Mexíkóskt lasanja sem allir krakkar vilja í matinn

Mexíkóskt lasanja í einföldu útgáfunni sem börnin eiga eftir að …
Mexíkóskt lasanja í einföldu útgáfunni sem börnin eiga eftir að elska. Ljósmynd/Ingunn Mjöll

Hér er á ferðinni fjölskylduvænn réttur sem allir ráða við að gera og krakkarnir munu elska. Þetta er auðveldari útgáfan að mexíkósku lasanja þar sem tortilla pönnukökur eru notaðar í staðinn fyrir lasanja plötur og rétturinn er skreyttur með Doritos eða nachos flögum að vild. Uppskriftin kemur úr smiðju Ingunnar Mjallar sem heldur úti uppskriftasíðunni Íslandsmjöll og er þekkt fyrir að fara einfaldari leiðina í matargerðinni sem er jafnframt hagkvæm fyrir buddu heimilisins.

Mexíkóskt lasanja

Fyrir 4-5

 • 5-6 stk. kjúklingabringur eða minna
 • ½ laukur (má vera rauðlaukur ef vill)
 • 2 rauðar paprikur
 • 1 pk. burrito kryddmix eða taco kryddmix
 • 2 krukkur/dósir af salsasósu, mildri eða heitri eftir smekk
 • ½ l matreiðslurjómi
 • 6 stk. tortilla pönnukökur
 • 1 pk gratíneraður ostur eða mozzarella ostur, fer eftir smekk
 • Doritos eða annað nachos snakk til að bera réttinn fram með
 • Límónusneiðar og ferskt kóríander til skrauts ef vill, má sleppa

Aðferð:

 1. Byrjið á að skera kjúklingabringurnar í bita og steikið á pönnu upp úr olíu og kryddið  til með burrito eða taco kryddi eftir smekk.
 2. Skerið niður lauk og papriku og bætið saman við kjúklinginn og steikið áfram þar til kjúklingurinn er eldaður og paprikan og laukurinn eru orðin mjúk.
 3. Bætið þá saman við salsa sósunni og rjómanum og látið malla í smá stund áfram.
 4. Takið til kringlótt eldfast mót til að útbúa réttinn í.
 5. Raðið tortilla kökum í botninn á eldfasta mótinu og passið að þekja alveg botninn, klippið tortillurnar til ef þess þarf.
 6. Setjið svo kjúklingaréttinn ofan á, aftur tortillur og svo koll af kolli og endið á kjúklingnum.
 7. Bætið að lokum gratíneruðum osti ofan á og setjið inn í ofn á 180°C hita og bakið réttinn í 15-20 mínútur eða þar til osturinn er bráðinn.
 8. Ef vill er upplagt að brjóta niður smá nachos niður og strá yfir réttinn áður en hann er borinn fram. Einnig er lag að skreyta réttinn með ferskum límónusneiðum og fersku kóríander ef vill.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert