Uppáhaldsbollan hennar Þóreyjar er kaffibollan

Þórey Lovísa Sigurmundsdóttir bakarameistari elskar fátt meira en að taka …
Þórey Lovísa Sigurmundsdóttir bakarameistari elskar fátt meira en að taka þátt í bolludeginum. mbl.is/Arnþór Birkisson

Bolludagurinn er stærsti dagur ársins í bakaríum landsins og mikil áskorun fyrir bakara að takast á við að baka gómsætar bollur fyrir landsmenn. Smekkur manna er misjafn og allir eiga sínar uppáhaldsbollu.

Þórey Lovísa Sigmundsdóttir bakarameistari elskar að takast við áskoranir í bakstrinum og langskemmtilegast finnst henni að fá tækifæri til að þróa og skapa sínar eigin vörur og láta matarhjartað ráða för. Hún á sér líka uppáhaldsbollu og deilir hér með lesendum uppskriftinni að henni.

Uppáhaldsbollan hennar Þóreyjar er kaffibollan en uppskriftina fann hún í …
Uppáhaldsbollan hennar Þóreyjar er kaffibollan en uppskriftina fann hún í uppskriftabók eftir mikinn meistara. mbl.is/Arnþór Birkisson

Fékk tilboð á borðið að vera yfirbakari á nýju kaffihúsi

Þórey er búin að vera í matvælageiranum í rúm tíu ár og þó aðeins 26 ára gömul. „Ég er búin að tækla alls konar áskoranir síðan þá. Ég lærði í Sandholt bakarí á Laugaveginum og var þar í rúm sex ár. Eftir það ákvað ég að taka mér stutta pásu og fór að vinna hjá Kokku á Laugarveginum þar sem ég lærði fullt bæði um öll áhöld og tól sem notuð eru í matvælageiranum og að auki bætti ég mig fullt í sölumennsku. Eftir eitt og hálft ár þar fékk ég gott tilboð á borðið, að taka við stöðunni að vera yfirbakari á glænýju kaffihúsi sem var að opna út við Granda, nánar tiltekið við gamla Héðinshúsið,“ segir Þórey.

Þórey tók því starfi eins og hverri krefjandi áskorun. Fyrstu 6 mánuðirnir fóru í mikla þróunnarvinnu og að kaupa allt til sem til þurfti til að setja upp bakaríið. Um miðjan febrúar árið 2022 opnaði loksins Hygge coffee and micro bakery. „Þá fékk ég þá loksins vettvang til að skapa og baka mínar vörur fyrir almenning sem hafði verið draumur minn lengi,“ segir Þórey og brosir og bætir við að síðan þá hafa móttökurnar verið mjög jákvæðar. „Þetta er það skemmtilegasta sem ég geri, að gleðja fólk með gómsætum kræsingum sem skila eftir sig góðar minningar. En í frítíma mínum nýt ég mín best að slaka á, fara á kaffihús eða taka þátt í menningarlegum viðburðum. Einnig finnst mér ekkert skemmtilegra en að ferðast og hvað þá að heimsækja bakarí og kaffihús í öðrum löndum til að fá innblástur eða hugmyndir af einhverju spennandi og nýju til að bjóða mínum viðskiptavinum upp á,“ segir Þórey dreymin á svip.

Halda daginn hátíðlegan með bollusmakki

Bolludagurinn hefur alltaf verið í miklu uppáhaldi Þóreyju. „Bolludagurinn varð mun skemmtilegri eftir að ég byrjaði að vinna í bakaríi. Ég elska hvernig samfélagið heldur upp á þennan dag og gaman að sjá vegalengdirnar sem fólk leggur á sig að fara til að næla sér í bollu á bolludaginn. Ég og vinkonurnar sem eru allar í sama geira höldum daginn hátíðlega með bollusmakki sem lýsir sér eins og pálínuboði, þar sem við smökkum bollur frá hvort annari og öðrum stöðum. Þessi hefð hefur svo sannarlega skipað sér fasta sess og er kærkomin eftir að við erum búin að hamast í bollubakstri á vinnustöðunum okkar. Virkilega góð leið til að enda viðburðaríkan dag.“

Aðspurð segist Þórey ekki eiga bolluvönd sem fylgdi hefði á bolludaginn hér áður fyrr. „Ég gerði nokkra í leikskóla en þeir hafa líklegast endað í ruslinu, mamma nennti ekki að fylla geymsluna með einhverju drasli, eins og hún orðaði það.“ Þórey segist þó halda í hefðina alla leið eins og á bolludaginn og í kvöldmatinn sé líka lagt upp úr því að vera með annaðhvort fisikibollur eða kjötbollur í matinn. „Ég hef alltaf verið mikil hefðarkona og finnst mikilvægt að reyna leggja sig fram á dögum sem þessum til að reyna skvetta smá gleði í tilveruna. Styð ég hvern þann sem er til í að fara alla leið á svona hátíðardegi eins og bolludeginum.“

Þórey er yfirbakari á kaffihúsinu Hygge coffee and micro bakery …
Þórey er yfirbakari á kaffihúsinu Hygge coffee and micro bakery þar sem hún hefur fengið að þróa sínar eigin kræsingar. mbl.is/Arnþór Birkisson

Uppskrift eftir mikinn meistara

Í tilefni bolludagsins sviptir Þórey hulunni af einni bolluuppskrift sem hún heldur mikið upp á. „Þessa uppskrift gróf ég upp úr bók eftir mikinn meistara fyrir mörgum árum þegar ég var fyrst að baka bollur heima hjá mér. Ég var mjög skeptísk á það að þessi uppskrift væri að fara ganga upp hjá mér, alveg fram að síðasta skrefi, þá gerðist kraftaverkið, bollurnar komu svo blússandi vel út,“ segir Þórey sem var sigri hrósandi eftir baksturinn þetta skiptið. Þórey vill þó brýna vel fyrir lesendum að það sé mjög mikilvægt er að treysta uppskriftinni og fylgja henni skref fyrir skref. „Hún smellur vanalega saman þegar síðasta eggið er komið.“

Þó Þórey viti að vinsælt sé að baka sínar eigin bollur þá vill hún gjarnan hvetja alla til að fara í eins mörg bakarí og hægt og smakka mismunandi týpur af bollum. „Jafnvel búa til bollusmakk með fjölskylduni eða vinunum, þar sem hver og einn kemur með bollu/r frá einu bakarí á hlaðborð. Fyrir þá sem vilja taka þetta ennþá lengra er hægt að gefa einkunnir og bera saman til að sjá hvaða bolla stendur upp þetta árið,“ segir Þórey að lokum.

Bollurnar hennar Þóreyjar eru freistandi fyrir augu og maga.
Bollurnar hennar Þóreyjar eru freistandi fyrir augu og maga. mbl.is/Arnþór Birkisson

Kaffibollan uppáhaldsbollan hennar Þóreyjar

Vatnsdeig

 • 300 ml vatn   
 • 300 ml mjólk
 • 10 g sykur     
 • 8 g salt           
 • 540 g smjör   
 • 480 g hveiti   
 • 820 g egg       

Aðferð:

 1. Vatn, mjólk, sykur salt og smjör soðið saman í potti.
 2. Hellið hveitinu út í þegar suðan er komin upp og hrærið stanslaust þar til að deigið losnar frá pottinum.
 3. Setjið deigið í hrærivél með spaða og hellið eggjunum út í skömmtum.  Þegar öll eggin eru komin í setið þá deigið sett í bakka og kælið niður í 1-2 klukkustundir.
 4. Sprautið því síðan á ofnplötu klædda bökunarpappír og bakið á 175°C hita í 25 mínútur og passið að opna ekki ofninn á meðan.

Craqeline

 • 112 g smjör               
 • 134 g púðursykur    
 • 124 g hveiti               
 • 16 g kakó                   

Aðferð:

 1. Hnoðið saman í hrærivél með spaða.
 2. Rúllið þunnt út.
 3. Skerið út með hringlaga útstingara.
 4. Leggið á bolluna áður en hún fer inn í ofn, þá þarf ekki að spreyja eggi á vatnsdeigið.

Kaffi ganas

 • 340 g rjómi                           
 • 37 g espresso            
 • 45 g hunang              
 • 200 g dökkt súkkulaði         
 • 25 g smjör (við stofuhita)                            

Aðferð:

 1. Sjóðið saman rjóma, epresso og hunang.
 2. Hellið yfir súkkulaði og búið til ganas.
 3. Síðan þegar hann er búinn að kælast niður í 40°C hita er smjörið, við stofuhita, sett út í og blandað saman við með töfrasprota.
 4. Kælið yfir nótt og það er blandan tilbúin til notkunar.
 5. Setjið ofan lokið á bolluna þegar búið er að setja fyllinguna í bolluna.

Mascarpone rjómi

 • 250 g mascarpone    
 • 240 g rjómi               
 • 60 g flórsykur
 • 20 g vanilludropar   

Aðferð:

 1. Þeytið saman rjóma og flórsykur í hrærivél.
 2. Þeytið saman mascarpone og vanillu í höndunum þar til kekkjalaust.
 3. Blandið síðan saman þeytta rjómanum og mascarpone blöndunni varlega saman.
 4. Setjið á botninn á bollunni þegar búið er að kæla bollurnar. 
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert