Marsspá Siggu Kling er lent

Marsspá Siggu Kling er komin í loftið.
Marsspá Siggu Kling er komin í loftið. Ljósmynd/Kári Sverriss

Spákonan Sigga Kling er komin með funheita stjörnuspá fyrir marsmánuð. Mars verður áhugaverður fyrir margar sakir. Kannski skiptir hrúturinn um vinnu? Mun nautið elska of heitt og nær tvíburinn að losa sig við afkomukvíðann? 

Breytingar í kortunum!

Hrúturinn er frá 21. mars til 19. apríl.

Elsku Hrúturinn minn, Þú átt eftir að vera í svo góðri orku og sterkum krafti þennan mánuðinn svo það er alveg sama hvað mætir þér, þú ferð í gegnum það.

Það eru samt breytingar í kortunum, nýir möguleikar í sambandi við hvernig þú vilt gera hlutina, í sambandi við vinnu, skóla eða tilfinningar. Þú ert búinn að vera að breyta um aðferðir, eina og eina í senn og það er eins og þú finnir lykilinn til að leysa þau vandamál sem eru að birtast.

Í þér býr svo sterkur leiðtogi og þú ert á hraðferð inn í þann tíma þar sem þú sérð hvað þú ert fær um. Þú ferð að virkja líkama þinn betur, hugsar meira um hvernig þú ætlar að líta út og verður ánægðari með þig, þar af leiðandi.

Lesa meira

Þegar þú elskar, þá elskar þú svo heitt

Nautið er frá 20. apríl til 20. maí.

Elsku Nautið mitt, nú á þrjóskan eftir að koma sér vel. Þú ferð áfram hvort sem þú getur það eða ekki.

Þú leggur allt þitt undir til að ná takmarkinu og þó að þú hafir verið þreytt undanfarið er eins og þú rísir upp eins og enginn sé morgundagurinn. Þú ert eitthvað svo sárt út í vin eða vinkonu en láttu það nú ekki draga úr þér aflið og lokaðu ekki á neinn nema þú ætlir að gera það til langframa.

Þegar þú elskar, þá elskar þú svo heitt og það er erfitt fyrir þig, ef ástin hefur brotnað í fortíðinni, að treysta því að það verði í lagi þegar þú finnur þá tilfinningu aftur. Þú ert svo heiðarlegt og þar af leiðandi áttu erfitt með að setja þig í spor þeirra sem að standa ekki við það sem þau segja og fara á bak við þig. Það væri best að þú gleymdir hinu gamla svo það nýja fæðist fyrr. Skýrar skoðanir þínar gætu komið þér í vanda svo að það er gott fyrir þig að vera ekkert að reyna að hafa rétt fyrir þér í öllu þó að þínar skoðanir séu sannleikur þá eru ekki allir sem vilja hlusta á það.

Lesa meira 

Það verður merkilegt ferðalag hjá þér

Tvíburinn er frá 21. maí til 20. júní.

Elsku Tvíburinn minn, guði sé lof fyrir það að sumarið sé að færast nær þér. Þú ertað vakna úr dvala eða svolitlum þunga og finnur kraftinn streyma um æðakerfi þitt.

Þú þarft ekki að vera með afkomukvíða eða hræðslu gagnvart því að þú bjargir ekki málunum í peningalegu samhengi en það er samt gott fyrir þig að setja þig í samband við þá sem þú þarft að gera upp við því það léttir hjartsláttinn og gefur þér kraftinn.

Talan 5 er tengd inn í stjörnumerki þitt og það er hún sem er visst hreyfiafl sem á eftir að koma þér í gírinn til að finna þær lausnir sem þig vantar inn í lífsveginn. Það verður merkilegt ferðalag hjá þér hvort sem að það er langt eða stutt því að þú átt eftir að hitta einhvern sem breytir mörgu í lífi þínu eða fá hugmynd um hvernig þú getur búið til skemmtilegri nótur og þar af leiðandi spilað betri lög.

Lesa meira

Í ástinni gefur þú svo mikið

Krabbinn er frá 21. júní til 22. júlí.

Elsku Krabbinn minn, eins og þú ert dásamlegur, litríkur og lifandi þá dettur þú í að vera öskureiður yfir óréttlæti alheimsins og yfir svo mörgu. Ekki setja mikla orku í þetta því þú gætir fest þig í einhverjum leiðindum sem er ómögulegt að leysa.

Það er kraftur í kringum komandi tíma og þú verður svo sannarlega hissa á því hvað þú getur. Það er hægt að kalla þig ráðagóða róbótinn því þú hefur svar við flestu og fólk leitar til þín með ótrúlegustu spurningar. Þú ert líka fyrstur á staðinn ef einhver biður um hjálp. Þú hefur verið staðfastur í  hugsjón um hvað þú vilt fá út úr lífinu og margt af því er svo sannarlega að rætast.

Lesa meira

Vertu staðfast í að trúa og treysta

Ljónið er frá 23. júlí til 22. ágúst.

Elsku Ljónið mitt, það er töluverð óþolinmæði í kringum þig og þér finnst ekki nóg vera að hreyfast í rétta átt en það er svo sannarlega að gera það. Þú ert með fallegu töluna 7 yfir merkinu þínu og það gefur þér andlega vakningu og aðra sýn á lífið.

Það er svo margt sem þú þarft að skoða betur í kringum þig því að í huganum þínum og sál eru svörin sem þú ert að leita að. Þú þarft ekki að breyta svo miklu, t.d. flytja eða skipta um vinnu, því stórfelldar breytingar munu ekki henta þér núna.

Vertu staðfast í að trúa og treysta, þá færðu svörin í gullpakka til þín. Það er svo merkileg vinátta að eflast hvort sem að það tengist núinu eða er úr fortíðinni.

Lesa meira

Þú ert að stækka á einhverju sviði

Meyjan er frá 23. ágúst til 22. september.

Elsku Meyjan mín, þó að þér finnist eitthvað vera að draga aftur að þér og lífið ekki nákvæmlega að leika við þig eins og þú hefur teiknað það upp, þá þarftu að sýna hugrekki í því sem þú vilt skipta út úr lífsforminu þínu og breyta, því ef að þú gerir það ekki sjálf þá verður ekkert úr þessum breytingum.

Taktu því áhættu með sjálfa þig og það sem þú vilt. Það er svo merkilegt að ef að maður vill t.d. losna úr sambandi við vin eða ástvin sem manni finnst jafnvel vera búinn að leika sig grátt, taka frá manni orku eða henta manni ekki, þá verður maður fyrst í huganum að þakka fyrir vináttuna eða sambandið, þakka allt það sem þessi persóna hefur fært manni en svo þarf að segja; „en nú máttu fara“. Þá horfir þú á eftir þeim sem á við í þessu tilviki labba í burtu og verða að engu.

Þannig losnar þú út úr þessum tengslum og hefur styrk til að loka. Varðandi heimili eða vinnu þá þarftu líka að muna að þakka fyrir heimilið og vinnuna, setja góða orku þar í kring og segja að nú sé þetta hús eða heimili tilbúið að fá nýjan eiganda eða vinnan nýjan starfsmann.

Lesa meira

Láttu fortíðina lönd og leið

Vogin er frá 23. september til 22. október.

Elsku Vogin mín, þú ert búin að vera að hreinsa svo mikið til í lífi þínu og í kringum þig en þú átt það til að flækjast og lenda í annarra manna drama og lætur það flækjast fyrir þínum tilfinningum og því sem þú vilt gera.

Það er svo sterkt í þér það element að segja já ef þú ert beðin um eitthvað. Taktu vel eftir, það er mikilvægt að þú standir sterk og útilokir að flækjast  of mikið inn í erfiðleika annarra nema að því marki sem nauðsynlegt er.

Þú hefur hugarfar snillings en hættir samt til að vera annars hugar. Þetta er líka tengt eðli þínu, þú ert bæði ástríðufull og umhyggjusöm en kannski væri gott að hafa meira sjálfsdekur í eðli þínu, það væri ekki verra.

Lesa meira

Það er ekkert í lífinu sem að þú getur ekki

Sporðdrekinn er frá 23. október til 21. nóvember.

Elsku Sporðdrekinn minn, þér hefur fundist að hurðir í kringum þig væru að opnast og lokast, önnur hurðin er tengd hamingjunni en hin tengd ókyrrð.

Þessir mánuðir sem þú ert að fara inn í núna hafa hamingjuhurðina alltaf opna þó að stundum sé bara rifa á henni. Ekki vorkenna þér út af neinu því það að vorkenna sér skapar vandamálaveröld. Þú hefur sterka hæfileika til að fljúga hærra en flestir en finnst oft að þú nennir því ekki eða elskar hellisbúann sem býr líka í þér.

Flutningar, tilfærsla í vinnu með jákvæðri orku, meiri kraftur í líkama og sterk og skýr hugsun er að mæta þér. Góðir dagar í þessum mánuði eru upp úr 10. mars og mjög merkilegt tímabil í kringum 29. mars og 11. apríl.

Lesa meira

Þú skalt leika þér meira

Bogmaðurinn er frá 22. nóvember til 21. desember.

Elsku Bogmaðurinn minn, það eru svo margir sem reiða sig á þig og treysta þér en það er erfitt að gera öllum til geðs og bara hreinlega ekki hægt því að þá hættir þú að vera þú sjálfur.

Þú verður eitthvað svo skipulagður og nærð ótrúlega góðu jafnvægi milli vinnu, vináttu og ástar. Þér er gefið í vöggugjöf bæði klassi og stíll sem er svo sannarlega þinn eigin. Hjá þínu merki er talan 11 sem er masterstala, hún er tengd við að vera heppinn með orð og peningalega er hún besta talan.

Þú græðir á verkefni eða viðskiptum eða því sem þú gerir eða átt eftir að gera, það er eins og þú finnir lyktina af réttum hlutum í sambandi við fjármálin. Fólk í kringum þig á ekki eftir að skilja í því hvernig þú ferð að því að geta og gera það sem þú vilt svo þú gætir lent í skemmtilegu slúðri sem þú ættir bara að hlægja að.

Lesa meira

Þú þarf að núllstilla orkuna

Steingeitin er frá 22. desember til 19. janúar.

Elsku Steingeitin mín, þér finnst að það sé verið að klukka þig úr öllum áttum. Biðja þig um að redda þessu og hinu, þurfa að skila öllu þínu 250%. Þú þarft að afstilla þessa hálfgerðu ringulreið í kringum þig og standa betur með þér svo þú getir gefið þér tíma til að endurnýja líkama og sál eða læra að núllstilla orkuna.

Þessi mánuður færir þér gjafir fyrir andann þinn og huga og gefur þér möguleika á að styrkja allar einingar þínar, þá meðtalið fjölskyldu og ástarsambönd. Þetta gefur þér líka skýrari svör um á hvaða leið þú ert og hver þú vilt vera.

Þú átt að skapa þinn karakter eins og þú myndir byggja upp fyrirtæki, hver er grunnurinn, hver eru markmiðin og hvaða möguleika getur þú nýtt þér? Við erum nefnilega okkar stærsta fyrirtæki. Það þarf að hafa skýra sýn á hvað fyrirtækið vill verða þegar það stækkar.

Lesa meira

Það er svo skapandi orka að fæðast

Vatnsberinn er frá 20. janúar til 18. febrúar.

Elsku Vatnsberinn minn, þú ert svo skemmtilega hugsandi týpa og eyðir miklum tíma í að spá í lífið og tilveruna. Þú ert alltaf að gera þér far um að verða betri manneskja.

Hin dásamlega tala 1 er yfir merkinu þínu núna og þetta árið en hún táknar nýtt upphaf í öllum mögulegum þáttum í kringum þig. Þú finnur að þú verður sáttari og sáttari með tilveruna og það er eins og þú hafir töfrasprota og getir hreinlega galdrað þegar þú þarft.

Þetta er líka tákn þess að vera sterk fyrirmynd en ekki að bíða eftir því að einhvern annar geri hlutina sem þig vantar að láta gera því að þú þarft sjálfur að fara í málin og sjá til þess að klára þau.

Lesa meira

Þetta er töfrandi tímabil

Fiskurinn er frá 19. febrúar til 20. mars.

Elsku Fiskurinn minn, það afl sem hvílir mest yfir þér er ímyndunarafl sem sendir þig annað hvort til helvítis á nokkrum sekúndum eða gefur þér himnaríki eins og þú sérð það fyrir þér.

Það er sérstaklega falleg orka yfir þessum mánuði. Það reddast allt en jafnvel ekki fyrr en á síðustu stundu og það er ekki þitt uppáhalds. Þessi kraftur er líka að gefa þér svo mikla innspýtingu til að þú farir að drífa þig að klára það helsta sem þú þarft að gera.

Þú mátt sýna mikið traust til þeirra sem eru að hjálpa þér eða vinna fyrir þig á einhvern máta því að það eru svo miklu fleiri hliðhollir þér og elska þig að þú getur ekki gert þér grein fyrir því. Þú horfir á örlög þín með augum sálfræðingsins og hefur djúpan og næman skilning á þeim sem að eiga bágt.

Lesa meira

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál