Var kvíðin fyrir fyrstu vegan-jólunum

Eva Guðrún Kristjánsdóttir borðar veganútgáfu af graf laxi um jólin
Eva Guðrún Kristjánsdóttir borðar veganútgáfu af graf laxi um jólin mbl.is/Árni Sæberg

Eva Guðrún Kristjánsdóttir, viðskiptafræðingur og hlaðvarpsstjórnandi Grænkersins, tók ákvörðun fyrir rúmlega átta árum um að gerast vegan. Nú eru hún og maðurinn hennar Hákon Jónsson búin að veganvæða jólin.

„Ég hef alltaf verið mikill dýravinur og haft mikla samkennd með lifandi verum. Mamma segir mér að ég hafi verið fimm ára þegar ég sagðist fyrst ekki vilja borða dýr. Það gerðist þó ekki fyrr en löngu síðar en það blundaði alltaf í mér að það væri eitthvað bogið við þetta kerfi sem framleiðir dýr til þess eins að deyja,“ segir Eva Guðrún.

Breyttust jólahefðirnar eftir að þú varðst vegan?

„Við maðurinn minn höfum verið dugleg að prófa okkur áfram með jólamatinn og erum búin að finna okkar nýju veganvæddu jólahefðir. Áður en ég varð vegan held ég að ég hafi borðað hamborgarhrygg á aðfangadag á hverju ári og ég man hvað ég var kvíðin fyrir fyrstu vegan jólunum. Það voru þó óþarfa áhyggjur því það er hægt að veganvæða eiginlega allan mat ef viljinn er fyrir hendi.

Ég var alin upp á möndlugraut, eða ris a la mande, í forrétt á aðfangadag sem mér finnst orðinn ómissandi og nú gerum við bara vegan útgáfu af þeim graut sem er mjög vinsæll hér heima. Strákarnir eru sjúkir í möndlugrautinn og myndu eflaust borða margar skálar ef það væri í boði. Svo er eftirvæntingin eins og á flestum heimilum með ung börn mest fyrir pökkunum – og kannski jólaísnum í eftirrétt.“

Eva Guðrún Kristjánsdóttir jóla vegan matur
Eva Guðrún Kristjánsdóttir jóla vegan matur mbl.is/Árni Sæberg

Allir vegan nema kötturinn

Eru allir í fjölskyldunni grænkerar og sammála um hvað á að borða á jólunum?

„Við höldum vegan heimili að kettinum frátöldum.“

Spila umhverfissjónarmið inn í mataræðið og hvað finnst þér um jólin í því samhengi?

„Við gerðumst grænkerar út frá dýrunum en ég myndi segja að umhverfissjónarmið væru þar næsti bær við. Við höfum síðustu ár tekið markviss skref til að minnka kolefnisfótspor okkar og reynum að gera okkar besta í desember líka.

Við höfum til dæmis hvatt fjölskylduna til að gefa okkur upplifanir frekar en hluti og kaupa notað til dæmis úr loppumörkuðum frekar en nýjar vörur. Við reynum að fara vel með gjafapappír sem kemur inn á heimilið okkar svo hægt sé að nýta hann aftur þó að börnin taki það nú ekki of alvarlega. Jólin eru yndislegur tími en líka tími sem er orðinn samofinn neysluhyggju og miklum útgjöldum. En það góða er að við getum mótað okkar eigin jól og haft þau eins og við viljum.“

Hvernig er jólahaldið ykkar?

Á aðfangadag hefur það lengi verið jólahefð hjá okkur fjölskyldunni að hittast hjá systur minni í hádeginu á aðfangadag til að borða hveitibrauð og skiptast á pökkum. Þar borðum við saman hveitibrauð og við komum með góða, reykta vegan skinku á meðan þau fá sér hangikjöt. Um kvöldið borðum við litla fjölskyldan saman heima hjá okkur og höfum síðustu ár verið með linsubaunasteik í aðalrétt ásamt dýrindis kartöflum og rjómasveppasósu. Á jóladag höfum við oft borðað með stórfjölskyldunni og þá hefur mamma passað að allt meðlætið sé vegan og við komið með innbakað oumph-wellington og brúna sósu fyrir okkur.“

Eva Guðrún er hreinskilin og segir að maðurinn hennar sé betri kokkur en hún. „Hann sér um flókna matinn á meðan ég græja þetta sem er einfaldara. Ég er með mikið ADHD og á það til að flækjast fyrir sjálfri mér í eldhúsinu svo við erum mjög gott teymi í undirbúningi og framkvæmd. Ég held ég hafi bara lært að elda fyrst þegar ég varð móðir 21 árs gömul. Svo þurftum við eiginlega að læra að elda upp á nýtt þegar við gerðumst grænkerar þá nokkrum árum síðar. Ég vissi ekki hvað helmingurinn af hráefnunum sem ég nota nú daglega var eða hvernig ætti að elda úr þeim en í dag finnst mér þetta jafn einfalt og áður en ég gerðist grænkeri, bara önnur vörumerki.“

Eva Guðrún Kristjánsdóttir jóla vegan matur
Eva Guðrún Kristjánsdóttir jóla vegan matur Árni Sæberg
Eva Guðrún Kristjánsdóttir jóla vegan matur
Eva Guðrún Kristjánsdóttir jóla vegan matur Árni SæbergGulrætur í staðinn fyrir lax

Eva Guðrún gerði grafinn gulróta-lox fyrir jólablaðið en hann er í miklu uppáhaldi hjá fjölskyldunni og öllum sem hafa smakkað.

„Það sem er svo frábært við þessi hráefni er að ófrískar konur mega borða réttinn þar sem það er enginn hrár fiskur eða egg í honum. Einnig hefur umræðan um eldislax sjaldan verið háværari svo mig langar að hvetja fólk til að nota tækifærið og prófa eitthvað nýtt.“

Grafinn gulróta-lox

 • 1 poki gulrætur (um 10 stk.)
 • 3 msk. ólífuolía
 • 70 ml Stubbs liquid smoke (ca. 1/2 flaska)
 • 2 msk. sítrónusafi
 • 2-3 tsk. reykt sjávarsalt
 • pipar eftir smekk
 • 1 pakki af fersku dill
 1. Hita ofninn í 180°C. Flysjið gulrætur í strimla.
 2. Gufusjóðið gulræturnar í um 15 mínútur í tveimur skömmtum.
 3. Setjið gulræturnar í eldast mót þegar þær eru orðnar ágætlegar mjúkar og sullið yfir olíunni, liquid smoke, sítrónusafa og kryddið eftir smekk.
 4. Veltið þessu öllu vel saman og bætið í lokin við slatta af fersku dilli og hrærið stutt saman við.
 5. Alls ekki hræra of mikið því við viljum að dillið fari vel inn í gulræturnar.
 6. Setjið allt inn í ofn og bakið í um 40 mínútur.
 7. Fylgist með að gulræturnar séu ekki þurrar neins staðar og eftir helmings eldunartíma er gott að hræra aðeins í.
 8. Berið fram með ristuðu brauði og lúxusgraflaxsósu (lúxusgraflaxsósan frá Ora er óvart vegan).
Eva Guðrún Kristjánsdóttir jóla vegan matur
Eva Guðrún Kristjánsdóttir jóla vegan matur Árni Sæberg
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert