Þetta er hamingjusamasta fólkið

Sara Torsti er ráðgjafi hjá Lausninni. Hún er með diplóma …
Sara Torsti er ráðgjafi hjá Lausninni. Hún er með diplóma í jákvæðri sálfræði og MSc í sálfræði.

„Aukin vellíðan og innri ró er eflaust eitthvað sem margir leitast eftir. Í einni af fyrstu rannsóknum á hamingju fólks var sett fram sú tilgáta að það fólk sem væri hamingjusamast væri það fólk sem aldrei hefði gengið í gegnum neina erfiðleika en sú tilgáta kolféll. Það var í raun fólkið sem hafði gengið í gegnum erfiðleika sem var hvað hamingjusamast. En það var ekki það að lenda í erfiðleikum sem gerði fólk hamingjusamara heldur skipti það höfuð máli hvernig fólk tókst á við erfiðleikana, sem sagt að takast á við erfiðleika og mótlæti með uppbyggilegum hætti,“ segir Sara Tosti ráðgjafi og markþjálfi hjá Lausninni í nýjum pistli: 

Ein leið til að finna fyrir aukinni vellíðan og vera meira á staðnum líkamlega og andlega, í núinu, er að nota aðferðir úr jákvæðri sálfræði. Jákvæð sálfræði er vísindagrein þar sem skoðað er hvað einkennir vel starfhæfan einstakling sem nær á farsælan hátt að þroskast og aðlagast ólíkum aðstæðum í lífinu. Í jákvæðri sálfræði er einnig lögð áhersla á að auka vellíðan, þrautseigju, jákvæðar upplifanir, hvernig byggja megi upp styrkleika, hvað einkenni jákvæð sambönd og hvað gerir lífið þess virði að lifa því. Allir þessir þættir eru taldir stuðla að líkamlegri heilsu, vellíðan, virkni hópa, vöxt fólks og stofnanna.

Í jákvæðri sálfræði eru settar fram og prófaðar aðferðir sem stuðla að aukinni vellíðan og hamingju. Gagnleg nálgun til að auka vellíðan er með þessum aðferðum en það eru aðferðir sem miða að því að auka jákvæðar tilfinningar, hegðun og hugsanir. Rannsóknir á aðferðum jákvæðrar sálfræði, eins og þakklæti, jákvæðu hugarfari, bjartsýni og hreyfingu, hafa sýnt að þær auka vellíðan hjá fólki. Aðferðir jákvæðrar sálfræði eru margar en þær aðferðir sem fjallað verður sérstaklega um hér eru 3 góðir hlutir, þakklæti og núvitund.

3 góðir hlutir

Jákvæða aðferðin 3 góðir hlutir tengist því að rækta bjartsýni og jákvæðni þar sem markmið inngripsins er að leita að því góða sem hefur átt sér stað yfir daginn. Þjálfa sig í að  leggja meiri áherslu á góða og jákvæða atburði sem hafa átt sér stað. Mikilvægur hluti æfingarinnar er að skoða einnig hvað olli þessum hlutum og hver þinn þáttur var í þeim. Æfingin er framkvæmd þannig að í lok hvers dags er rennt yfir daginn í huganum. Rifjaðir eru upp þrír góðir hlutir sem áttu sér stað yfir daginn og þeir skrifaðir niður. Að lokum á að skrifa hvað olli þessum jákvæðu hlutum og hver þinn þáttur var í þeim.

Rannsóknir hafa sýnt að áhrif þess að framkvæma æfinguna á hverjum degi í viku séu aukin hamingja og minni þunglyndiseinkenni. Einnig hafa rannsóknir sýnt að áhrif æfingarinnar eru mælanleg eftir aðeins eina viku og áhrifin enn mælanleg sex mánuðum eftir að æfingarviku lýkur. Áhrifin geta þó varðað enn lengur ef haldið er áfram að gera æfinguna.

Þakklæti

Þakklæti er tilfinning og eiginleiki. Þakklæti lýsir sér sem hlýju, sælu og að líða eins og maður sé lánsamur. Þakklæti er að bera kennsl á eitthvað sem er jákvætt og að taka því ekki sem sjálfsögðum hlut. Það eru til nokkrar leiðir til að iðka þakklæti og það er misjafnt hvað hentar hverjum og einum. Sumum finnst gott að skrifa þrjá hluti sem þeir eru þakklátir fyrir á hverjum degi en öðrum bara einu sinni í viku. Ef það líður meira en vika á milli þá fara áhrif þess að iðka þakklæti að minnka.

Einnig er hægt að skrifa þakklætisbréf. Aðferðin virkar þannig að það sé hugsað til þeirra sem hafa haft jákvæð áhrif á líf okkar, velja eina manneskju og skrifa henni þakklætisbréf. Í bréfinu á að lýsa því hvað það var sem þessi manneskja gerði fyrir þig og hvaða áhrif það hafði á líf þitt. Þakka manneskjunni fyrir það sem hún hefur gert fyrir þig og að lokum afhenta viðkomandi bréfið eða lesa fyrir hana. Þetta jákvæða inngrip eykur hamingju fólks og áhrifin geta varað í allt að einn mánuð.

Núvitund

Með núvitund veitum við því sem er að gerast fulla athygli á meðan það er að gerast og tökum á móti því með opnum huga, mildi og forvitni. Við þjálfum athyglina og aukum meðvitund okkar um það sem er að gerast innra með okkur og í umhverfinu. Við gerum það með því að vera andlega og líkamlega til staðar. Við þjálfum okkur í núvitund með því að veita hugsunum okkar, tilfinningum og skynjun líkamans fulla athygli ásamt því að taka eftir því hvernig við bregðumst við. Við virkjum skynfærin og veitum upplifun okkar í gegnum þau fulla athygli. Ávinningurinn er skýrari sýn á okkur sjálf, fólkið í kringum okkur og lífið sjálft.

Núvitundaræfingarnar geta verið formlegar og óformlegar. Formlegar núvitundaræfingar eru þegar við setjumst niður með það markmið að hugleiða og vera í núvitund, annað hvort sjálf eða þegar einhver annar leiðir okkur í gegnum ferlið. Óformlegar núvitundaræfingar eru þá frekar að vera í núvitund, vera meðvitað með hugann að því sem við erum að gera, sjá eða heyra. Það er hægt að gera í göngutúrum, þegar við burstum tennurnar, í sturtunni, í vinnunni, þegar við erum með fjölskyldunni okkar. Vera hér og nú, í augnablikinu, akkúrat núna.

Iðkun núvitundar hefur fjölþætt áhrif á velgengni og vellíðan. Til að mynda getur iðkun núvitundar dregið úr kvíða og þunglyndi, upplifun af verkjum og einkennum ákveðinna sjúkdóma. Iðkun núvitundar bætir tilfinningastjórn, vellíðan, eykur sjálfsöryggi, sjálfsvitund, innri frið, eykur líkur á að fólk upplifi að það hafi val um hvernig það bregst við aðstæðum, leiðir til betri tengsla – við okkur sjálf og aðra, hjálpar okkur að eiga í innihaldsríkari samskiptum, við finnum aukna samkennd, bæði í eigin garð og annarra.

Það er einstaklingsbundið hvaða æfingar henta hverjum og einum. Einnig getur það verið misjafnt fyrir einstakling hvaða æfing hentar hverju sinni. En með markvissri notkun æfinganna finnur fólk fyrir aukinni vellíðan og innri ró. Þegar verið er að prófa æfingarnar er best að prófa æfinguna á hverjum degi í viku og prófa eingöngu eina æfingu í einu.

Ég hvet þig til að prófa!

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál