræktandinn á́ Íslandi, svo það er himnasending að geta boðið upp á ferskt sellerí frá henni," segir Tobba.

„Með Lemon í liði sé ég fram á að anna loks eftirspurn og öll ættu að geta hent sér í selleríhreinsun til að skola sumarsukkið út. Það er ótrúlegt hvað eftirspurnin eftir 100% hreinum sellerísafa er mikil - eða ótrúlegt uns þú hefur prófað. Þá meikar þetta allt sens. Allavega hefur þetta gulgræna sull breytt bæði lífi mínu og mittismáli.”

Myndarlegur og væntanlegur

Kaffisjeikinn, líklega mest myndaði sjeik landsins, er einnig væntanlegur aftur í maga og á myndir landsmanna.

„Það þarf ekkert að kynna þetta krútt. Án alls viðbætts sykurs og bragðefna. Bara hnausþykkur sjeik sem fær kasólétta konu til þess að ganga í úrhelli úr Fossvoginum út á Granda - sönn saga,” segir Tobba sem stefnir á að koma með sætan bita á matseðil Lemon sem fyrst.

„Í komandi lægðum er algjörlega nauðsynlegt að eiga sæta bita sem fara vel með líkama og sál. Allavega þurfti ég á þeim að halda þegar ég horfði á þá appelsínugulu mölva sólblómin og eldliljurnar í garðinum sem ég hef nostrað við í allt sumar."

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert