Ekki vera með allt í botni

Kolbrún Björnsdóttir mikilvægt að taka D-vítamín á veturna.
Kolbrún Björnsdóttir mikilvægt að taka D-vítamín á veturna. mbl.is/Rósa Braga

Kolbrún Björnsdóttir, grasalæknir í Jurtaapótekinu, er með nokkur góð ráð til þess að koma í veg fyrir skammdegisþunglyndi en hún segir það einnig mikilvægt að taka D-vítamín nú þegar farið er að hausta. 

Hvaða vítamín er mikilvægt að taka nú þegar dagurinn fer að styttast?

Í raun er bara nauðsynlegt að taka D-vítamín þegar sólin minnkar. En sumir halda að það eigi bara að taka omega 3 (hörfræolía, lýsi og hampolía) á veturna, en það á að taka alltaf, alla daga.

Þegar líða tekur á veturinn er gott að bæta við sig grænum jurtum á móts við grænmetið sem missir næringargildið sitt yfir veturinn. Það er til dæmis gott að birgja líkamann vel upp á flotta íslenska grænmetinu sem er til núna. Spergilskálið íslenska er miklu grænna en það innflutta, sem þýðir fleiri steinefni.

Getum við sleppt því að taka vítamíntöflur og fengið frekar vítamín úr matnum? 

Já það er alveg hægt að sleppa fjölvítamíni en þá þarf að huga vel að því hvernig maturinn er samsettur.

A-vítamín:  Allt sem er rautt og appelsínugult. Vatnsmelóna er sennilega með mest, en einnig gulrætur, sætar kartöflur og rauð paprika. Dropalýsi. Grænkál og eggjarauða.

B-vítamín: Fræ, hnetur, næringarger, hveitikím, grænt laufgrænmeti og hveitiklíð.

C-vítamín: grænkál, spergilkál, steinselja, acerolaber, rósaber, sítrónur, appelsínur og límóna.

E-vítamín: Hveitikím, grænt lauf, grænmeti, kaldpressaðar fræolíur (sólblóma og sesam), egg og heilkorn.

Kalk: Sesamfræ 1100 mg (tahini) er mest, kúamjólk 900 mg (en þar mæli ég bara með beint úr kúnni því kalkið er ekki lengur gott kalk þegar er búið að hita mjólkina), sardínur, grænt lauf grænmeti, lax, hafrar, möndlur, hirsi og sólblómafræ.

Magnesíum: Graskersfræ, kóríanderbókhveiti, hveitikím, hveitiklíð, kasjúhnetur, möndlur, mólassi, Brasilíuhnetur og þari.

Önnur steinefni: Grænt laufgrænmeti eins og grænkál, svartkál, spínat, klettasalat er gott að nota reglulega til að fyrirbyggja steinefnaskort. En fyrir þá sem eru ekki duglegir í því þá er gott að taka jurtablöndur grænar eins og Grænu bombuna eða bara spírulinu.

Ef fólk vill fjölvítamínblöndur þá mæli ég með fjölvítamíni frá Terra nova.

Hvernig getum við minnkað líkur á því að smitast af haustflensu og kvefi?

1. Passa upp á svefninn. Fara snemma að sofa, að minnsta kosti fyrir klukkan 23:00 fjórum sinnum í viku.

2. Borða reglulega góðan og vel samsettan mat.

3. Hægja á sér, ekki vera með allt í botni. Þá erum við að stela orku og verðum þreytt og þá minnkar mótstaðan. Stunda hugleiðslu, slökun eða mæta í jóga og læra að anda og njóta andartaksins.

4. Passa upp á allt sem ég taldi upp fyrir ofan, passa næringu, D-vítamín og omega 3.

5. Svo er gott að eiga heima í skáp og grípa í ef maður finnur smá einkenni: Mímir (engifer, sólhattur, cayenne-pipar, hvítlaukur, piparmynta og vallhumall) í dufti. Þá nær fólk strax úr sér kvefinu. Einnig hægt að gera sjálfur úr engifer, cayenne, hvítlauk og sítrónu.

Ertu með einhver góð ráð gegn skammdegisþunglyndi?

1. Stunda reglulega hreyfingu. Sérstaklega úti, það er svo miklu meira súrefni úti en inni. Ekki láta veðrið stoppa sig.

2. Omega 3 er mjög mikilvægt. Fyrir 60 kílóa manneskju duga tvær matskeiðar af hörfræolíu eða hampolíu. Það má einnig bæta við Dropalýsi, einni til tveimur teskeiðum. Ef melting er mjög léleg og viðkvæm er lýsið betra, það er styttri upptaka. 

3. Mikilvægt að halda blóðsykri í jafnvægi. Borða reglulega og ekki nota mikinn sykur og hvítt hveiti.

4. Hugleiða eða stunda núvitund.

5. Öndun eða öndunaræfingar.

6. Jóga getur hjálpað. Til dæmis hægt að gera sólarhyllinguna nokkrum sinnum á hverjum degi, þá örvum við öll líkamskerfin okkar.

7. Dansa heima hjá okkur eða annars staðar. Það kemur svo mikil gleði með dansinum.

8. Hlaupa út þegar sólin kemur og lætur sjá sig. Því hún getur oft verið dugleg að fela sig yfir veturinn.

Kolbrún mælir með íslensku grænmeti.
Kolbrún mælir með íslensku grænmeti. mbl.is/Thinkstockphotos
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál