Fór í markþjálfun og minnkaði vinnuna

Berglind Ósk Bergsdóttir er tölvunarfræðingur og sérfræðingur í farsíma- og framendaforritun hjá Kolibri. Hún er móðir 11 ára drengs og ljóðskáld í hjáverkum. Að tilefni alþjóðlega markþjálfunardeginum sem haldinn verður 25. janúar næstkomandi ræðum við um tilgang og árangur markþjálfunar.

Aðspurð um af hverju hún hafi farið í markþjálfun segir Berglind að hún hafi byrjað þegar hún hóf störf hjá Kolibri. „Fyrirtækið býður upp á markþjálfun fyrir starfsfólk og nýtti ég tækifærið þegar þegar ég byrjaði að vinna þar,“ segir Berglind. 

Hvaða áskoranir varstu að upplifa á þessum tíma?

„Ég var á tímamótum í lífinu, í fyrsta lagi var ég að breyta um áherslu í starfi, þ.e. að fara frá Plain Vanilla eftir 4 ár þar sem ég sérhæfði mig í Android forritum, yfir í mjög ólíka forritun á nýjum vinnustað. Í öðru lagi var ég einnig búin að vera í mikilli sjálfsvinnu þar sem ég var búin að taka til í fortíðinni og vinna úr gömlum málum. Mér fannst kominn tími til að líta fram á við og skoða hvert ég vildi stefna. Það má segja að ég hafi verið á besta tíma til að byrja í markþjálfun.“ 

Hvaða áhrif hafði markþjálfunin á þig?

„Hún gerði mér grein fyrir hvað ég vildi leggja áherslu á í lífinu og hvað veitir mér lífsfyllingu, hvernig ég stóð í því sambandi og hvað ég gæti gert til að ná að uppfylla það betur.“

Besta útgáfan af sjálfum sér

Hvað gerir góður markþjálfi að þínu mati?

„Góður markþjálfi er ekki að ráðleggja manni eða segja manni til, heldur fær hann mann til að koma með spurningarnar við því hvernig maður getur verið betri útgáfa af sjálfum sér og það sem er það magnaðasta. Hann dregur svörin við þeim upp úr manni sjálfum.“

Hvern fórst þú til?
„Örn Haraldsson heitir hann markþjálfi og teymisþjálfi hjá Kolibri og algjört gull af manni.“

Var eitthvað sem kom á óvart í þessu ferli?

„Já, hvað var auðvelt að svara spurningunum og takast á við allar áskoranirnar. Þar að segja ef ég var spurð réttu spurninganna.“

Breytti til fyrir framtíðina

Hvað getur þú sagt mér um stöðuna sem þú ert í í dag? Hverju hefur þetta breytt?

„Þetta styrkti mig í þeirri ákvörðun að stefna að minna vinnuhlutfalli til að hafa meiri tíma fyrir hluti sem skipta mig mjög miklu máli sem eru að skrifa og veita fólki innblástur við að vera það sjálft og láta gott af mér leiða. Ég er nú í 90% starfshlutfalli og stefni á að lækka það enn frekar þegar mér finnst það henta. Einnig hef ég tekið að mér meiri vinnu innan Kolibri sem tengist ástríðu minni að skrifa . Nú skrifa ég blogg og samfélagsmiðlapósta, sem og að hlúa að heilbrigðu vinnuumhverfi sem er mér einnig mikil ástríða. Markþjálfunin gaf mér byr í seglin til að ferðast meira þar sem ég hef tök á því sem forritari, og að fara með fyrirlestur um loddaraheilkennið (e. Impostor Syndrome) á ráðstefnur um allan heim.“

Skrifa niður plan

Áttu einhver ráð handa fólki sem upplifir sig fast í lífinu?

„Eitt gott ráð sem hver sem er getur gert heima hjá sér er að skrifa niður 5 ára plan. Þá er ég ekki að tala um hvað þú myndir mögulega kannski hugsanlega vera að gera eftir 5 ár, heldur sjáðu þig hömlulaust fyrir þér eftir 5 ár á þeim stað í lífinu sem þú myndir helst af öllu vilja vera á, hvað ertu að gera NÚNA (árið 2023)? Þegar það er komið niður á blað geturðu skrifað niður hvaða litlu skref þú getur tekið núna árið 2018 til að feta þig í þessa átt.  En svo mæli ég auðvitað klárlega með að fara til markþjálfa, eða kynna sér málið betur á markþjálfadeginum 25. janúar á Hilton ég og fleira frábært fólk verðum með fyrirlestra.“

Með skýr markmið

Hvert stefnir þú í framtíðinni?

„Ég stefni á að verða sjálfstætt starfandi, verða rithöfundur og halda áfram að gefa af mér til að bæta líf annarra. Ég stefni á að vera meira úti í náttúrunni og minna fyrir framan skjái, eyða minna í hluti en meira í tíma með fólkinu mínu.“

Hver er lífsgildin þín?

„Heiðarleiki - að segja hvernig mér líður og hvað ég er að hugsa, hugrekki - að framkvæma þrátt fyrir að vera hrædd, og jafnaðargeð - tilfinningar koma og fara, það er engin ástæða til að dvelja í þeim neikvæðu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Guðrún Kristjánsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál