Grillaðar blómkáls „steikur“ með bleikri sósu

Þessar blómkáls „steikur“ eru algjört lostæti og koma skemmtilega á …
Þessar blómkáls „steikur“ eru algjört lostæti og koma skemmtilega á óvart. Sjáið Kristjönu Steingrímsdóttur, Jönu, útbúa steikurnar og bleiku sósuna. Samsett mynd

Þessar blómkálssteikur eru algjört lostæti og þessi bleika sósa er ómótstæðilega ljúffeng með steikunum. Steikurnar eru bornar fram með bleikri tahini sósu, sterkri basil dressingu og ögn af fersku salati og sprettum að eigin vali. Uppskriftin kemur úr smiðju Kristjönu Steingrímsdóttur heilsumarkþjálfa, alla jafna kölluð Jana. Jana er iðin við að deila með fylgjendum sínum á Instagram-síðu sinni ýmis konar uppskriftum af heilsusamlegum og góðum réttum. Sjáið Jönu útbúa dýrðlegu steikarmáltíðina!

Grillaðar blómkáls „steikur“ með bleikri sósu

 • 1 blómkálshaus
 • 3-4 msk. ólífuolía
 • 1 hvítlauksrif, pressað
 • ½ tsk. Grænmetisparadís (kryddblanda frá Kryddhúsinu)
 • Hvítlauks salt eftir smekk
 • Pipar eftir smekk

Meðlæti og til skrauts:

 • Salat að eigin vali
 • Sprettur að eigin vali
 • Granateplafræ
 • Bleik tahini sósa (uppskrift fyrir neðan)
 • Sterk basil dressing (uppskrift fyrir neðan)

Aðferð:

 1. Skerið blómkálið í sneiðar eða í „steikur“.
 2. Setjið á ofnplötu klædda bökunarpappír.
 3. Hellið ólífuolíu í litla skál, pressið hvítlauksrifið ofan í, hrærið og berið á blómkálið og kryddið til eftir smekk.
 4. Bakið blómkáls „steikurnar“ í 200°C hita í bakarofni í um það bil 10-15 mínútur.
 5. Snúðið síðan við blómkálinu og bakið í 10-15 mínútur til viðbótar eða þar til blómkálið er orðið gullinbrúnt.
 6. Útbúið síðan bleiku tahini sósuna og grænu sterku basil dressinguna á meðan blómkálið bakast í ofninum. Sjá uppskriftir hér fyrir neðan.
 7. Þegar grillaða blómkálið er tilbúið ásamt sósunum er næst skref að bera réttinn fram.
 8. Setjið smá grænt salat á disk, síðan bakaða blómkálið, setjið loks með bleiku og grænu sósurnar ofan á ásamt smá  af sprettum og granateplafræjum.

Bleik tahini sósa

 • 2 miðlungs stórar rauðrófur (ferskar og afhýddar)
 • ½ bolli vatn
 • ¼ bolli tahini
 • 2 msk. ólífuolía
 • 2 msk. grísk jógúrt
 • Safi úr ½ sítrónu
 • 1 msk. akasíuhunang
 • 1 hvítlauksrif
 • Smá salt og pipar

Aðferð:

 1. Setjið allt hráefnið í góðan blandara og blandið vel saman.
 2. Setjið í skál.

Sterk basil dressing

 • 1 box ferskt basil
 • Smá fersk steinselja
 • Smá ferskt kóríander
 • Smá klettasalat
 • 1 hvítlauks rif
 • Smá skvetta af sítrónu
 • 1 ½ msk. næringarger
 • 3-4 msk. chili kasjúhnetur
 • 1/4 - 1/2 bolli vatn
 • 2 msk. ólífuolía
 • Salt eftir smekk
 • Pipar eftir smekk

Aðferð:

 1. Setjið allt hráefnið í góðan blandara og blandið vel saman.
 2. Setjið í skál.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert