Finna til óöryggis varðandi greiningarferli barnsins síns

Tinna Rut Torfadóttir sálfræðingur svarar spurnignum lesenda Smartlands.
Tinna Rut Torfadóttir sálfræðingur svarar spurnignum lesenda Smartlands. Samsett mynd

Tinna Rut Torfadóttir sálfræðingur hjá Sálarlíf sálfræðistofu svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hún bréf frá foreldrum sem finna fyrir óöryggi varðandi greiningarferli barnsins síns. 

Sæl

Mig hefur lengið grunað að sonur minn sem er orðinn átta ára gæti verið á einhverfurófinu, en það er eitthvað að hrjá hann. Hann hefur sýnt hegðunarerfiðleika frá því hann var í leikskóla og grunnskólaganga hans hefur gengið brösuglega, félagslega jafnt sem námslega.

Skólinn hefur nefnt það að gott væri að láta skólasálfræðing kíkja á hann en við foreldrarnir höfum átt erfitt með að taka það skref, við erum hrædd um að fá staðfestingu á því sem við höldum og einnig erum við óörugg að ræða við sálfræðing og líður okkur eins og greining sé stimpill.

Kveðja,

J

Sæl

Takk fyrir þessar vangaveltur.

Þið eruð alls ekki einu foreldrarnir sem líður svona. Að fá aðkomu sálfræðings og fara af stað í greiningarferli með barnið sitt kallar fram ýmsar tilfinningar hjá foreldrum og er það eðlilegt. Sumir finna fyrir kvíða á meðan aðrir finna fyrir létti þegar greining liggur loks fyrir og fá samhliða svör við ýmsum spurningum sem hafa verið í huga þeirra í langan tíma.

Mér heyrist á þinni lýsingu að sonur þinn sé að glíma við hamlandi vanda sem hefur staðið yfir í þó nokkurn tíma og því mæli ég eindregið með því að þið fáið aðkomu skólasálfræðings í hans skóla. Deildarstjóri stoðþjónustu er oftast tengiliður við skólasálfræðinginn, svo það væri gott fyrir ykkur að fá fund með honum og biðja hann um að útskýra ferlið fyrir ykkur. Í greiningarferli þarf skólasálfræðingurinn að fá ítarlegar upplýsingar frá foreldrum og einnig frá kennara. Þið verðið einnig beðin um að svara ýmsum matslistum varðandi hegðun og líðan. Jafnvel yrði lagt fyrir ykkur greiningarviðtal en það er misjafnt hvernig ferlið er hvað það varðar í hverju skóla eða sveitarfélagi fyrir sig. Þá er einnig liður í greiningarferli að leggja fyrir þroskamat fyrir barnið.

Greining er ekki stimpill, heldur er verið að kortleggja vanda barnsins, finna út hverjir styrkleikar barnsins eru og einnig að sjá hvar veikleikar barnsins liggja. Allt er þetta gert til að koma betur til móts við barnið og einnig að barnið fái þau úrræði sem það á rétt á hverju sinni út frá sinni greiningu. Greining hjálpar líka þeim sem umgangast barnið að skilja betur hegðun þess og líðan og verða þar af leiðandi betur í stakk búin til þess að koma til móts við barnið í hinum ýmsum aðstæðum. Þá má ekki gleyma að fara í gegnum greiningarferli er fyrst og fremst gert með hag barnsins í huga, að því líði betur og það fái að vaxa, dafna og blómstra.

Gangi ykkur sem allra best og verið óhrædd við að spyrja í greiningarferlinu, allar spurningar eiga rétt á sér!

Kveðja, Tinna Rut

Ligg­ur þér eitt­hvað á hjarta? Þú get­ur sent Tinnu póst HÉR.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál