Þessi kaka á eftir að fuðra upp af disknum

Syndsamlega góð þessa þristakaka og það verður keppst um síðustu …
Syndsamlega góð þessa þristakaka og það verður keppst um síðustu sneiðina. Sjáið þetta krem. Ljósmynd/Andrea Gunnarsdóttir

Hér er á ferðinni þristakaka með saltkaramellu þristakremi sem er svo syndsamlega góð að það er erfitt að stoppa eftir fyrstu sneiðina. Hún er lungamjúk, blaut í sér, með þristabitum og silkimjúku kremi úr þristum og saltkaramellu. Uppskriftin kemur úr smiðju Andreu Gunnars sem heldur úti uppskriftasíðu í sínu nafni. Þessa köku má enginn súkkulaðiunnandi láta fram hjá sér fara, hún er svo unaðslega góð.

Þristakaka

 • 200 g suðusúkkulaði
 • 150 g smjör
 • 175 g púðursykur
 • 4 egg
 • 1 tsk. salt
 • 5 msk. hveiti
 • 1 pk. þristar, skornir í sneiðar

Aðferð:

 1. Hitið ofninn í 180°C hita.
 2. Bræðið suðusúkkulaðið og smjörið saman í potti.
 3. Hrærið saman eggjum og púðursykri í skál með gaffli, ekki þeyta deigið á neinum tímapunkti.
 4. Hrærið súkkulaðiblöndunni saman við eggin og púðursykurinn.
 5. Bætið salti og hveiti saman við og hrærið vel saman.
 6. Bætið þristunum saman við deigið og blandið vel.
 7. Setjið bökunarpappír í botninn á 20 cm móti og smyrjið mótið að innan.
 8. Hellið deiginu í formið og bakið í 45 mínútur.
 9. Látið kökuna kólna alveg áður en kremið er sett á.

Saltkaramelluþristakrem

 • 50 g smjör
 • 50 g smjörlíki
 • 50 g suðusúkkulaði
 • 5 litlir þristar
 • 2 msk. saltkaramella (heimatilbúin eða keypt, ég notaði frá Skúbb)
 • 2 msk. síróp
 • 2 msk. rjómi
 • 2 dl flórsykur

Aðferð:

 1. Þeytið smjör og smjörlíki saman á háum hraða í 7 mínútur.
 2. Bræðið suðusúkkulaði, þrista, síróp og rjóma saman yfir vatnsbaði og látið kólna aðeins.
 3. Setjið 2 matskeiðar af saltkaramellu saman við smjörið og þeytið áfram í nokkrar mínútur.
 4. Bætið þristablöndunni varlega út í og þeytið áfram um dágóða stund.
 5. Bætið að lokum flórsykrinum saman við í smáum skömmtum og þeytið vel á milli.
 6. Þeytið kremið að lokum í 8 mínútur eða þangað til það er orðið alveg slétt og silkimjúkt.
 7. Setjið kremið yfir kökuna og skreytið að vild. 
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert