Peningar og völd eru ekki nóg

Arianna Huffington.
Arianna Huffington. mbl.is/AFP

Í apríl 2007 rankaði fjölmiðlakonan Arianna Huffington við sér þar sem hún lá í blóðpolli á skrifstofu sinni. Hún hafði örmagnast eftir þrotlausa vinnu við að koma fyrirtæki sínu, Huffington Post, á laggirnar. Í kjölfarið hóf hún gagngera sjálfsskoðun og tók að endurmeta hvað raunverulega felst í velgengni. Hvað peninga og völd varðaði gekk henni vel en hún fór að efast um að það væri skynsamleg skilgreining á velgengni í lífinu. Hún skrifaði bók um reynslu sína, Þriðja miðið, og hún er nú komin út hjá bókaútgáfunni Sölku. Í henni gerir Huffington aðför að úreltum hugsunarhætti sem mótar samfélag okkar og kynnir ný viðmið á aðgengilegan hátt og tekur fjölda dæma máli sínu til stuðnings.

Huffington boðar nýja lífsýn og byggir hana á vísindalegum niðurstöðum á sviði sálfræði, svefnrannsókna og lýðheilsu, svo eitthvað sé nefnt. Þær sýna óumdeilanlega kosti íhugunar, núvitundar og gjafmildi. Hún talar fyrir byltingu í menningu okkar - hvernig við hugsum, hvernig við vinnum og hvernig við lifum og hvetur okkur til að bregðast við eigi síðar en núna.

Arianna Huffington er stofnandi og aðalritstjóri Huffington Post og ein áhrifamesta konan í heiminum í dag. Henni hefur tekist að gera Huffington Post að einum þekktasta fjölmiðlinum á alþjóðavísu í dag. Huffington er blaðamaður og hefur skrifað fjölda bóka en Þriðja miðið er langvinsælasta bók hennar. Hún hefur selst í milljónum eintaka, var efst á metsölulista New York Times og hefur verið þýdd á yfir þrjátíu tungumál.  

Í Þriðja miðinu ræðir hún eigin hindranir og áskoranir við að samræma frama og fjölskyldulíf á hreinskilinn hátt.

Inngangur bókarinnar: 

Að morgni 6. apríl 2007 lá ég í blóðpolli á gólfinu á skrifstofunni minni heima. Í fallinu hafði ég rekið höfuðið í skrifborðshornið, fengið skurð við augað og brotið kinnbein. Ég hafði örmagnast vegna ofþreytu og svefnleysis. Í kjölfar þessa atviks gekk ég á milli lækna og var send í segulómun, hjartalínurit og tölvusneiðmyndatöku til að athuga hvort eitthvert undirliggjandi vandamál lægi að baki ofþreytunni. Svo reyndist ekki vera en í ljós kom að læknabiðstofur voru hentugir staðir til að velta lífinu fyrir sér.

Við stofnuðum The Huffington Post árið 2005 og næstu tvö árin stækkaði fyrirtækið á ótrúlegum hraða. Ég var á forsíðum tímarita og Time hafði valið mig í hóp hundrað áhrifamestu einstaklinga í heimi. En eftir atvikið á skrifstofunni var ég tilneydd að spyrja sjálfa mig hvort þetta væri gjaldið fyrir velgengnina. Var þetta lífið sem ég sóttist eftir? Ég vann átján stundir á dag alla daga vikunnar við að reyna að byggja fyrirtækið upp, útvíkka fréttaumfjöllun okkar og laða að fjárfesta. Ég gerði mér grein fyrir því að líf mitt var komið úr böndunum. Samkvæmt hefðbundinni skilgreiningu á velgengni, þar sem áhersla er lögð á peninga og völd, gekk mér mjög vel. En ég lifði ekki farsælu lífi ef miðað var við skynsamlega skilgreiningu á velgengni. Ég vissi að róttækra breytinga var þörf. Ég gat ekki haldið svona áfram.

Þarna vaknaði ég upp við vondan draum. Ég leit um öxl og sá að ég hefði átt að vakna fyrr en gerði það ekki. En nú glaðvaknaði ég og breytti mörgu í líferni mínu, meðal annars fór ég að gera æfingar á hverjum degi til að halda mér á réttri braut – og frá læknabiðstofum.  Fyrir vikið er líf mitt nú innihaldsríkara en áður, líf sem veitir mér andrými og aukna yfirsýn.

Hugmyndin að þessari bók varð til þegar ég var að skrifa ræðu fyrir útskriftarathöfn í Smith College árið 2013 og reyndi að átta mig á þeim skilningi sem ég hafði smám saman öðlast á eigin lífi og starfi. Ég á tvær dætur í háskóla og tek útskriftarræður þar af leiðandi mjög alvarlega. Þetta er svo sérstakt augnablik fyrir útskriftarbekkinn – hlé, eins konar innskot eftir fjögurra (eða fimm eða sex) ára þrotlausan lærdóm og þroska, rétt áður en fullorðinslífið hefst og öllum þessum lærdómi er hrint í framkvæmd. Þetta er einstakur áfangi í lífi nemenda – og í fimmtán mínútur eða svo hef ég athygli þeirra óskipta. Áskorunin felst í að segja eitthvað sem hæfir tilefninu, eitthvað sem mun koma að notum á tímum nýrra tækifæra.

„Þeir sem flytja útskriftarræður,“ sagði ég við stúlkurnar sem voru að útskrifast, „eiga samkvæmt hefðinni að segja útskriftarárganginum hvernig eigi að fara að því að klifra upp metorðastigann. En þess í stað vil ég biðja ykkur að endurmeta hvað felst í velgengni, vegna þess að heimurinn sem þið eruð á leið út í þarfnast þess svo sárlega. Og líka vegna þess að þið getið það. Menntun ykkar í Smith er ótvíræð sönnun þess að þið eigið getið haslað ykkur völl hvar sem þið viljið í heiminum. Þið getið unnið á hvaða sviði sem er og þið getið komist í fremstu röð hvar sem er. En ég hvet ykkur til að stefna ekki aðeins á að ná í fremstu röð heldur leitast við að breyta heiminum.“

Þau hjartnæmu viðbrögð sem ég fékk við ræðunni gerðu mér ljóst hve algengt það er að fólk vilji endurmeta velgengni og hvað felst í því að „lifa góðu lífi“.

„Hvað er gott líf?“ er spurning sem heimspekingar hafa spurt allt frá dögum Forn-Grikkja. Einhvers staðar á leiðinni hættum við þó að leita svara við henni en beindum athyglinni þess í stað að því hve mikla peninga við gætum þénað, hversu stórt hús við gætum keypt og hvernig við gætum klifið metorðastigann. Þetta eru allt góðar og gildar spurningar, sérstaklega á tímum sem þessum þegar konur eru enn að reyna að öðlast sæti við borðið til jafns við karla. En eins og ég rak mig harkalega á eru þetta langt í frá einu spurningarnar sem skipta máli þegar kemur að því að lifa farsælu lífi.

Með tímanum hafa samfélagslegar hugmyndir okkar um velgengni verið takmarkaðar við peninga og völd. Í raun er nú svo komið að velgengni, fé og völd eru orðin samheiti í hugum margra.

Þessi hugmynd um velgengni getur virkað – eða að minnsta kosti sýnst virka – til skemmri tíma. En sé litið til lengri tíma eru peningar og völd ein og sér eins og tvífættur stólkollur – maður getur haldið jafnvægi á honum stutta stund en að lokum dettur maður. Og sífellt fleira fólk – fólk sem nýtur mikillar velgengni – steypist af kollinum.

Ég benti útskriftarnemunum í Smith College á að skilgreining okkar á velgengni dygði ekki til. Hún væri ekki varanleg, hvorki fyrir manneskjur né samfélög. Til að lifa því lífi sem við sannarlega vildum og ættum skilið, ekki bara því lífi sem við gerðum okkur að góðu, þyrftum við þriðja miðið – mælistiku sem skilgreindi velgengni út frá öðru en peningum og völdum. Þriðja miðið samanstendur af fjórum meginstoðum, vellíðan, visku, undrum og gjafmildi, og þessar stoðir marka þá fjóra hluta sem þessi bók skiptist í.

Í fyrsta lagi: vellíðan: Ef við endurmetum ekki hvað felst í velgengni munum við greiða fyrir það með lakari heilsu og verri líðan eins og ég komst sjálf að raun um. Þegar augu mín opnuðust sá ég að ástand mitt var mjög í takt við tíðarandann. Sérhvert samtal sem ég átti virtist á endanum snúast um vandamálin sem við glímum öll við – streitu vegna ofkeyrslu, of mikillar vinnu, of mikils sambands á samfélagsmiðlum og of lítils sambands við okkur sjálf og hvert annað. Rýmið, eyðurnar, hvíldin, þögnin – hlutir sem gera okkur kleift að endurnýja okkur og endurhlaða – höfðu horfið úr lífi mínu og svo margra annarra sem ég þekkti.

Mér sýndist að þeir sem virkilega döfnuðu væru þeir sem hefðu veitt vellíðan, visku, undrum og gjafmildi rými í lífi sínu. Í kjölfarið fæddist hugmyndin að „þriðja miðinu“ – þriðja fætinum undir kollinn sem tryggir farsælt líf. Ég byrjaði á að endurmeta stefnu mína og forgangsverkefni í lífinu og það varð til þess að ég tók eftir að ákveðin vitundarvakning á sér nú stað um allan heim. Við erum að sigla inn í nýtt tímabil og metum velgengni öðruvísi en áður.

Það er ekki seinna vænna – sérstaklega ekki fyrir konur, þar sem sífellt fleiri rannsóknir leiða í ljós að gjaldið sem þær greiða fyrir falskar væntingar hvað varðar velgengni er hærra en hjá körlum. Konur í álagsstörfum eru í nær 40 prósenta meiri hættu á að fá hjartasjúkdóma og 60 prósenta meiri hættu á að fá sykursýki en aðrar konur. Á undanförnum þrjátíu árum, á sama tíma og konur hafa yfirstigið miklar hindranir á vinnumarkaði, hafa streituvaldandi áhrif aukist um 18 prósent.

Þær sem eru nýkomnar út á vinnumarkaðinn – og jafnvel þær sem enn eru ekki komnar þangað – finna nú þegar fyrir þessum áhrifum. Samkvæmt skýrslu Bandaríska sálfræðifélagsins er kynslóðin sem kennd er við þúsaldamótin í efsta sæti streitulistans – ofar en eftirstríðsárakynslóðin og „eldra fólk“, eins og þau sem eru yfir sextíu og sjö ára aldri voru nefnd í rannsókninni.

Vestræn vinnustaðamenning – sem hefur breiðst út til margra annarra heimshluta – er í raun knúin áfram af streitu, svefnleysi og kulnun í starfi. Ég tók eftir – eða réttara sagt rakst harkalega á vandamálið þegar það leið yfir mig. Streitan grefur undan heilsu okkar og svefnleysið, sem svo mörg okkar glíma við á sama tíma og við kappkostum að standa okkur vel í vinnunni, hefur djúpstæð – og neikvæð – áhrif á sköpunargáfu okkar, framleiðslugetu og ákvarðanatöku. Það sem olli strandi olíuskipsins Exxon Valdez, sprengingunni í geimskutlunni Challenger og kjarnorkuslysunum í Chernobyl og á Three Mile Island var að minnsta kosti að hluta til svefnskortur.

Veturinn 2013 fór Metro-North jarðlestin af sporinu, fjórir létust og fjölmargir slösuðust. Slysið varð þegar lestarstjórinn, William Rockefeller, sofnaði. Þetta slys vakti athygli á þeim hættum sem ónógur svefn skapar í atvinnugreinum sem tengjast samgöngum. John Paul Wright, lestarstjóri hjá einu stærsta lestafyrirtæki Bandaríkjanna, sagði meðal annars: „Aðalvandamál lestarstjóra er þreyta, ekki launin. Þau eru ágæt. En við fórnum líkama okkar og huga fyrir þá löngu vinnudaga sem þarf til að fá þessi laun, svo ekki sé minnst á hve skilnaðir eru algengir í stéttinni, notkun lyfja án læknisráðs og streita.“

Meira en 30 prósent Bandaríkjamanna og Breta fá ekki nægan svefn. Það bitnar ekki bara á ákvarðanatöku og vitrænni virkni. Of lítill svefn hefur jafnvel áhrif á eiginleika sem við tengjum við innsta kjarna persónuleika okkar og gildismats. Samkvæmt rannsókn sem unnin var við Walter Reed Army Institute of Research dregur of lítill svefn úr tilfinningagreind okkar, sjálfsvirðingu, einbeitni, sjálfstæðiskennd, samkennd með öðru fólki, gæðum samskipta við aðra, jákvæðri hugsun og stjórn á hvötum. Í raun er það eina sem batnar við svefnstol samkvæmt rannsókninni „töfrahugsun“ og hjátrú og hindurvitni. Ef þú hefur áhuga á spádómum skaltu því endilega vaka fram á rauðanótt. Við hin þurfum að skilgreina upp á nýtt hvað það er sem við metum mikils og breyta vinnustaðamenningunni þannig að það verði talið skammarlegt en ekki lofsvert að vinna lengi fram eftir.

Þegar við endurmetum velgengni er ekki nóg að byggja upp og hafa eftirlit með fjárhagslegu auðmagni okkar. Við þurfum að gera allt sem í okkar valdi stendur til að vernda og næra mannlega auðmagnið. Móðir mín var sérfræðingur í því. Ég man að þegar ég var tólf ára gömul kom mjög farsæll grískur kaupsýslumaður í kvöldverð heim til okkar. Hann virtist örþreyttur og að niðurlotum kominn en þegar hann settist við borðið sagði hann okkur frá því hve vel allt gengi hjá sér. Hann var mjög spenntur yfir samningi sem hann hafði nýlega gert um að byggja nýtt safn. Móður minni þótti ekki mikið til þess koma. „Það skiptir mig engu máli hversu vel viðskiptin ganga hjá þér,“ sagði hún hispurslaust, „þú hugsar ekki vel um sjálfan þig. Það getur vel verið að þér vegni vel í viðskiptum en það verðmætasta sem þú átt ert þú sjálfur. Það er aðeins hægt að taka út af heilsubankabókinni upp að ákveðnu marki en þú heldur stöðugt áfram. Þú gætir orðið gjaldþrota ef þú ferð ekki að leggja inn á reikninginn fljótlega.“ Og vissulega þurfti stuttu síðar að flytja þennan mann með hraði á sjúkrahús í hjartaþræðingu.

Þegar við tökum eigin vellíðan með í reikninginn við mat á velgengni breytist dálítið annað, nefnilega tengsl okkar við tímann. Það er meira að segja til hugtak sem lýsir þeirri tilfinningu að aldrei sé nægur tími fyrir það sem okkur langar til að gera: „tímahallæri.“ Í hvert sinn sem við lítum á klukkuna virðist hún vera orðin meira en við héldum. Sjálf hef ég alltaf átt mjög flókið samband við tímann. Dr. Seuss orðaði þetta fallega: „Hvernig fær tíminn liðið svo hratt?“ skrifaði hann. „Fyrst morgunn, svo nótt, ég segi það satt. Júní tók við þegar árið var kvatt. Ó, hjálpi mér, þetta er allt of bratt. Hvernig fær tíminn liðið svo hratt? (íslensk þýðing: Guðfinna Rúnarsdóttir)

Kannast ekki einhver við þetta?

Þegar við búum við endalaust tímahallæri rænum við okkur hæfileikanum til að upplifa annað lykilatriðið í þriðja miðinu: sjálft undrið, gleðitilfinninguna yfir leyndardómum alheimsins jafnt sem þeim daglegu viðburðum og litlu kraftaverkum sem líf okkar er fullt af.

Önnur náðargáfa móður minnar var stöðug forvitni og aðdáun á heiminum í kringum hana. Hvort sem hún var að vaska upp eða gefa mávunum á ströndinni eða ávíta kaupsýslumenn sem unnu of mikið; alltaf kom hún auga á hinar undraverðu hliðar lífsins. Og þegar ég kvartaði eða var ósátt við eitthvað gaf móðir mín mér alltaf sama ráðið: „Elskan, skiptu bara um rás. Þú stjórnar fjarstýringunni. Ekki horfa aftur á vondu hryllingsmyndina.“

Vellíðan, undur. Hvort tveggja er lykilatriði í þriðja miðinu. Og svo er það þriðji þátturinn: viska.

Hvar sem við skyggnumst um í heiminum sjáum við snjalla leiðtoga – í stjórnmálum, viðskiptum og fjölmiðlum – taka mjög slæmar ákvarðanir. Þá vantar ekki gáfur, þá vantar visku. Það kemur ekki á óvart; það hefur aldrei verið erfiðara að nýta þá visku sem býr innra með okkur því að til þess verðum við að aftengja allan þann búnað sem við burðumst með daglega – græjurnar okkar, skjáina, samfélagsmiðlana – og tengjast sjálfum okkur á ný.

Ef satt skal segja þá er þetta mér ekki eiginlegt. Móðir mín reiddist mér í síðasta sinn áður en hún dó þegar hún sá mig lesa tölvupóst og tala við börnin um leið. „Ég hef andstyggð á því þegar fólk reynir að gera margt í einu,“ sagði hún með grískum hreim sem slær minn alveg út. Með öðrum orðum, að vera tengdur öllum heiminum á yfirborðslegan hátt getur komið í veg fyrir að við séum vel tengd þeim sem standa okkur næst – þar á meðal sjálfum okkur. Og þar finnum við viskuna.

Ég er sannfærð um tvennt varðandi fólk. Í fyrsta lagi að innra með okkur öllum sé staður sem er miðstöð visku, samhljóms og styrks. Þetta eru sannindi sem allir heimspekingar og öll trúarbrögð – hvort sem um er að ræða kristindóm, íslam, gyðingdóm eða búddatrú – játa með einum eða öðrum hætti. „Guðsríki er innra með þér.“ Eða með orðum Arkímedesar: „Fáðu mér stað til að standa á og ég mun hreyfa við heiminum.“

Í öðru lagi er ljóst að við munum öll ráfa burt frá þessum stað margoft. Það er lífsins gangur. Í raun getur farið svo að við ferðumst meira utan vegar en á beinu brautinni.

Spurningin er hversu hratt við komumst aftur á beinu brautina – miðpunkt visku, samhljóms og styrks. Þar breytist lífið úr barningi í farsæld og við fyllumst skyndilega trausti, hvað sem líður hindrunum, ögrandi viðfangsefnum og vonbrigðum. Eins og Steve Jobs sagði í frægri ræðu við útskrift í Stanford: „Þið getið ekki tengt punktana saman með því að horfa fram á veginn; þið getið aðeins tengt þá saman með því að horfa til baka. Þið þurfið þess vegna að treysta því að punktarnir muni tengjast með einhverjum hætti í framtíðinni. Þið verðið að trúa á eitthvað, innsæi ykkar, örlögin eða hvað sem er. Þessi afstaða hefur aldrei brugðist mér og hún hefur skipt sköpum í lífi mínu.“

Það er tilgangur með lífinu, jafnvel þótt hann sé stundum hulinn sjónum okkar og þótt við fáum ekki botn í stærstu straumhvörfin og vonbrigðin fyrr en löngu eftir að við upplifum þau. Við getum því allt eins lifað lífinu líkt og öllu sé hagrætt okkur í vil – eins og skáldið Rumi orðaði það.

Geta okkar til að komast reglulega aftur á þennan viskustað byggist – eins og annars konar færni – á því hve mikið við æfum okkur og hve mikilvægt við teljum að það sé. Og kulnun í starfi gerir okkur mun erfiðara fyrir að ná sambandi við viskuna. Í grein í The New York Times ræddi Erin Callan, fyrrverandi fjármálastjóri Lehman Brothers, sem lét af störfum nokkrum mánuðum áður en fyrirtækið varð gjaldþrota, um það sem hún lærði af því að kulna í starfi: „Starfið kom alltaf fyrst, á undan fjölskyldu minni, vinum og hjónabandi – sem lauk aðeins örfáum árum síðar.“

Þegar hún leit um öxl áttaði hún sig á því að yfirvinna væri tilgangslaus. „Ég tel nú að ég hefði getað náð svipað langt með því að eiga að minnsta kosti pínulítið betra einkalíf,“ skrifaði hún. Í sannleika sagt var það ekki bara slæmt fyrir hana sjálfa að vinna þar til hún kulnaði í starfi. Það var líka, eins og komið hefur á daginn, slæmt fyrir Lehman Brothers, sem ekki eru lengur til. Þegar upp er staðið felst leiðtogahlutverkið í að koma auga á ísjakann áður en Titanic rekst á hann. Þegar maður er útbrunninn og örmagna er miklu erfiðara að koma auga á hætturnar – og tækifærin – framundan. Ef við viljum flýta fyrir breytingum í lífi okkar og starfi verðum við að byrja á þessari tengingu.

Vellíðan, viska og undur. Síðasti liðurinn í þriðja velgengnimiðinu er viljinn til að gefa eitthvað af okkur; löngun sem knúin er af samúð og samkennd sem við höfum með öðrum.

Þeir sem stofnuðu Bandaríkin gáfu hugmyndinni um hamingjuleit nógu mikinn gaum til að eigna henni stað í sjálfstæðisyfirlýsingunni. En þessi hugmynd um „óafsalanlegan rétt“ fól ekki í sér rétt til að leita sífellt að nýrri afþreyingu. Öllu heldur er um að ræða þá hamingju sem maður öðlast við að breyta vel; hamingju sem verður til þegar einstaklingur er frjór og skapandi hluti af samfélaginu og leggur sitt af mörkum til að bæta það.

Fjölmargar vísindalegar niðurstöður sýna ótvírætt að samkennd og hjálpsemi eykur vellíðan okkar. Þannig tengjast allir þættir þriðja velgengnimiðsins og verða hluti af farsælli hringrás.

Ef við erum heppin fáum við viðvörun áður en síðasti dropinn fyllir mælinn. Í mínu tilfelli var það þegar ég örmagnaðist og hneig niður árið 2007. Í tilfelli Marks Bittman, sem skrifar um mat í New York Times, var það þegar hann lét undan þráhyggjunni og skoðaði tölvupóstinn í flugsíma á flugi yfir Atlantshafinu, sem endaði með því að hann játaði: „Ég heiti Mark og ég er tæknifíkill.“ Í tilfelli Carls Honoré, höfundar In Praise of Slowness: How a Worldwide Movement Is Challenging the Cult of Speed, var það þegar hann íhugaði að setja saman „einnar mínútu sögur fyrir svefninn“ fyrir tveggja ára son sinn til að spara tíma. Forstjóri Aetna, Mark Bertolini, hálsbrotnaði í skíðaslysi og fór í kjölfarið að iðka yngjandi jóga og hugleiðslu. Vendipunkturinn hjá Pat Christen, stjórnarformanni HopeLab, var að uppgötva sér til mikillar skelfingar að vegna þess hve háð hún væri tækninni væri hún hætt að horfa í augu barnanna sinna. Anna Holmes, stofnandi vefsíðunnar Jezebel, áttaði sig á því að samningurinn sem hún hafði gert við sjálfa sig væri dýru verði keyptur: „Ég gerði mér grein fyrir því að ef ég skilaði 110 prósenta vinnu fengi ég góða útkomu. Ef ég legði aðeins harðar að mér yrði árangurinn jafnvel enn betri. En þessi árangur hafði hins vegar afleiðingar fyrir mig sjálfa: Ég slakaði aldrei á .... ég fann fyrir sívaxandi streitu ... Ég var ekki bara að setja efni inn á heimasíðuna á tíu mínútna fresti í tólf tíma samfleytt, heldur vann ég líka í tvo og hálfan tíma áður en við byrjuðum að pósta og langt fram á nótt til að undirbúa næsta dag.“ Loks ákvað hún að hætta hjá Jezebel. „Það tók mig meira en ár að komast niður á jörðina ... ár þangað til ég fór að einbeita mér meira að sjálfri mér en því sem var að gerast á netinu.“

Allt frá því að ég fékk viðvörunina hef ég boðað fagnaðarerindið – að við þurfum að aftengja hið sítengda líf okkar og tengjast okkur sjálfum á ný. Þetta hefur verið vegvísir ritstjórnarstefnu lífsstílshluta HuffPost í Bandaríkjunum, sem eru tuttugu og sex talsins og er ætlað að kynna aðferðir til að hugsa vel um okkur og lifa yfirveguðu og markvissu lífi á sama tíma og við höfum jákvæð áhrif á heiminn. Þar sem HuffPost starfar nú á sífellt fleiri stöðum um allan heim yfirfærum við þessa ritstjórnarstefnu á alla alþjóðlega útgáfu okkar – í Kanada, Bretlandi, Frakklandi, Ítalíu, Spáni, Þýskalandi, Japan, Brasilíu og Suður-Kóreu.

Ég man það eins og það hefði gerst í gær: Ég var tuttugu og þriggja ára gömul og var á ferðalagi til að kynna fyrstu bók mína, The Female Woman, sem var óvænt orðin metsölubók á alþjóðavísu. Ég sat í herberginu mínu á evrópsku hóteli. Herbergið var eins og fallegt málverk. Gular rósir voru á skrifborðinu, svissneskt súkkulaði við rúmið og franskt kampavín í klakafötu. Eina hljóðið sem heyrðist var lágt brak í klakanum þegar hann bráðnaði hægt og varð að vatni. Röddin í höfði mínu var miklu háværari. „Er þetta allt og sumt?“ Þessi spurning, sem Peggy Lee spurði að eins og frægt er (hjá þeim sem eru nógu gamlir til að muna það), hélt áfram að endurtaka sig í huga mínum eins og biluð plata og rændi mig þeirri gleði sem ég hafði búist við velgengnin veitti mér. „Er þetta í raun og veru allt og sumt?“ Ef þetta er að „lifa“, hvað er þá lífið? Getur takmark lífsins snúist eingöngu um peninga og frægð? Djúpt innra með mér sagði hluti af mér – sá sem er dóttir móður minnar – afgerandi „nei!“ Í kjölfarið fór ég smám saman en örugglega að hafna gróðavænlegum boðum um að tala og skrifa um efni The Female Woman. Þess í stað tók ég fyrsta skrefið á annarri langri vegferð.

Á þeirri stundu þegar ég viðurkenndi fyrst að ég vildi ekki lifa lífi mínu samkvæmt því sem menning okkar skilgreinir sem velgengni hóf ég að fylgja leið sem var hvorki bein né greið. Stundum var hún frekar eins og spírall, með mörgum bakslögum sem komu þegar ég festist í hvirfilvindinum sem ég vissi að myndi ekki veita mér það líf sem ég þráði mest.

Svo sterk er tilhneigingin til að miða velgengni við peninga og völd, jafnvel hjá mér sem naut þó þeirrar blessunar að eiga móður sem lifði þriðjamiðslífi áður en ég vissi hvað þriðja miðið var. Þess vegna er þessi bók að nokkru leyti eins og að koma heim í mínum huga.

Þegar ég bjó fyrst í New York á níunda áratugnum hitti ég oft yfir hádegis- eða kvöldverði fólk sem naut velgengni samkvæmt fyrstu tveimur viðmiðunum – átti peninga og völd – en var þó enn að leita að einhverju öðru og meira. Þar sem okkur vantar kóngafólk í Bandaríkjunum höfum við lyft á tignarstall helstu peninga- og valdameisturunum. Til að komast í nútímahásæti þarf ekki blátt blóð heldur þarf að sýna ótvírætt fram á velgengni og því látum við okkur dreyma um aðferðir til að ná slíkum árangri. Kannski eru það líka þær stöðugu væntingar sem okkur eru innrættar frá barnæsku, að við getum upplifað ameríska drauminn, sama af hversu lítilfjörlegum ættum við erum. Ameríski draumurinn, sem hefur borist um allan heim, er nú skilgreindur út frá hlutum: húsum, bílum, bátum, flugvélum og öðrum leikföngum fyrir fullorðna.

Ég trúi því þó að annar áratugur þessarar nýju aldar sé þegar orðinn allt öðruvísi. Auðvitað eru enn milljónir manna sem leggja velgengni að jöfnu við fé og völd – þetta fólk er harðákveðið í að stökkva aldrei af hlaupabrettinu, hversu mikið sem það kann að bitna á heilbrigði þess, samböndum og hamingju. Enn vonast milljónir manna eftir stöðuhækkun og bíða eftir næsta feita launaseðli sem þeir trúa að muni láta þeim líða betur eða duga til að bæla niður óhamingju þeirra. En á Vesturlöndum og í öðrum vaxandi hagkerfum fjölgar á hverjum degi þeim sem átta sig á því að þetta eru öngstræti – að þeir eru ekki að eltast við draum heldur tálsýn og að við getum ekki fundið svarið eingöngu í þeirri skilgreiningu á velgengni sem notuð er nú til dags, vegna þess að – eins og Gertrude Stein sagði eitt sinn um Oakland – „það er ekkert þar þarna.“

Sífellt fleiri vísindalegar rannsóknir og tölfræði um heilsu sýnir að það líf sem við lifum – það sem við setjum í forgang og metum mikils – virkar ekki. Og æ stærri hópur kvenna – og karla – neitar að bætast á listann yfir þá sem hafa fallið í valinn. Þess í stað er þetta fólk farið að endurmeta líf sitt í því augnamiði að njóta sín í stað þess að reyna að ná árangri samkvæmt þeim mælikvörðum sem yfirleitt eru notaðir til að meta velgengni.

Nýjustu rannsóknir staðfesta að aukin streita og kulnun í starfi hafa gríðarlegar afleiðingar, bæði fyrir einstaklinga og heilsu þeirra og heilbrigðiskerfið. Vísindamenn við Carnegie Mellon komust að því að á árunum 1983 til 2009 jukust streitueinkenni um 10 til 30 prósent í öllum þjóðfélagshópum. Aukin tíðni streitu getur valdið aukinni tíðni sykursýki, hjartaáfalla og offitu. Samkvæmt tölum frá Bandarísku sóttvarnastöðinni rennur þriðjungur þess almannafjár sem varið er til heilsugæslu til meðhöndlunar slíkra langvinnra sjúkdóma og aðhlynningar þeirra sem þjást af þeim. Benson-Henry stofnunin við ríkisspítalann í Massachusetts áætlar að 60 til 90 af hundraði heimsókna til læknis komi til vegna sjúkdóma sem rekja má til streitu. Í Bretlandi hefur streita enn fremur á síðustu árum verið skilgreind sem meginorsök veikinda á landsvísu. Tim Straughan, aðalframkvæmdastjóri Upplýsingamiðstöðvar um heilsu og velferð, sagði: „Gera mætti ráð fyrir því að streita og kvíði væru einkenni sem leiddu frekar til heimsókna á stofu sérfræðinga en á sjúkrahús. Samt sem áður benda tölur okkar til þess að þúsundir sjúklinga sem þjást af streitu eða kvíða leggist árlega inn á spítala í Englandi.“

Streitan sem við glímum við hefur líka áhrif á börnin okkar. Í tímariti Bandarísku barnalækningastofnunarinnar var lögð áhersla á áhrif streitu á börn – jafnvel meðan þau eru enn í móðurkviði. Nicholas Kristof skrifaði í The New York Times: „Fjandsamlegt eða skeytingarlaust umhverfi veldur því streituhormón, til dæmis kortisól, flæða um líkama ungbarna, og jafnvel fóstra, sem getur raskað efnaskiptum og gerð heilans. Þannig verða börn fyrir áfalli sem stundum hefur varanleg áhrif. Jafnvel mörgum árum síðar, þegar þau eru orðin fullorðin, eru þau líklegri en aðrir til að fá hjartasjúkdóma, vera of þung, fá sykursýki eða aðra sjúkdóma. Þau eru einnig líklegri en önnur börn til að eiga í erfiðleikum í skóla, vera skapbráð og leiðast út í afbrot.“

Ein ástæða þess að við leyfum streitu að taka sér bólfestu í lífi okkar er að við segjumst ekki hafa tíma til að sinna okkur sjálfum. Við erum of upptekin við að elta tálsýnina um farsælt líf. Munurinn á því hvernig slík farsæld lítur út og því sem raunverulega lætur okkur dafna er ekki alltaf skýr í dagsins önn en hann verður mun meira áberandi í baksýnisspeglinum. Hefurðu tekið eftir því að þegar fólk deyr er því hampað í minningargreinum fyrir allt aðra hluti en þá sem skilgreindir eru af samfélaginu sem velgengni?

Eftirmæli eru í raun mjög í anda þriðja miðsins. Þótt það sé ekki erfitt að lifa í samræmi við þriðja miðið er mjög auðvelt að gera það ekki. Það er auðvelt að leyfa vinnunni að gleypa sig með húð og hári. Það er auðvelt að leyfa vinnuskyldunum að heltaka sig og gleyma hlutum og fólki sem skipta raunverulega máli. Það er auðvelt að láta tæknina umvefja sig í heimi sem ýtir undir áhyggjur og streitu. Það er í raun og veru auðvelt að missa af aðalatriðum lífsins um leið og við lifum því. Þar til við erum ekki lengur á lífi. Minningarorðin eru oft fyrsta formlega samantektin um líf okkar – undirstöðuskjal fyrir arfleifð okkar. Þau sýna hvernig fólk minnist okkar og hvernig við lifum áfram í hugum og hjörtum annarra. Og það sem við heyrum ekki í minningarorðunum segir sína sögu. Við heyrum næstum aldrei sagt:

„Mesta afrek hans í lífinu var þegar hann var gerður að varastjórnarformanni fyrirtækisins.“

Eða:

„Hann margfaldaði markaðsvirði hlutabréfa í fyrirtækinu á starfstíma sínum.“

Eða:

„Hún vann sleitulaust og tók sér aldrei hlé. Hún borðaði hádegismatinn við skrifborðið á hverjum degi.“

Eða:

„Hann missti alltaf af því þegar sonur hans var að keppa vegna þess að hann þurfti alltaf að fara einu sinni enn yfir tölurnar í skýrslunni.“

Eða:

„Þótt hún ætti enga raunverulega vini átti hún sex hundruð vini á Facebook og á kvöldin svaraði hún hverjum einasta tölvupósti sem hún fékk.“

Eða:

„Glærurnar hans voru alltaf mjög vandaðar.“

Minningarorðin eru alltaf um eitthvað annað: það sem við gáfum, hvernig við tengdumst, hve miklu máli við skiptum fjölskyldu okkar og vini, um góðvild okkar og vinsemd, ástríðu sem entist út lífið og það sem kom okkur til að hlæja.

Hvers vegna eyðum við þá svo miklu af takmörkuðum tíma okkar á jörðinni í að einblína á allt það sem aldrei verður minnst á í minningarorðunum?

„Minningarorð eru ekki ferilskrá,“ skrifaði David Brooks. „Þau lýsa umhyggju, visku, heiðarleika og hugrekki manneskjunnar. Þau lýsa milljón litlum siðferðisdómum sem eiga upptök sín innra með okkur.“

Samt verjum við svo miklum tíma og fyrirhöfn og orku í ferilskrána – skjal sem missir gildi sitt um leið og hjartað hættir að slá. Jafnvel minningarorðin um þá sem skrifaðar hafa verið magnaðar Wikipediu-færslur um – þá sem lifðu lífi sem einkenndist af afrekum og stórframkvæmdum – fjalla aðallega um það sem þeir gerðu þegar þeir voru ekki að afreka eitthvað eða ná árangri. Eftirmælin eru ekki bundin við hina ónýtu skilgreiningu okkar á velgengni. Tökum Steve Jobs sem dæmi, mann sem helgaði líf sitt, að minnsta kosti eins og það blasti við almenningi, sköpun hluta – hluta sem vissulega voru merkilegir og skiptu sköpum í lífi margra. En þegar systir hans, Mona Simpson, stóð upp til að heiðra hann við minningarathöfnina var það ekki þetta sem hún einblíndi á.

Vissulega talaði hún um starf hans og vinnusiðferði. En fyrst og fremst vakti hún athygli á því að það bæri vitni um eldmóð hans. „Steve vann við það sem hann unni,“ sagði hún. Það sem raunverulega hreyfði við honum var ást. „Ástin var í hans huga æðst allra dyggða,“ sagði hún, „Guð allra guða.“

„Þegar Reed [sonur hans] fæddist gat hann ekki hætt að monta sig af honum. Hann var góður faðir og nákominn öllum börnum sínum. Hann kvartaði yfir kærustum Lísu og ferðalögum og fatastíl Erinar og hafði áhyggjur af öryggi Evu í kringum hestana sem hún dýrkaði.“

Svo bætti hún við þessari hjartnæmu lýsingu: „Enginn þeirra sem komu í útskriftarveislu Reeds mun nokkru sinni gleyma þeirri sjón þegar hann og Steve dönsuðu vangadans.“

Systir Steve Jobs tók af öll tvímæli um það í þessum minningarorðum að hann var miklu meira en bara gaurinn sem fann upp iPhone. Hann var bróðir og eiginmaður og faðir sem þekkti hin sönnu gildi sem tæknin á svo auðvelt með að draga athygli okkar frá. Jafnvel þótt þú búir til hlut sem er ein helsta táknmynd nútímans eru minningarnar sem þú skapaðir í lífi fólksins sem þú unnir mest efst í huga þess.

Í skáldsögu Marguerite Yourcenar frá 1951, Memoirs of Hadrian, lætur höfundurinn rómverska keisarann íhuga dauða sinn: „Mér virðist nú þegar ég skrifa þetta varla merkilegt að hafa verið keisari.“ Í grafskrift Thomasar Jeffersons segir að hann hafi verið „höfundur sjálfstæðisyfirlýsingar Bandaríkjanna ... og stofnandi háskólans í Virginíu.“ Ekki er minnst á að hann hafi verið forseti.

Orðatiltækið að lifa fyrir líðandi stund merkir venjulega að við eigum ekki að bíða þar til dauðinn vofir yfir með að forgangsraða því sem virkilega skiptir máli. Allir sem eiga snjallsíma og stútfullt tölvupósthólf vita að það er auðvelt að vera önnum kafinn án þess að gera sér grein fyrir að lífið er í fullum gangi.

Líf sem viðurkennir þriðja velgengnismiðið og tekur því fagnandi er líf sem tekur mið af eftirmælum okkar. „Mér er alltaf létt þegar einhver heldur minningarræðu og ég átta mig á því að ég er að hlusta á hana,“ sagði George Carlin í gríni. Við verðum kannski ekki vitni að okkar eigin minningarræðu en við erum í raun og veru að skrifa hana öllum stundum, á hverjum degi. Spurningin er bara hversu mikið efni við eftirlátum ræðumanninum að vinna úr.

Sumarið 2013 var send út tilkynning vegna andláts Jane Lotter, konu sem bjó í Seattle og lést úr krabbameini sextug að aldri. Höfundur dánarfregnarinnar var Lotter sjálf.

„Einn fárra kosta við að deyja úr leghálskrabbameini sem dreifst hefur í lifur og kviðarhol,“ skrifaði hún, „er að maður hefur tíma til að skrifa sína eigin dánartilkynningu.“ Í lok yndislegrar, fjörmikillar frásagnar af lífi sínu sýndi hún að raunveruleg velgengni var henni ofarlega í huga. „Elsku Bob, Tessa og Riley,“ skrifaði hún. „Ástkæru vinir og fjölskylda. Þið eruð mér svo kær. Það var gæfa lífs míns að þekkja ykkur og elska.“

Það skiptir ekki máli hvort þú trúir á líf eftir dauðann – eins og ég geri – eða ekki. Ef þú ert sannarlega til staðar í eigin lífi og lífi þeirra sem þú elskar ertu um leið að skrifa þín eigin eftirmæli; skapa raunverulega útgáfu af framhaldslífi þínu. Það er ómetanlegur lærdómur – sem hefur mun meira gildi á meðan við erum svo heppin að vera heilsuhraust og höfum orku og frelsi til að lifa innihaldsríku lífi, lífi sem hefur tilgang. Góðu fréttirnar eru þær að við höfum öll enn tíma til að upplifa bestu útgáfuna af minningarorðunum.

Þessari bók er ætlað að hjálpa okkur að þokast frá því að vita hvað gera skal til þess að gera það í raun og veru. Ég veit fullvel að þetta er ekki einfalt mál. Það er sérstaklega erfitt að breyta rótgrónum venjum. Margar af þessum venjum eru afsprengi fastmótaðra menningarhefða, sem gerir það jafnvel enn erfiðara að breyta þeim. Þetta er sú áskorun sem við stöndum frammi fyrir þegar við endurmetum velgengni. Þetta er sú áskorun sem við mætum þegar við gerum lögmál þriðja miðsins hluta af daglegu lífi okkar. Þessi bók fjallar um þann lærdóm sem ég hef dregið af tilraunum mínum til að útskýra lögmál þriðja miðsins – ferli sem ég ætla að stunda til æviloka. Hér eru líka samankomnar nýjar upplýsingar, vísindalegar rannsóknir og uppgötvanir sem ég vona að sannfæri jafnvel tortryggnustu lesendur um að sú aðferð sem við notum nú við að lifa lífinu virki ekki og að það sé vísindalega sannað að við getum lifað öðruvísi – eftir leiðum sem hafa tafarlaus og mælanleg áhrif á heilsu okkar og hamingju. Loks – vegna þess að ég vil vera eins hagsýn og mögulegt er – er líka að finna í bókinni ýmsar æfingar, aðferðir og tækni sem auðvelt er að nýta sér dagsdaglega. Meginmarkmiðið er þegar upp er staðið að við getum tengst okkur sjálfum, ástvinum okkar og samfélaginu á nýjan leik – að við fáum að njóta okkar. 

Arianna Huffington.
Arianna Huffington. mbl.is/AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál