Milljónamæringa smákaka fullkomin fyrir helgarbaksturinn

Milljónamæringa smákaka úr smiðju Elenoru Rós Georgsdóttur bakara sem eiga …
Milljónamæringa smákaka úr smiðju Elenoru Rós Georgsdóttur bakara sem eiga eftir að slá í gegn. Samsett mynd

Elenora Rós Georgsdóttir bakari sem hefur glatt landsmenn með útgeislun sinni og ljúffengu bakkelsi býður upp á helgarbaksturinn að þessu sinni. Elenora starfar í bakaríi í Lundúnaborg þessa dagana og unnir hag sínum vel. Elenora elskar að baka og ástríða hennar skín í gegn þegar bakstur er annars vegar.

„Nú eru útskriftaveislur fram undan og allir að reyna að finna eitthvað nýtt og spennandi til að bjóða upp á í veislunum og þessir dásamlegu bitar eru tilvaldir á veisluborðið. Það er auðvelt að útbúa þessa dýrð fyrirfram og skera niður í lita bita og bjóða upp á í næstu veislu. Þetta ery klárlega bitar sem slá ávallt í gegn. Þetta er uppskrift af kræsingum sem bera heitið „Millionaires shortbread“ eða Milljónamæringa smákaka og er skoskt bakkelsi. Ég bakaði þetta fyrir síðasta útgáfuteitið mitt og fólk var svo hrifið að það fékk að taka með sér nokkra bita í nesti heim,“ segir Elenora og bætir við fátt gleðji sig jafn mikið og þegar fólk fellur fyrir bakkelsinu hennar. „Ég ólst upp við að borða þetta við hvert tækifæri enda hálf skosk sjálf.“

Fullkomið fyrir helgarbaksturinn.
Fullkomið fyrir helgarbaksturinn. Ljósmynd/Elenora Rós
View this post on Instagram

A post shared by Elenora Rós (@bakaranora)

Milljónamæringa smákaka

Kexbotn

  • 250 g smjör við stofuhita
  • 50 g sykur
  • 120 g púðursykur
  • 1 stk. eggjarauða
  • 3 g salt
  • 260 g hveiti

Aðferð:

  1. Forhitið ofninn í 175°C.
  2. Klæðið eldfast mót með bökunarpappír og leggið til hliðar.
  3. Þeytið saman sykur, púðursykur og smjör þar til létt og ljóst.
  4. Bætið eggjarauðuna næst saman við.
  5. Að lokum fer hveitið og saltið saman við og hrært þar til deigið er komið saman.
  6. Setjið deigið í pappírsklædda mótið og smyrjið jafnt út.
  7. Bakið kexbotninn í 20-25 mínútur eða þar til hann er orðin gullinbrúnn.
  8. Leyfið botninum að kólna eftir að hann kemur úr ofninum og byrjið á karamellunni á meðan.

Karamella

  • 395 g niðursoðin mjólk
  • 200 g smjör
  • 200 g púðursykur
  • 80 g síróp
  • 3 g salt

Aðferð:

  1. Setjið niðursoðna mjólk, smjör, púðursykur og síróp og hitið blönduna yfir vægum hita á meðan þið hrærið stanslaust.
  2. Fáið blönduna upp að suðu og lækkið undir þegar suðan er komin upp og leyfið karamellunni að sjóða í um 10 mínútur á meðan þið hrærið stanslaust svo hún brenni ekki við.
  3. Takið pottinn af hellunni og bætið saltinu saman við.
  4. Hellið karamellunni yfir botninn og setjið inn á kæli í a.m.k. klukkustund.
  5. Þegar karamellan hefur stífnað er tilvalið að græja súkkulaðihjúpinn.

Súkkulaðihjúpur

  • 340 g Freyju suðusúkkulaði
  • 120 g rjómi

Aðferð:

  1. Setjið rjóma og súkkulaði saman í pott og bræðið saman yfir vægum hita.

Samsetning:

  1. Takið botninn bökunarpappírsklædda forminu og dreifið karamellunni yfir jafnt og þétt.
  2. Hellið hjúpnum yfir karamelluna, stráið smá sjávarsalti yfir  og setjið inn á ísskáp í hálftíma og leyfið honum að storkna.
  3. Skerið í hæfilega stóra bita.
  4. Berið fram á fallegum kökudisk eða viðabretti og njótið.
Það verður enginn svikinn af þessu skoska bakkelsi.
Það verður enginn svikinn af þessu skoska bakkelsi. Ljósmynd/Elenora Rós
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert