Ekki sjálfgefið að klára gönguna

Hugrún Hannesdóttir ætlar í Vasagönguna í Svíþjóð.
Hugrún Hannesdóttir ætlar í Vasagönguna í Svíþjóð. mbl.is

Skíðaganga frá bænum Sälen í Svíþjóð til bæjarins Mora í 90 km fjarlægð er árviss viðburður í Svíþjóð. En gangan, sem dregur nafn sitt af frækilegri skíðagöngu Gustavs Eriksson Vasa Svíakonungs, dregur að þúsundir þátttakenda árlega. Íslendingar tóku fyrst þátt í göngunni árið 1952 og í ár ætlar 35 manna hópur íslenskra skíðagarpa að taka þátt. Þeirra á meðal er Hugrún Hannesdóttir sem fékk gönguskíðabakteríuna þegar hún bjó í Noregi.

Félagsskapurinn mikilvægur

„Ég hef mjög lengi verið í fjallgöngum og þær hafa verið mín ær og kýr. Síðan bjó ég í Noregi í fimm ár en því miður kynntist ég ekki gönguskíðunum fyrr en síðasta árið áður en ég flutti heim. Þannig að ég rétt náði að fá bakteríuna. Í Noregi er ofsaleg góð aðstaða og mér finnst enn grátlegt að hafa ekki kynnst íþróttinni fyrr. Við byrjuðum síðan hjá Bændaferðum að bjóða gönguskíðaferðir sem kom að miklu leyti til af þessum áhuga. Þá fór ég með í fyrstu ferðina til Austurríkis og eftir það varð ekki aftur snúið. Félagsskapurinn er stór hluti af þessu og ég hef kynnst mörgu skemmtilegu fólki í gegnum íþróttina. Það er t.d. ekkert mál að skreppa einn í Bláfjöll því maður hittir alltaf einhvern sem maður þekkir. Þetta er frábær íþrótt til að stunda með öðrum íþróttum og fer t.d. mjög vel með fjallgöngum,“ segir Hugrún sem starfar sem sölustjóri utanlandsdeildar hjá Bændaferðum.

Á skíðum með gamla fólkinu

Þar sem frekar dýrt er að fara til Noregs í dag er oftast farið í gönguskíðaferðir til Austurríkis og stundum til Þýskalands. Hugrún segist hafa gert þau mistök að sleppa úr ferð einn veturinn og það muni hún ekki gera aftur. Hún fer til útlanda á hverju ári og reglulega hér heima. Hugrún er í Gönguskíðafélaginu Ulli hér á höfuðborgarsvæðinu og er þar varamaður í stjórn. Þar vinnur fólk í sjálfboðavinnu við að byggja upp félagsstarfið og auka áhugann á gönguskíðaiðkun á höfuðborgarsvæðinu.

„Aðstaðan í vetur hefur náttúrulega verið frábær því það hefur snjóað svo mikið. Uppi í Bláfjöllum er t.d. komið gönguskíðahús sem er afrek því þar var engin aðstaða. Ég er jafnvíg á svigskíðum en fyrst þegar ég flutti heim og sagði fólki á mínum aldri að ég væri á gönguskíðum voru viðbrögðin þau að ég væri á gönguskíðum með gamla fólkinu. Það viðhorf að maður færi á ekki gönguskíði nema maður væri hættur að fara á svigskíði hefur breyst mjög mikið síðan þá og nú eru fleiri sem eru til í að prófa. Mælingar hafa sýnt að þetta sé ein besta þolíþróttin og fólk þjálfar mun meira í líkamanum en á svigskíðum,“ segir Hugrún.

Tryggt að fólk ofgeri sér ekki

Skráning í Vasagönguna hefst í maí árinu áður og í byrjun júní síðastliðnum var orðið uppbókað í gönguna. Samkvæmt vefsíðu Vasagöngunnar verður hún sífellt vinsælli en í ár eru 15.800 keppendur skráðir til leiks.

„Það er ekki sjálfgefið að klára í fyrsta skipti sem maður fer því margt getur komið upp á. Þetta er 90 km skíðaganga sem þarf að klára á innan við 12 tímum og það er sjö sinnum á leiðinni sem þú getur dottið út. Það er að segja ef þú ert ekki kominn á ákveðinn stað á ákveðnum tíma færðu ekki að halda áfram. Þetta er líka til að tryggja það að fólk hreinlega ofgeri sér ekki. Ég hef farið í Fossavatnsgönguna á Ísafirði síðastliðin þrjú ár og farið þar lengst 20 km. Þannig að þetta er dálítið mikið stökk. Ég fer á morgun (laugardag) í hálfs mánaðar æfingabúðir til Austurríkis í hópi fólks. Að þeim tíma liðnum verður að koma í ljós hvernig maður stendur og svo æfi ég auðvitað áfram hér heima út febrúar,“ segir Hugrún.

Nóg af bláberjasúpu

Töluverða tækni þarf á gönguskíðum til að ná upp hraða og verða sæmilega góður. En í svo langri göngu þarf vissulega margt að hafa í huga.

„Mér skilst að maður þurfi að passa vel upp á stafina að þeir brotni ekki því það er svo mikið kraðak í keppninni. Eins er það ákveðinn kapítuli út af fyrir sig hvernig keppnisskíðin eru smurð. Svo er bara að hugsa fyrir því að maður á langan dag fyrir höndum. Maður má ekki klára sig í fyrri hluta göngunnar. Ég hef þjálfara sem er búinn að fara oft og þekki líka marga sem hafa farið og gefa mér góð ráð.

Á leiðinni er passað upp á að fók nærist en á um það bil 10 km fresti eru stöðvar þar sem heitir drykkir eru alltaf í boði svo og aðrir. Hin fræga, sænska bláberjasúpa er þar vinsæl og mér skilst að maður sé alveg búinn að fá nóg af bláberjasúpu eftir þessa göngu,“ segir Hugrún í léttum dúr

Hugrún Hannesdóttir.
Hugrún Hannesdóttir. Sigurgeir Sigurðsson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál