Pítsa fyrir rómantískan kvöldverð

Rómantíska pitsan fyrir tvo.
Rómantíska pitsan fyrir tvo. Ljósmynd/Berglind Hreiðars

Hér er á ferðinni ekta pitsa fyrir rómantískan kvöldverð sem kemur úr smiðju Berglindar Hreiðars uppskriftahöfundar hjá Gotterí og gersemar. Auðvitað má gera þessa pitsu við hvaða tilefni sem er en Berglind var í rómantískum hugleiðingum þegar hún útbjó þessa. Á pitsunni eru perur, brie ostur og karamelluhnetur sem eru fullkomin blanda og þið hreinlega verðið að prófa þessa dásemd, má líka fá sér pítsu á þriðjudögum.

Pítsa fyrir tvo

  • 50 g pekanhnetur
  • 50 g sykur
  • 20 g smjör
  • 1 stk. gott pitsadeig að eigin vali
  • 5 msk. ricotta ostur
  • 2 litlar perur
  • ¾ brie ostur
  • 4-5 hráskinkusneiðar
  • Filippo Berio balsamik gljái, eftir smekk
  • Ferskt timian eftir smekk
  • Ólífuolía eftir smekk
  • Salt, pipar og hvítlauksduft eftir smekk

Aðferð:

  1. Byrjið á því að útbúa karamelluhnetur með því að saxa pekanhneturnar niður og bræða  næst sykurinn á pönnu.
  2. Setjið smjörið síðan á pönnuna áður en sykurinn fer að brenna, hrærið vel saman, lækkið hitann og blandið pekanhnetunum saman við. Leyfið hnetunum að drekka aðeins í sig karamelluna og hrærið vel.
  3. Dreifið síðan úr hnetublöndunni á bökunarpappír og leyfið að storkna á meðan pizzan er undirbúin.
  4. Hitið ofninn í 220°C og mótið pitsu sem fyllir nánast út í eina bökunarplötu.
  5. Smyrjið ricotta osti yfir botninn og skerið perur og brie ost í sneiðar og raðið yfir pitsuna.
  6. Penslið með smá ólífuolíu og kryddið eftir smekk.
  7. Bakið í 17-20 mínútur eða þar til botninn fer að gyllast vel og pizzan er tilbúin.
  8. Toppið með hráskinku, karamelluhnetum, balsamik gljáa og smá fersku timian.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert