Guðrún gjörbreyttist við þátttökuna

Guðrún Ósk er miklu léttari í lund eftir að hún …
Guðrún Ósk er miklu léttari í lund eftir að hún missti öll þessi kíló.

„Tilfinningin að vera send heim var erfið. Ég vissi svo sem að ég myndi lenda undir gulu línunni og þetta kom mér ekkert á óvart þannig,“ segir Guðrún Ósk Leifsdóttir keppandi í Biggest Loser Ísland en hún var send heim á dögunum. Guðrún Ósk starfar á elliheimili og var 140 kg þegar hún byrjaði í sjónvarpsþættinum.

Þegar Guðrún Ósk kom heim af Ásbrú byrjaði hún hjá einkaþjálfara og hefur haldið Ásbrúarprógramminu nánast óbreyttu. Hún æfir á morgnana og borðar eins og henni var kennt. Í janúar kom þó smá babb í bátinn.

„Ég ristarbraut mig í hóptíma. Það var maður sem hljóp fyrir mig og fyrst hélt ég að ég væri illa tognuð en svo kom í ljós að ég var ristarbrotin og fór í gifs. Ég er að koma mér almennilega af stað aftur því þetta stoppaði mig svolítið.“

Þegar Guðrún Ósk er spurð að því hvernig jólin hafi verið segir hún að það hafi gengið vel í mataræðinu í desember.

„Ég var búin að ákveða að ég ætlaði ekki að leyfa mér neitt. Ég var mjög stíf með það og það gekk bara alveg fáránlega vel. Og ég æfði öll jólin en fékk mér reyndar desert eftir matinn á aðfangadag. Það var það eina sem ég lét eftir mér,“ segir hún og játar að það hafi verið svolítið erfitt - allir að baka smákökur í desember og ekkert nema sætindi í búðunum. Guðrún Ósk fékk mikinn stuðning frá fjölskyldu sinni og kærasta sem leyfðu henni ekki að detta í neitt rugl.

„Ég kom miklu sterkari út úr þessu og er núna búin að léttast heilmikið. Ég ætla að komast niður í 75 kg.“

Guðrún Ósk segir að lífið sé miklu auðveldara eftir að hún léttist. Hún finnur mikinn mun bæði andlega og líkamlega. „Ég er miklu glaðlyndari og ekki með endalausan hausverk. Ég er meira að pæla í því hvað lífið er orðið gott.“

Líf Guðrúnar Óskar hefur alltaf litast af því að hún missti móður sína þegar hún var þriggja mánaða. Hún segist aldrei hafa dílað almennilega við móðurmissinn.

„Þegar mamma deyr fer pabbi alveg í klessu sem gerir það að verkum að við pabbi eigum ekkert svona dóttir föður samband. Svo fór ég í samband þegar ég var 14 ára og byrjaði að búa 16 ára. Í sambandinu var andlegt ofbeldi en sambandið stóð yfir í fjögur og hálft ár. Eftir að ég hætti í sambandinu fór ég að fitna fyrir alvöru.“

Í fyrra fylgdist Guðrún Ósk með fyrstu seríu af Biggest Loser. Á svipuðum tíma áttaði hún sig á því að hún hafði í raun aldrei gert neitt í sínum málum fyrir sjálfa sig heldur fyrir fólkið í kringum hana. „Eftir lokaþáttinn af Biggest Loser í fyrra ákvað ég að skrá mig og byrjaði strax að reyna að gera eitthvað í mínum málum. Mér finnst ég vera komin á góðan stað því ég ákvað þetta sjálf.“

Mataræði Guðrúnar Óskar hefur tekið stökkbreytingum eftir að hún byrjaði í Biggest Loser. Í dag borðar hún sjeik í morgunmat með vatni, jarðarberjum og próteini. Stundum fær hún sér egg í morgunmat til tilbreytingar. Á milli mála fær hún sér egg og 1/4 agúrku. Í hádeginu borðar hún fisk með brokkólíi eða sætum kartöflum. Seinni partinn borðar hún hrökkbrauð með kotasælu og papriku og í kvöldmat er það kjúklingur og salat. Allra mesta dekrið er þegar hún fær sér fitness-popp en það gerist afar sjaldan. Í nýja lífinu hefur hún þá reglu að hún borðar ekki eftir kvöldmat.


Aðspurð að því hvað þátttaka hennar í Biggest Loser hafi gert fyrir hana segir hún að þátturinn hafi hreinlega breytt öllu.

„Biggest Loser breytti bara öllu. Að hafa fengið þetta tækifæri er ómentalegt. Að fá allan þennan stuðning frá öllum kveikti á perunni hjá mér. Ég sá það ekki fyrr en ég horfði á fyrstu þrjá þættina fattaði ég hvað ég var brotin. Það mátti ekki tala um neitt þá var ég bara farin að gráta. Þetta er allt annað í dag.“

Guðrún Ósk er búin að vera í ástarsambandi í þrjú ár og hefur hefur hann verið betri en enginn á meðan á átakinu hefur staðið.

„Hann mætir með mér í ræktina og hjálpar mér fáránlega mikið. Það varð allt annað að tala við mig þegar ég kom til baka. Hann fékk nýja gellu heim.“

Guðrún Ósk Leifsdóttir var 140 kg þegar hún byrjaði í …
Guðrún Ósk Leifsdóttir var 140 kg þegar hún byrjaði í Biggest Loser Ísland.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál