Dásamlegur eftirréttur með sítrónuskyri

Þessi eftirréttur er einstaklega fallegur í háu glasi á fæti. …
Þessi eftirréttur er einstaklega fallegur í háu glasi á fæti. Sjáið hvað brenndi marensinn kemur skemmtilega út. Ljósmynd/Guðrún Ýr Eðvaldsdóttir

Hér er á ferðinni dásamlegur eftirréttur sem er léttur, sætur og smá súr þar sem skyrið leikur aðalhlutverkið. Guðrún Ýr Eðvaldsdóttir hjá Döðlur og smjör á heiður af uppskriftinni og finnst skyr vera fullkomið til nota í eftirrétti. Þetta er skemmtilegur réttur sem er hægt að leika sér með og gera allt frá grunni svo er bara hægt að skella í skyrið og kaupa sítrónusmjörið og marensinn tilbúinn, allt eftir ykkar tempói.

Dásamlegur eftirréttur sem gleður bragðlaukana.
Dásamlegur eftirréttur sem gleður bragðlaukana. Ljósmynd/Guðrún Ýr Eðvaldsdóttir

Skyr með hvítu súkkulaði og sítrónusmjöri

Fyrir 6

  • 150 g LU kex
  • 50 ml mjólk
  • 100 g hvítt súkkulaði
  • 1 tsk. vanilludropar
  • 500 g vanilluskyr

Aðferð:

  1. Myljið kexið í matvinnsluvél eða í poka og með kökukefli.
  2. Dreifið í botn á sex skálum.
  3. Setjið mjólk og súkkulaði saman í skál og bræðið í örbylgjuofni eða yfir vatnsbaði þangað til það er bráðið.
  4. Bætið vanilludropum saman við og leyfið kólna lítillega.
  5. Setjið saman í skál súkkulaðiblönduna og skyrið og hrærið vel saman.
  6. Gott er að hella í sprautupoka og þannig í glösin, hellið jafnt í glösin, setjið inn í kæli og kælið í 2-3 klukkustundir.

Sítrónusmjör

  • 40 g sítrónusafi
  • 1 tsk. sítrónubörkur
  • 20 g smjör, við stofuhita
  • 1 egg, við stofuhita
  • 1 eggjarauða
  • 55 g sykur

Aðferð:

  1. Allt sett í blandara og blandað saman þangað til að öll hráefnin hafa blandast vel saman, það á það til að skilja sig í upphafi þá er bara að halda áfram að blanda þangað til allt er rennislétt.
  2. Þá er blandan sett í pott á lágan hita og hrært í öðru hverju.
  3. Eftir smá tíma fara að myndast þykkar búbblur sem segir til að það er byrjað að þykkna, hrærið aðeins og takið svo af hellunni og hellið í hreint ílát og leyfið að kólna.

Svissneskur marens

  • 2 eggjahvítur
  • ½ tsk. cream of tartar
  • 100 g sykur
  • 1 tsk. vanilludropar
  • klípa af salti

Aðferð:

  1. Öllu blandað saman í skál og sett yfir vatnsbað s.s. pott með vatni í miðlungshita.
  2. Hitið þangað til að blandan er 71°c eða þangað til að þið getið sett dropa á puttann og nuddað saman og þið finnið ekki lengur sykurkorn.
  3. Setjið þá í hrærivél og hrærið þangað til að marensinn er orðinn stífþeyttur (Hér er einnig hægt að nota tilbúinn marens).
  4. Takið skyrið úr kæli og setjið rúma matskeið í hvert glas og dreifið úr með skeiðinni. Setjið marensinn í sprautupoka og sprautið yfir.
  5. Til að gera hann extra fínan er hægt að nota brennara til að brenna hann aðeins.
  6. Skreytið með bláberjum eða því sem ykkur finnst passa með.
  7. Berið fram og njótið. 
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert