Kóngur sem borðar fræ alla daga

Karl III kóngur borðar aldrei hádegismat og hatar súkkulaði.
Karl III kóngur borðar aldrei hádegismat og hatar súkkulaði. AFP

Karl kóngur er þekktur fyrir heilbrigðan lífsstíl. Hann er sagður afar agaður þegar kemur að líkamsrækt og matarræði. Kamilla drottning kallar hann fjallageit því hann elskar göngur af öllum toga og á hverjum degi fylgir hann 11 mínútna æfingaprógrammi sem var þróað af kanadíska flughernum. 

Morgunmaturinn

Karl kóngur er með hænur heima í Highgrove. Hann fær sér því alltaf egg í morgunmat og helst egg með hverri máltíð. Eggið á að sjóða í aðeins tvær mínútur og er því alltaf mjög linsoðið (til samanburðar tekur fimm mínútur að sjóða venjulegt linsoðið egg). Í bókinni Palace Papers er rætt um hversu mikla áherslu Karl leggur á að borða hnetur og fræ á morgnana. Hörfræ eru í sérstöku uppáhaldi.

Hádegisverðurinn

Karl borðar ekki hádegismat og það hefur verið staðfest af Clarence House. Sagt er að honum finnist hádegisverður munaður sem truflar vinnuna hans og afköst.

Kvöldmaturinn

Karl og Kamilla elska að vera úti í garði og borða góðan mat með fersku hráefni af landareign þeirra. Karl borðar að mestu leyti grænkerafæði til þess að vera umhverfisvænn. „Ég borða kjöt og fisk bara einu sinni til tvisvar í viku, og hef gert í mörg ár. Þá neyti ég mjólkurvarna einu sinni í viku,“ sagði Karl í viðtali við BBC árið 2021.

Karl kóngur er sagður elska ítalskan mat og hefur til dæmis dálæti á risotto með sveppum sem hann hefur sjálfur tínt. Hann vill hafa salat með hverjum rétti og salatið þarf að vera eftir ákveðinni forskrift. Þá er hvítlaukur einnig á bannlista hjá kónginum. 

Kónginum líkar ekki súkkulaði og drekkur heldur ekki kaffi. Til að fá sætu í líf sitt þá velur hann hunang sem hann framleiðir á heimili sínu Highgrove.

Karl kóngur að hjóla í Highgrove.
Karl kóngur að hjóla í Highgrove. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka