Kampavíns-risotto með smjörsteiktum aspas

Monika Borys/Unsplash

Á ferð minni um Mexíkó í byrjun ársins smakkaði ég albesta risotto sem komið hefur inn fyrir varirnar ef frátalið er risotto með beikoni og sveppum sem matreitt var af fornleifafræðingi sem býr í Mosfellsdal. Þegar heim var komið voru gerðar nokkrar tilraunir með þennan rétt og að lokum tókst að fullkomna hann.

Það er auðvelt að útbúa risotto og sniðugt að nota þennan rétt sem forrétt eða sem hliðarrétt því það er kannski svolítið yfirþyrmandi sem full kvöldmáltíð en auðvitað er það smekksatriði eins og svo margt.

Kampavíns-risotto með smjörsteiktum aspas 

 • 1 laukur smátt saxaður
 • 4 lífræn hvítlauksrif
 • 1 búnt ferskur aspas í grænum lit
 • 1 tsk. grænt pestó
 • 50 g risotto-hrísgrjón
 • 1 l grænmetissoð (1 lífrænn grænmetisteningur leystur upp í soðnu vatni)
 • Rauðvínsglas af kampavíni eða freyðivíni.
 • handfylli rifinn parmesan-ostur
 • 2 msk. smjör
 • salt og pipar eftir smekk
 • steinselja til skrauts og bragðauka

Aðferð: 

 1. Byrjið á því að setja smjör í steypujárnspott og mýkið lauk og hvítlauk í pottinum.
 2. Hellið risotto-hrísgrjónunum saman við og bætið kampavíninu út í (ekki vera búin að drekka alla flöskuna á þessum tímapunkti).
 3. Hellið hluta af grænmetissoðinu saman við og hrærið reglulega í blöndunni þangað til risotto-hrísgrjónin eru búin að draga allan vökva í sig. Þá er meira af grænmetissoðinu bætt við og svo koll af kolli þangað til hrísgrjónin eru búin að taka í sig allan vökva og fullsoðin.
 4. Þá er komið að aspasnum. Setjið smjör á pönnu og léttsteikið og skerið í bita.
 5. Bætið honum út í risottoið.
 6. Þegar það er fullsoðið er parmesan-ostinum bætt út í ásamt smá smjörklípu og pestóinu.
 7. Saltið og piprið eftir smekk og skreytið með ferskri steinselju.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka