Íslenska rjómatertan í öllu sínu veldi

Íslenska rjómatertan í öllu sínu veldi. Svampbotnar með þeyttum rjóma …
Íslenska rjómatertan í öllu sínu veldi. Svampbotnar með þeyttum rjóma og niðursoðnum kokkteilávöxtum. Ljósmynd/Ingunn Mjöll

Sumir elska þessa gömlu íslensku rjómatertu og vita ekkert betra þegar á að njóta þess að borða köku. Hér áður fyrr voru ferskir ávextir og ber ekki í boði og þess vegna var verið að nota niðursoðnu ávextina til að bragðbæta og skreyta rjómatertur. Það er ekki oft sem þessi rjómaterta er í boði á veisluborðum landsmanna nú orðið en hér kemur uppskrift handa aðdáendum íslensku rjómatertunnar. Ingunn Mjöll sem heldur úti uppskriftasíðunni Íslandsmjöll birti þessa guðdómlegu uppskrift en heiðurinn af skreytingunni á Margrét Baldursdóttir.

Rjómaterta með kokkteilávöxtum á gamla mátann

Botnar

2 stykki

 • 4 egg
 • 4 dl flórsykur
 • 1 dl hveiti
 • 1 dl kartöflumjöl
 • 1 tsk. lyftiduft
 • 1–2 tsk. vanilludropar
 • 750 ml rjómi (3 pelar)
 • Hálfdós, niðursuðudós, kokkteilávextir

Aðferð:

 1. Byrjið á því að þeyta saman egg og sykur þar til blandan er létt og ljós.
 2. Sigtið þá þurrefnin saman við, setjið vanilludropa út í og hrærið varlega saman með sleif.
 3. Hellið í tvö vel smurð tertumót og bakið við 180°C hita í 10–15 mínútur.
 4. Þegar botnarnir eru alveg kaldir er vætt í þeim með ávaxtasafanum úr dósinni.
 5. Þeytið 250 ml af rjóma vel og blandið ávöxtunum saman við.
 6. Setjið blönduna ofan á botninn og skellið hinum botninum yfir.
 7. Þeytið það sem eftir er af rjómanum og smyrjið kökuna með rjómanum og skreytið, bæði hliðar og toppinn. Tilvalið er að nota rauðu kokkteilberin úr blöndunni til að skreyta, en hér gildir að nota ímyndunaraflið.
 8. Best er að gera kökuna deginum áður.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka