Hvernig stuðning þarf 10 ára barn sem missir foreldri?

Tinna Rut Torfadóttir sálfræðingar svarar spurningum lesenda Smartlands.
Tinna Rut Torfadóttir sálfræðingar svarar spurningum lesenda Smartlands. Samsett mynd

Tinna Rut Torfadóttir sálfræðingur hjá Sálarlíf sálfræðistofu svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hún bréf frá móður tíu ára drengs sem missti föður sinn skyndilega fyrir stuttu og biður um ráð hvernig hún geti stutt hann í sorgarferlinu. 

Sæl

Ég hef áhyggjur af syni mínum sem er 10 ára gamall. Faðir hans lést skyndilega fyrir um fjórum mánuðum síðan og var það mikið áfall fyrir alla. Ég hef tekið eftir breytingum á líðan hans og hegðun, hann er daufur, verður oft pirraður og einnig hefur hann tekið reiðiköst. Þá hefur hann átt erfitt með að sofa, sem er ólíkt honum.

Ég er oft alveg ráðalaus og veit ekki hvernig er best fyrir mig að veita honum þann stuðning sem hann þarf því ég er auðvitað líka í sorgarferli sjálf og hef ekki verið alveg með sjálfri mér síðustu mánuði.

Getur þú gefið mér einhver ráð hvernig ég get stutt hann í þessu ferli? Hann hefur ekki farið til sálfræðings í kjölfarið en presturinn hitti okkur eftir andlátið og í gegnum jarðsetningarferlið auðvitað.

Kveðja, 

GS

Sæl

Votta þér innilega samúð mína.

Mikilvægt er að hafa í huga í sorgarferlinu að viðbrögð þeirra sem eftir lifa geta verið mjög ólík. Algengustu sorgarviðbrögð barna eru vanlíðan (kvíði, leiði, söknuður, sektarkennd og sjálfsásakanir) og svefntruflanir, en þá getur barnið einnig sýnt reiði eða hegðun sem kallar á athygli. Líkamleg einkenni geta einnig komið fram og einnig getur borið á erfiðleikum í skóla.

Mikilvægt er að hafa í huga að þegar barn missir foreldri sitt er öryggi þess ógnað. Þess vegna er mikilvægt að barnið finni að það sé öruggt og njóti áframhaldandi umönnunar og öryggis. Mælt er með því að reyna að halda sem mest í rútínu barnsins og að það fái að vera í þeim aðstæðum sem það finnur til öryggis. Þá getur borið á því að barnið óttist að missa eftirlifandi foreldri sitt. Eftir missi getur barnið verið stöðugt á verði og sýnt ofurvarkárni sem getur leitt til líkamlegra einkenna (höfuðverkur, vöðvaspenna, magaverkur). Þá geta þessi einkenni leitt til þess að barnið fer að eiga erfitt með að einbeita sér og muna og gæti því komið niður á námi barnsins.

Svefntruflanir eru algengar eftir sáran missi, barnið getur átt erfitt með að sofna á kvöldin eða jafnvel hrekkur upp á nóttunni. Stundum spilar þarna inní að orðið „sofna“ hefur verið notað um dauðann og þess vegna óttast barnið að fara að sofa. Einnig er það algengt að þegar barnið er komið í ró þá sækja hugsanir um það sem hefur gerst á barnið. Gott er að hafa í huga að barn sem fær ekki tækifæri til þess að ræða um sorg sína og missi á vökutíma er líklegra en aðrir til að dreyma illa og fá martraðir.

Börn gráta mismikið eftir missi, sum gráta mikið en önnur gráta minna. Börn geta sýnt reiði, en hjálpar- og vonleysi brýst oft út í reiði. Mikilvægt er að hlusta á barnið ef það vill deila tilfinningum sínum og sýna því stuðning með því að snerta barnið, það sem þú segir skiptir oft minna máli en það sem þú gerir. Mikilvægt er að leyfa barninu að taka þátt í sorg fjölskyldunnar, það finnur þá fyrir stuðningi í sameiginlegum sársauka. Mikilvægt er að gagnrýna ekki viðbrögð eða viðhorf barnsins og láta sér ekki bregða við þau. Mikilvægt er að viðurkenna og virða tilfinningar barnsins, hverjar sem þær eru, með því fær barnið aðstoð við að komast áfram í sorgarferlinu, komast af einu stigi yfir á annað og ná vonandi á leiðarenda með heilbrigðum hætti.

Þá er alltaf hægt leita stuðnings hjá sálfræðingi, hægt er að leita til þinnar heilsugæslustöðvar, eða til sjálfstætt starfandi sálfræðings á stofu. Einnig langar mig að benda þér á samtökin Ljónshjarta en það eru samtök til stuðnings fólki sem hefur misst maka og barna sem misst hafa foreldri.

„Barn sem glímir við vanda þarf hlýjan faðm, hlýtt hjarta og galopin eyru en munnurinn má gjarnan vera lítill.“ Orð Sigurðar Pálssonar, prests í Hallgrímskirkju.

Gangi ykkur sem allra best!

Kveðja, Tinna Rut

Ligg­ur þér eitt­hvað á hjarta? Þú get­ur sent Tinnu póst HÉR.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál