Pítsa er ekki bara pítsa, það veit Árni

Pítsurnar hans Árna Þorvarðarsonar hafa ýmist fengið nafnið Pabbapítsur eða …
Pítsurnar hans Árna Þorvarðarsonar hafa ýmist fengið nafnið Pabbapítsur eða Járnkarlapítsur. Föstudagspítsan er Pestó Pítsa að þessu sinni. Samsett mynd

Föstudagar eru pítsudagar hjá mörgum fjölskyldum og framvegis mun birtast pítsuuppskriftir sem lesendur matarvefsins geta prófað og máta sig við. Pítsa er einn vinsælasti matur í heimi og hefur verið um árabil. Sá fyrsti sem ríður á vaðið með pítsuuppskrift og mun eflaust deila með lesendum matarvefsins nokkrum uppskriftum af pítsum í sumar er Árni Þorvarðarson bakari og fagstjóri við Hótel- og matvælaskólann.

Pabbapítsur eða Járnkarlapítsur

Árni hefur síðustu ár verið duglegur að þróa pítsur og baka bæði fyrir börnin sín og vini þeirra auk þess sem það er alltaf vinsælt að bjóða fjölskyldunni og vinum í mat. Pítsurnar hans Árna hafa ýmist fengið nafnið Pabbapítsur eða Járnkarlapítsur.

Uppruna pítsunnar má rekja til fornra menningarheima en eins og flestir vita var pítsan eins og við þekkjum hana í dag fundin þar upp. Flatbakan með einföldum áleggjum, einstakt bragð og stíl er það sem hefur heillað fólk um allan heim og mun halda áfram að gera hvort sem er með napólsku þunnbotna pítsunni eða sikileysku þykku pítsunni. Ítalir hafa þróað pítsur fyrir allra manna smekk og óskir og veitt öðrum tegundum matar innblástur.

Sport að fá boð í pítsapartí hjá Árna bakara

Pítsurnar hans Árna eiga sér sögu síðan 2018 eða þegar pítsaofnarnir eru að byrja að ryðja sér til rúms á Íslandi. „Á þessum tíma er einnig mikil vitundarvakning í súrdeigsbakstri og ég var þekktur fyrir að halda við hinum ýmsu tegundum af súrdeigsmömmum í ísskápnum heima. Kominn var upp góður kjarni af vinum og kunningjum sem skiptist á uppskriftum og prófaði sig áfram með hin ýmsu deig. Á þessum tíma eru börnin ung að árum og eiginkonan vann mikið erlendis. Það var því oftar en ekki auðveldast fyrir mig að græja heimagerðar pítsur í kvöldmat. Smám saman fóru pítsurnar að verða vörumerki innan vinahópa barnanna og það var orðið sport að fá boð í pítsapartí hjá Árna bakara,“ segir Árni og hlær.

Árni segir að einn mikilvægasti þátturinn í pítsagerð sé notkun á góðu hráefni. „Ég byggi mínar pítsur upp á súrdeigi sem hefur almennt minni áhrif á blóðsykur fólks. Hrein tómatpúrra og ekki of mikill ostur eða álegg gerir það að verkum að pítsan nýtur sín betur bæði í bakstri og í munni. Svo er mikilvægt að hafa góðan ofn til að baka pítsuna í.“

Prófa næst ofn með snúningsdisk

Árni hefur skipt nokkrum sinnum um pítsaofn í gegnum árin og mun halda því áfram því alltaf er eitthvað nýtt að koma fram.„ Fyrsti ofninn minn var stór og belgmikill sem náði ekki miklum undirhita. Næsti var með brennara í botninum sem hélt hitanum ekki nægjanlega vel. Núverandi ofn fjölskyldunnar er með brennara á báðum hliðum sem þýðir að ekki þarf að snúa pítsunni eins oft í ofninum. Nú horfi ég til þess að prófa næst ofn með snúningsdisk.“

Einfaldleikinn er aðalsmerki ítalskrar matargerðar

Árni segir líka skipta máli hvernig pítsan er gerð. „Við gerð pítsunnar er mikilvægt að handteygja deigið, nota tréspaða til að setja pítsuna í ofninn og snúa pítsunni á meðan á eldun stendur til að tryggja jafnan bakstur. Mikilvægt er að forhita ofninn vel eða upp í 500°C hita þó oft sé áskorun að koma pítsaofnum upp í svo hátt hitastig. Það er líka mikilvægt að hafa ekki of mikið ofan á pítsunni. Hin hefðbundna ítalska pítsa hefur venjulega aðeins örfá álegg sem gerir gæði hráefnisins og bragðið af skorpunni kleift að skína í gegn. Þessi einfaldleiki er aðalsmerki ítalskrar matargerðar.“

Fyrir Árna er pítsa er meira en bara matur og það á við hjá fjölda fólks. Til að mynda er mjög vinsælt á Íslandi að vera með pítsakvöld á föstudögum og það sést iðulega þegar vikumatseðlar matarvefsins eru birtir. „Pítsa er menningartákn og sameinar fjölskyldur og vini. Bæði börn og fullorðnir elska pítsur. Fólk kemur saman til að njóta matarins. Ítölsk pítsamenning einkennist af félagslegu eðli sínu. Hágæða pítsaofn og áhugasamur bakari gerir heimilið þitt að náttúrulegum samkomustað,“ segir Árni að lokum og gefur lesendum hér uppskrift að pestó pítsu sem er í miklu uppáhaldi hjá honum.

„Pestó pitsa er bragðmikil, hæfilega einföld og skemmtileg uppskrift sem er góður valkostur fyrir þá sem vilja njóta ítalskrar matarhefðar. Hún er einnig góður valkostur fyrir hópa, þar sem hægt er að búa til mismunandi útfærslur af pestó pitsum með mismunandi áleggi eftir smekk og áhuga.“

Föstudagspítsan í boði Árna er Pestó pítsa að betri gerðinni.
Föstudagspítsan í boði Árna er Pestó pítsa að betri gerðinni. Ljósmynd/Árni Þorvarðarson

Pestó Pítsa

4 kúlur (250 g  hver)

 • 581 g pítsu-hveiti                 
 • 365 g vatn 26°C heit 
 • 17 g súrdeig (má sleppa)      
 • 5 g þurrger                                        
 • 17 g salt                                 
 • 17 g olía
Ofan á pítsuna
 • Grænt pestó
 • Mozzarella ostur
 • Rauðlaukur eftir smekk
 • Hvítlaukur eftir smekk
 • Klettasalat eftir smekk
 • Hvítlauksdressing eftir smekk

Aðferð:                      

 1. Vigtið saman hveiti, vatn, súr og ger.
 2. Setjið í hrærivélaskál með krók. Hrærið saman í 5 mínútur  á 30% hraða.
 3. Eftir 5 mínútur bætið þið saltinu við og hrærið áfram í 5 mínútur í viðbót.
 4. Setjið olíuna saman við aðrar 5 mínútur og hrærið deigið í síðustu 5 mínúturnar.
 5. Eftir þetta hafið þið hrært deigið í samtals 15 mínútur.
 6. Leyfið deiginu að hvílast í 2 klukkustundir við stofuhita.
 7. Vigtið deigið niður í 4* 250 gramma kúlur og setjið í lokað box og í kæli í lágmarki 12 tíma.
 8. Fletjið deigið út og setjið á tréspaða.
 9. Smyrjið grænt pestó á botninn.
 10. Setjið næst Mozzarella ostinn ofan á.
 11. Setjið smá rauðlaukur og hvítlaukur.
 12. Bakið í 400°C - 500°C gráða heitum pitsaofni (viðar eða gas) í 120-180 sekúndur
 13. Eftir bakstur dreifið þá klettasalati  yfir og toppið með hvítlauksdressingu sem þið elskið.
 14. Berið fram og njótið
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka