Unaðslegt bananabrauð

Bananabrauðið er unaðslega ljúffengt nýbakað borið fram með smjöri.
Bananabrauðið er unaðslega ljúffengt nýbakað borið fram með smjöri. Ljósmynd/Jana

Hvað er betra en að hefja daginn á unaðslega góðu og ylvolgu bananabrauði? Þegar við eigum banana sem eru komnir á síðasta snúning er tilvalið að skella í bananabrauð. Bananabrauðið er allra best ylvolgt með smjöri, þá bráðnar það í munni. Hér erum við með uppskrift að bananabrauði sem kemur úr smiðju Kristjönu Steingrímsdóttur, Jönu, sem veit fátt skemmtilegra en útbúa hollar og góðar kræsingar sem eiga við í öll mál. Uppskriftina gerði hún fyrir uppskriftasíðu Nettó.

Bananabrauð Jönu

  • 2 bollar hveiti ( Jana notaði möndlumjöl, en frjálst að nota hvaða hveiti sem er)
  • ½ bolli sykur
  • ¼ bolli púðursykur
  • 1 tsk. matarsódi
  • 2 msk. hörfræ
  • ½ tsk. salt
  • 3 mjög þroskaðir, bananar, stappaðir vel (um 1 ½ bolli)
  • ½ bolli grísk jógúrt
  • 2 stór egg
  • ¼ bolli fljótandi kókosolía
  • 1 tsk. vanilla
  • ½  bolli saxaðar valhnetur, pekanhnetur og/eða súkkulaðibitar

Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 170°C hita. 
  2. Setjið bökunarpappír ofan í eldfast brauðform (eða notið silíkon brauðform og sleppur þá bökunarpappírnum)
  3. Hrærið saman hveiti, sykur, púðursykur, matarsóda, hörfræjum og salti í stórri skál.
  4. Maukið banana með gaffli og hrærið við egg, gríska jógúrt, kókosolíuna og vanilluna í sér skál.  
  5. Bætið blautu hráefnunum við þurrefnin og hrærið þar til það hefur blandast saman. 
  6. Hrærið söxuðum hnetum og/eða súkkulaðibitum saman við og setjið í bökunarformið.
  7. Bakið brauðið í 50 til 60 mínútur þar til tannstöngli sem stungið er í kemur hreinn út
  8. Takið brauðið úr ofninum og leyfið því að kólna aðeins.
  9. Berið síðan fram ylvolgt með smjöri og njótið. 
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert