Fjöldi bótamála lögreglu vegna áverka

Lögreglumenn við eftirlit í miðbæ Reykjavíkur.
Lögreglumenn við eftirlit í miðbæ Reykjavíkur. mbl.is/Júlíus

Á árinu 2008 sóttu 23 lögreglumenn um skaðabætur vegna áverka sem þeir hlutu við skyldustörf. Í fyrra fækkaði slíkum málum í 19. Þá voru 11 skaðabótamál í gangi vegna slysa sem lögreglumenn urðu fyrir í umferðinni skv. skýrslu Ríkislögreglustjóra um ofbeldi gegn lögreglumönnum.

Gylfi Thorlacius hæstaréttarlögmaður hefur haldið utan um mál lögreglumanna sem hafa orðið fyrir skaða við störf sín. Birt er samantekt Gylfa um fjölda skaðabótamála og kemur þar m.a. fram að á árinu 2008 voru sex skaðabótamál í gangi þar sem lögreglumenn höfðu orðið fyrir svo alvarlegum áverkum vegna ofbeldis gegn lögreglunni að málið fellur undir 4. eða 5. grein skaðabótalaga um varanlega miska eða varanlega örorku.

Ofbeldishótunum fjölgaði á Suðurnesjum

Í umfjöllun í skýrslu Ríkislögreglustjóra um hótanir um ofbeldi gagnvart lögreglumönnum kemur fram að flest slík brot eiga sér stað á höfuðborgarsvæðinu. Þau voru 66 í fyrra og fækkaði þá nokkuð frá árinu 2008. Á sama tíma fjölgaði þeim verulega á Suðurnesjum en þar voru þau 6 árið 2007 en fjölgaði í 21 mál árið 2008 og 12 mál í fyrra þar sem lögreglumönnum var hótað ofbeldi.

Í skýrslunni kemur fram að flest ofbeldisbrotin gegn lögreglumönnum síðastliðin ár eru framin á sumrin. „Frá byrjun júní til loka ágúst eru að jafnaði 30–40% allra ofbeldisbrota gagnvart lögreglunni skráð. Flest voru þau sumarið 2008 eða um 40%. Mótmæli borgara í tengslum við efnahagshrunið voru hvað mest frá október 2008 til janúar 2009. Þegar þetta tímabil er skoðað kemur í ljós að skráð ofbeldisbrot voru ekki fleiri en alla jafna eru á þessu tímabili í hefðbundnu árferði,“ segir í skýrslunni.

Bent er á að í níu af hverjum tíu málum þar sem lögreglumenn brugðust við fjöldaóspektum, og þeim var síðar sýnt ofbeldi, vissu þeir fyrir fram um ofbeldi eða slagsmál á vettvangi. „Huga má betur að því hvernig lögreglan bregst við fjöldaóspektum auk þess sem tryggja þarf að lögreglumenn fari ekki fáliðaðir inn á slíkan vettvang þar sem þeir geti sett sjálfa sig í hættu og orðið til þess að ástand á vettvangi stigmagnist. Þessu var mætt með stofnun óeirðahóps hjá lögreglu höfuðborgarsvæðisins vegna stærri verkefna en hópamyndun á sér einnig stað án fyrirvara, á næturnar um helgar,“ segir í niðurstöðukafla skýrslunnar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert