Dökkhærð kona teygði sig í neðstu hilluna og fann fjársjóð

Kransakökudeigið kemur tilbúið í pokum. Það eina sem þarf að …
Kransakökudeigið kemur tilbúið í pokum. Það eina sem þarf að gera er að klippa gyllta flipann af og sprauta deiginu á bökunarplötu. Samsett mynd/odense-marcipan.dk

Er fólk ekki orðið raunverulega fullorðið þegar það kann að baka kransakökur upp á eigin spýtur án hjálpar? Hugsanlega. Það eru auðvitað margar leiðir til að þess að baka kransaköku en hvers vegna sagði enginn að það væri hægt að kaupa deigið tilbúið úti í matvörubúð?

Í fyrra fékk dökkhærð breiðleit kona þá flugu í höfuðið að nú væri tíminn kominn. Hún yrði að læra að baka kransaköku. Það er náttúrlega enginn fullnuma í heimilisfræðum nema kunna það. Ferming sonarins var fram undan og sá konan fyrir sér að það gæti verið gaman að bjóða upp á heimagerða kransakökubita í veislunni. Dökkhærða konan lagðist í nokkra rannsóknarvinnu og leitaði ráða hjá helstu sérfræðingum á matreiðslubrautinni. Hvernig þeir gerðu kransakökudeigið og hvert væri trixið til þess að kransakakan smakkaðist sem best. Eitthvað var fátt um svör. Fólk fór undan í flæmingi.

Hér eru kransakökubitar ásamt kókósbollum, jarðarberjum og litlum súkkulaðibitakökum.
Hér eru kransakökubitar ásamt kókósbollum, jarðarberjum og litlum súkkulaðibitakökum. mbl.is/Marta María Winkel Jónasdóttir

Í ljós kom að þessir sérfræðingar á matreiðslubrautinni voru svo önnum kafnir við að klifra upp metorðastigann í lífinu að þeir höfðu bara aldrei nokkurn tímann gert kransaköku frá grunni. En þeir vissu nákvæmlega hvar væri best að panta kransakökuna og hvernig væri best að bera hana á borð.

Dökkhærða kona fann nokkrar uppskriftir og var ekki alveg viss hver þeirra væri langbest. Það leið að fermingunni og dökkhærða konan var við það að missa af kransakökulestinni þegar henni barst liðslauki úr óvæntri átt. Í samtali við gamla vinkonu kom í ljós að hún var ekki bara sæt og klár heldur lúrði hún á nokkrum pokum af tilbúnu kransakökudeigi í skottinu. Hún hafði keypt deigið fyrir frænku sína og ætlað að senda það til útlanda en eitthvað voru reglugerðir um flutning á matvælum á milli landa að þvælast fyrir.

„Þú mátt bara eiga deigið,“ sagði hún og bætti við:

„Ég fer bara út í bíl og sæki það núna,“ sagði hún og valhoppaði út út á bílaplan í Borgartúni til að sækja deigið.

Við blöstu nokkrir bleikir pokar merktir Odense Kransekage. Það eina sem þurfti að gera var að klippa lítinn gylltan flipa af einu horninu. Pokarnir eru eins og kramarhús í laginu svo enginn opni það á vitlausum stað. Í pokanum var innbyggður kransakökubitastútur sem gerði það að verkum að þegar búið var að klippa þá þurfti bara að sprauta kransakökumassanum á bökunarplötu og gera það vel. Það er ekkert eins sjoppulegt og illa lagaðir kransakökubitar var þessari dökkhærðu sagt. Reyna að vanda sig – ekki vera brussa. Á pakkanum voru nákvæmar leiðbeiningar um hvað kökurnar ættu að vera lengi inni í ofninum og hvernig best væri að bera sig að. Í hverjum poka eru 400 g og fyrir meðalveislu er fínt að gera kransakökur úr fimm pokum. Betra að gera meira en minna svo það verði hugsanlega afgangur sem dökkhærðar konur geta stolist í um nætur ef þær eru andvaka. Stóra ráðgátan er hins vegar hvers vegna enginn sagði frá því að nóg væri að teygja sig í neðstu hilluna í matvörubúðinni tli þess að finna fjársjóð í bleikum glansandi plastpoka!

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert