Birna býður upp á blálöngu með sinnepssósu og smælki

Birna Ásbjörnsdóttir matgæðingur og doktor í heilbrigðisvísindum býður lesendum upp …
Birna Ásbjörnsdóttir matgæðingur og doktor í heilbrigðisvísindum býður lesendum upp á uppskrift að blálöngu með ljúffengri sinnepssósu og smælki. Samsett mynd

Birna G. Ásbjörnsdóttir er matgæðingur af lífi og sál. Hún hefur ástríðu fyrir því að matreiða og nýtur sín best í eldhúsinu. Hún vandar líka valið þegar það kemur að því að velja hráefni og fiskur er í uppáhaldi. Hún deilir hér með lesendum matarvefs mbl.is uppskrift að ljúffengri blálöngu sem hún ber fram með sinnepssósu og íslensku smælki.

Stofnandi og eigandi Jörth ásamt manni sínum

Birna er doktor í heilbrigðisvísindum og hafa meltingarvegurinn og þarmaflóran verið þungamiðjan í menntun Birnu og rannsóknum hérlendis og erlendis í tæpa tvo áratugi. Birna starfar sem rannsakandi við Háskóla Íslands og er gestarannsakandi við Harvard-háskólasjúkrahúsið þar sem hún rannsakar íslenska broddmjólk mjólkurkúa og áhrif hennar á meltingarveg, ónæmis- og taugakerfi og geðheilsu. 

Birna er einnig stofnandi og eigandi Jörth ásamt manni sínum Guðmundi Ármanni. Jörth er fyrirtæki sem framleiðir og selur hágæða bætiefni fyrir melgingarveginn. Birna hefur verið brautryðjandi í opinberri umræðu um þarmaflóruna á Íslandi og er óþreytandi í þeirri umræðu um áhrif heilbrigðrar þarmaflóru á heilsu og líðan. Náin tengsl Birnu við vegferð fólks að bættri heilsu, rannsóknir og menntun hennar eru grunnur  að yfirgripsmikilli sérþekkingu á meltingarveginum og þarmaflórunni. 

Eina reglan að velja ávallt besta kostinn sem í boðið er

Þegar kemur að því að velja hvað er borðað breytir Birna ekki matarvenjum ekki endilega í upphafi árs. „Ég breyti ekki matarvenjum mínum í upphafi árs en ég borða eftir árstíðum eins og hægt er. Það er eðlilegt að borða léttara fæði þegar hitastig hækkar og sólin er hærra á lofti,“ segir Birna og segir að hið sama eigi við þegar kalt er, þá sé gott að ylja sér við matarmikilla rétti.

Margir fara í átak á nýju ári og reyna að breyta um lífsstíls sem á að vera hollari og heilbrigðari fyrir líkama og sál. Birna kýs frekar að huga að mataræðinu allan ársins hring. „Mataræðið mitt er alltaf svipað og ég er löngu hætt að gera tilraunir með einhverja kúra og breyta yfir í þetta eð hitt mataræðið. Síðustu tuttugu árin hefur mataræðið mitt verið mjög svipað og ég held að það muni bara verða það áfram. Ég borða mest megins hreinan mat, elda allt frá grunni og vel góð hráefni og hef þá reglu að velja alltaf besta þann besta kost sem í boði er, hvort sem ég er að versla inn eða borða úti. Einnig legg ég mig fram um að nota hráefni úr nærumhverfi eins og kostur gefst. 

Birnu finnst það skiptir öllu máli að velja vandað hráefni. „Ég forðast algjörlega gjörunnin matvæli og hef gert síðan ég var unglingur. Ég breytti mínum lífsstíl þá og hef ekki farið til baka. Get ekki undirstrikað nóg hvað það skiptir miklu máli að velja góð hráefni og á sama tíma forðast unnin matvæli, þá sér í lagi gjörunnin matvæli. Flest öll matvæli sem hafalangar innihaldslýsingar eru gjörunnin og slíkur matur mun aldrei næra okkur. Þvert á móti getur reglulega neysla á gjörkunnum matvælum valdið skaða sem getur leitt til ýmissa kvilla og sjúkdóma.“ 

Nýtur þess að elda fiskrétti á þessum árstíma

„Mér finnst mjög gott að borða fisk og nýt þess að elda fiskrétti á þessum árstíma. Einn af uppáhalds réttunum mínum er blálanga með sinnepssósu, smælki og salati. Með þessum rétti drekk ég gjarnan eitt glas af Zorah Voski hvítvíninu frá Armeníu,“ segir Birna og bætir við að þessi réttur njóti mikilla vinsælda hjá fjölskyldunni og líka þegar matargestir koma í hús.

Til fróðleiks og skemmtunar þá á vínið sér, sem Birna hefur dálæti af, smá sögu. Hjónin Birna og Guðmundur eiga og reka einnig fyrirtækið 1765 sem sérhæfir sig í innflutningi, sölu og dreifingu á vönduðum og einstökum vínum. Nýlega tóku þau inn vín frá Armeníu sem státar af vínsögu sem nær yfir sex þúsund ár aftur í tímann. Þrúgutegundirnar eru einstakar ásamt vínframleiðslutækni. Vínin eru meðal annars grafin niður í sérstökum kerjum og látin gerjast á náttúrulegan máta neðanjarðar án allra inngripa.

Lostæti að njóta og gott að fá sér fisk um …
Lostæti að njóta og gott að fá sér fisk um helgina. Ljósmynd/Birna Ásbjörnsdóttir

Blálanga með sinnepssósu og íslensku smælki

Fyrir 4

  • 800 g blálanga
  • 1 kg smælki
  • 1 salathaus
  • ½ granatepli
  • 3 msk. extra virgin ólífuolía
  • 3 hvítlauksrif
  • 300 g smjör
  • 2 dl rjómi
  • 2-3 msk. Dijon sinnep
  • 1-2 eggjarauður
  • Sjávarsalt eftir smekk
  • Svartur pipar grófmalaður eftir smekk
  • Ferskt kóríander og steinselja eftir smekk 

Aðferð:

  1. Setjið fiskinn í eldfast mót og bakið með 100 g smjöri, salti og pipar í 10-15 mínútur.
  2. Sjóðið kartöflurnar í vatni.
  3. Bræðið smjör á pönnu, saxið hvítlaukinn smátt og steikið létt.
  4. Bætið kartöflum við með hýðinu og steikið þar til gylltar.
  5. Saltið aðeins og stráið grófum pipar yfir.
  6. Setjið  200 g smjör ásamt rjóma í pott og hitið.
  7. Bætið sinnepi út í og blandið vel saman.
  8. Bætið síðan eggjarauðu út í ásamt smá salti og blandið saman í 30 sekúndur.
  9. Takið strax af og setjið til hliðar.
  10. Setjið salat í skál og stráið yfir fræjum úr granatepli ásamt ólífuolíu.
  11. Setjið fiskinn á fat og hellið sósunni yfir.
  12. Berið fram með smælki og salati ásamt góðu hvítvíni eins og Zorah Voski frá Armeníu eða annað sem heillar.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert