Hnossgæti þessir Nutella-kleinuhringir

Ef þú ert fyrir kleinuhringi, súkkulaði og Nutella verður þú …
Ef þú ert fyrir kleinuhringi, súkkulaði og Nutella verður þú að prófa þessa. Ljósmynd/Snorri Guðmundsson

Hér er komin sannkölluð veisla fyrir Nutella- og súkkulaðiunnendur í boði Snorra Guðmundssonar matgæðings hjá Matur og myndir. Uppskriftin er sáraeinföld en sjúklega góðir bakaðir Nutella-kleinuhringir gera alla daga betri að sögn Snorra.

Nutella-kleinuhringir

10-12 stykki

 • 140 g hveiti
 • 25 g kakóduft
 • 70 g sykur
 • 1/2 tsk. lyftiduft
 • 1/2 tsk. matarsódi
 • 1 vanillustöng
 • 30 g smjör
 • 80 ml mjólk
 • 60 ml jógúrt
 • 1 egg
 • 4 msk. Nutella

Aðferð:

 1. Forhitið ofn í 175°C með yfir- og undirhita.
 2. Pískið saman hveiti, kakóduft, sykur, salt, lyftiduft og matarsóda.
 3. Skerið vanillustöng í tvennt og skafið fræin úr henni. Bræðið smjör við. Pískið saman, smjör, mjólk, jógúrt, egg og vanillufræ.
 4. Pískið blautblöndunni saman við þurrefnablönduna þar til allt hefur samlagast (varist að ofhræra blönduna).
 5. Færið deigið í sprautupoka eða smellupoka og klippið gat í eitt hornið svo auðvelt sé að sprauta út deiginu.
 6. Spreyið tvö kleinuhringjaform með matarolíu.
 7. Fyllið hvert mót hálfa leið upp af deigi. Dreifið Nutella í nokkrum doppum yfir deigið og hrærið aðeins í því með t.d. tannstöngli svo það dreifist aðeins betur um deigið.
 8. Bakið í miðjum ofni í 9-10 mínútur og látið kólna í smástund áður en kleinuhringirnir eru fjarlægðir úr mótinu.

Gljáinn

 • 3 msk. Nutella
 • 10 g flórsykur
 • 2-4 msk. nýmjólk
 • Súkkulaðispænir til skrauts

Aðferð:

 1. Pískið saman Nutella, flórsykur og mjólk eftir þörfum þar til gljáinn er hæfilega þykkur svo hægt sé að dýfa kleinuhringjunum í hann.
 2. Gott er að hita gljáann aðeins áður en hann er notaður því þá mun hann verða aðeins stífari þegar hann þornar.
 3. Skreytið kleinuhringina með súkkulaðispæni eftir smekk um leið og búið er að dýfa þeim í gljáann.
 4. Berið fram og njótið.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert