Þessar klassísku með jarðarberjafyllingu

Anna Marín Bentsdóttir með uppáhaldsbollurnar sínar með jarðarberjafyllingu.
Anna Marín Bentsdóttir með uppáhaldsbollurnar sínar með jarðarberjafyllingu. Ljósmynd/Bent Marinósson

Það er aldrei of mikið framboð af uppskriftum að bollum sem gleðja matarhjartað og hér er komin uppskrift að klassískum vatnsdeigsbollum úr smiðju Önnu Marínar Bentsdóttur.

Anna Marín ástríðubak­ari er ein þeirra sem held­ur upp á bolludaginn með reisn og elsk­ar fátt meira en að baka.  Hún er tví­tug að aldri og hefur ávallt haft þenn­an brenn­andi áhuga á bakstri. Þessa dagana starfar hún á Kaffi Kokku sem opnaði í vikunni og er staðsett í lífsstíl- og eldhúsversluninni Kokku á annarri hæð. Þar fær hún að njóti sín í því sem henni finnst skemmtilegasta, að baka kræsingar með kaffinu.

Hefur tekið yfir bollubaksturinn heima

Heldur þú hátíðlega upp á bolludaginn?

„Já, ég elska bolludaginn. Ég á margar góðar minningar varðandi bolludaginn frá því þegar ég var lítil. Mamma mín bakaði oft klassískar bollur svipaðar þessari uppskrift hér sem ég ætla að deila með ykkur, nema að hún setti alltaf sætt regnbogakurl ofan á. Ég fékk að taka með mér bollur í skólann fyrir nesti, og var svo spennt að koma heim og fá mér aðra. Undanfarin ár hef ég eiginlega tekið yfir bollubaksturin heima og séð um að baka bollur fyrir alla fjölskylduna,“ segir Anna Marín og þykir það alls ekki leiðinlegt.

„Fyrir nokkrum árum gerði ég þessa uppskrift og hef haldið mig við hana síðan. Uppskriftin er auðveld og ég tel að allir gætu gert hana. Undanfarin ár hef ég farið í flest bakarí sem selja bollur og kaupi eina af hverri sort til að smakka og til finna bestu bolluna. Sem gefur mér líka innblástur.“

Glassúrinn er þykkur og saðsamur og jarðarberin fá að njóta …
Glassúrinn er þykkur og saðsamur og jarðarberin fá að njóta sín með rjómafyllingunni hér. Ljósmynd/Bent Marinósson

Brauðbollur, kjötbollur og rjómabollur á bolludaginn

Finnst þér skipta sköpum að fara alla leið á bolludaginn, baka bollur og vera með bollur í kvöldmatinn, eins og fiskibollur eða kjötbollur?

„Mér finnst það ávallt mjög skemmtilegt að fara alla leið með að hafa bollur í allar máltíðir á bolludaginn. Eins og til dæmis bjóða upp á brauðbollur, kjötbollur og svo auðvitað klassískar rjómabollur. 

Anna Marín segir að fram undan sé annasöm helgi á kaffihúsinu nýja og þar muni bollur vera í forgrunni. „Ef þig langar að smakka þessar bollur hér, án þess að baka sjálf þá getur þú komið við hjá okkur á Kaffi Kokku því við ætlum að selja þessar bollur á kaffihúsinu hjá okkar á efri hæðinni yfir helgina ásamt öðru bakkelsi og ljúffengu kaffi,“ segir Anna Marín sem er komin í bollugírinn.

Anna Marín framreiðir bollurnar á kökudiski á fæti og skreytir …
Anna Marín framreiðir bollurnar á kökudiski á fæti og skreytir með jarðarberjum. Ljósmynd/Bent Marinósson

Klassískar vatnsdeigsbollur a la Anna Marín

12 stk. miðlungs stórar bollur

Bollur

 • 236 ml vatn
 • 110 g smjör
 • 1/2 tsk. salt
 • 1 tsk. sykur
 • 120 g hveiti
 • 3-4 egg

Aðferð:

 1. Setjið vatn, smjör, salt og sykur saman í pott og hitið saman á miðlungs hita þar til
 2. smjörið hefur bráðnað og blandan er rétt svo farin að sjóða.
 3. Hellið hveitinu út í og hrærið stöðugt yfir hitanum þar til það allt helst vel saman í kúlu í u.þ.b. 2-3 mínútur.
 4. Takið af hitanum og setjið deigið í stóra skál og látið kólna í um það bil 3-5 mínútur.
 5. Brjótið síðan einu og einu eggi út í og hrærið mjög vel með sleikju eða í hrærivél.
 6. Áferðin á deiginu á að vera þannig að það leki hægt og svolítið erfiðlega af sleikjunni á nokkrum sekúndum. Deigið á að halda nokkurn veginn sömu lögun eftir að þú setur það á plötuna en ekki leka út og verða flatt.
 7. Notið sprautupoka eða skeiðar til að mynda bollur á bökunarpappír á bökunarplötu
 8. Bakið síðan bollurnar á 190°C í 25-30 mínútur.
 9. Leyfið bollunum síðan að kólna á plötunni.

Súkkulaði glassúr

 • 120 g súkkulaði
 • 100 ml rjómi

Aðferð:

 1. Setjið rjómann og súkkulaðið saman í pott og bræðið saman yfir lágum hita þar til allt hefur bráðið saman.

Rjóma fylling

 • 330 ml mjólk
 • 1 tsk. vanilludropar eða 1 vanillustöng
 • 20 g maísmjöl
 • 60 g flórsykur
 • klípa af salti
 • 4 eggjarauður
 • 40 g smjör
 • 500 ml rjómi

Aðferð:

 1. Hrærið eggjarauður, sykur og maísmjöl með písk þar til blandan léttist í lit u.þ.b. 3 mínútur.
 2. Hitið upp mjólk og vanillu saman í miðlungs potti þar til hann rétt svo síður.
 3. Hellið rjómanum út í eggjarauðurnar í smáum skömmtum og hrærið stöðugt svo að eggin eldist ekki.
 4. Hellið síðan blöndunni aftur yfir í pottinn og hrærið þar til blandan þykist u.þ.b. 3-5 mínútur.
 5. Takið síðan af hellunni og hellið í gegnum sigti ofan í skál, setjið smjörið síðan ofan í og hrærið þar til smjörið hefur bráðnað.
 6. Leggið plastfilmu á yfirborðið og kælið í ísskáp í 3-4 klukkustundir.
 7. Þeytið rjómann þar til að hann er frekar stífur og blandið varlega við eggjablöndu með sleikju.

Samsetning:

 1. Dýfið toppnum af bollunum í súkkulaðið og kælið þar til að súkkulaðið hefur storknað smá Í um það bil 10-30 mínútur.
 2. Skerið bolluna í helming og fyllið botninn með jarðarberjasultu og skornum niður jarðarberjum, sprautið rjómanum ofan á eða notið skeið til að setja rjóman í.
 3. Svo takið bara toppinn af bollunni og setjið hann ofan á.
 4. Berið fram á fallegum kökudisk og skreytið með ferskum jarðarberjum.
 5. Njótið og gleðilegan bolludag.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert