Varðar leiðina í átt að bata fyrir þá sem lifa við offitu

Erla Gerður Sveinsdóttir læknir.
Erla Gerður Sveinsdóttir læknir.

Erla Gerður Sveinsdóttir læknir, sem sérhæfir sig í offitumeðferð, segir nálgun samfélagsins á málefni þeirra sem lifa með sjúkdóminn offitu alls ekki til fyrirmyndar. Þótt hún dæmi engan sem lítur of þunga einstaklinga hornauga segir hún áhugavert að skoða raunveruleikann, þar sem allt að fjórðungur þjóðarinnar er að berjast við þyngdina. 

Erla læknir leitar allra mögulegra leiða til að veita þeim er greinast í ofþyngd aðstoð, því hún segir lífið liggja við og alls konar úrræði í boði fyrir þá sem leita sér aðstoðar áður en vandinn verður of mikill.

Það er einstakt að ræða við hana sem fræðimann um málefni offitu og þegar skoðað er undir yfirborð fitunnar með henni má sjá að fita er alls konar og ástæður þess að hún sest að í kroppi okkar landsmanna einnig.

„Ég lærði heimilislækningar og starfaði á því sviði um árabil, síðan sérhæfði ég mig í offitumeðferð og hef starfað við það í áratug. Eins tók ég meistaranám í lýðheilsu og skoðaði þar offitumeðferðarúrræði á Íslandi, þannig að ég hef skoðað málið frá ýmsum hliðum.“

Aðspurð um ástæðu þess að Erla Gerður fór að beina sjónum að skjólstæðingum með offitu segir hún ósanngirni í framkomu við þennan hóp aðalástæðuna.

„Ég held að annars vegar hafi mér fundist ósanngjarnt hvernig almennri þjónustu við einstaklinga með offitu hafi verið háttað og hins vegar hafi mér þótt spennandi að vinna á þessu sviði því maður þarf að fara ofan í alla þætti lífsins með skjólstæðingunum. Þessi fræðgrein sem ég starfa innan tekur heildstætt á vandanum og skoðar meðal annars erfðir, umhverfi, uppvöxt, mataræði, hreyfingu, líðan, svefn, efnaskipti og áföll svo eitthvað sé nefnt. Þyngdarstjórnunarkefi einstaklinga eru svo alveg einstaklega áhugaverð og alls ekki einfalt eða auðvelt að skilja. Það er stöðugt að koma fram ný þekking á þessum kerfum og mjög spennandi að fylgjast með þessum fræðum, sem eru flókin. Af þeim sökum ættum við að forðast að alhæfa of mikið um það hvers vegna fólk fær sjúkdóminn offitu,“ segir hún.

Fordóma fyrir offitu að finna víða í kerfinu

Hún segir að tölfræði landsmanna komi ekki vel en stór hluti þjóðarinnar er of þungur samkvæmt líkamsþyngdarstuðli. Þótt þessi stuðull sé ekki góður til að meta tengsl heilsu og holdafars hvers einstaklings ,er hann góður til að fylgjast með þróun og bera saman hópa. Svo er líka áhugavert að skoða skoðanir fólks almennt á málaflokknum.

„Vanþekking og alhæfingar geta orðið að fordómum, sem er grunnurinn að ósanngjarnri meðferð þeirra sem glíma við offitu.

Undirliggjandi rómur í samfélaginu og stundum í heilbrigðiskerfinu okkar líka er gjarnan sá að einstaklingurinn þurfi bara að ná stjórn og þannig megi leysa vandann. Hugsunin um að taka sig á og létta sig með viljastyrknum einum er úrelt sjónarmið.

Það er mikilvægt fyrir alla að stunda hreyfingu, borða hollan mat, sofa vel og hlúa að andlegri líðan, en það beinist ekki sérstaklega að einstaklingum með offitu. Það er ekki góð ráðlegging að segja einstaklingi með offitu að hreyfa sig meira og borða minna, í raun getur það aukið á þyngdarvandann.

Þyngdarstjórnunarkerfin í líkamanum eru svo miklu flóknari en margir halda. Vitað er að líkaminn passar upp á við séum örugg og er stöðugt að vernda okkur fyrir hungursneyð. Ef við borðum of lítið

og hreyfum okkur meira en áður getur líkaminn litið á það sem ógn sem þarf að bregðast við. Þá minnkar hann brennsluna og setur meira af orkunni inn í fituvefinn, þannig eflist ójafnvægið í líkamanum. Endurteknar megranir eru olía á eldinn og raska þessum kerfum enn frekar. Þegar kerfið er komið úr jafnvægi þarf öðruvísi inngrip en þegar fólk hefur fitnað sem er með kerfin sín í lagi en hefur aukið orkuinntöku eða minnkað hreyfingu tímabundið,“ segir hún.

Væri til í að vinna með fólki fyrr í ferlinu

Erla Gerður starfar innan ramma samninga sérfræðinga hjá Sjúkratryggingum Íslands (SÍ) sem gerir það að verkum að hún starfar nær einungis með einstaklinga sem eru að kljást við alvarlega offitu.

„Mig langar að veita þjónustu áður en fólk er komið á þennan stað, en það sem ég geri í vinnunni er að ég hitti einstaklinga, met með þeim stöðu mála, skoða áhættuþætti, hvernig daglegt líf þeirra er og fer í raun ofan í það sem skiptir máli til að geta ráðlagt um næstu skref. Það þarf alltaf að vinna með góðan grunn þar sem heilbrigður lífsstíll er alltaf mikilvægur en svo skoðum við hvort sérhæfð meðferð, svo sem lyfjameðferð eða efnaskiptaaðgerð, eigi við.

Þetta snýst um svo miklu meira en mataræði og hreyfingu og það er ekki hægt að gefa út eina uppskrift að því hvað er best að gera. Þeir sem til mín leita eru búnir að reyna svo margar leiðir án árangurs og oft hefur hver tilraun í för með sér sjálfsásökun og skömm, því fólk heldur gjarnan að það hafi miklu meira vald á þyngd sinni en það í raun og veru hefur.

Það er samt ekkert skrítið því þetta er ríkjandi viðhorf í samfélaginu. Þarna þurfum við að efla fræðslu og minnka þannig fordóma gagnvart holdafari einstaklinga.“

Þeir sem leita til Erlu Gerðar byrja á að fara á námskeið sem nú er á netinu og svo fara þeir í viðtal til hennar.

„Eftir viðtal, blóðprufur og þegar búið er að skoða samsetningu líkamans, það er vöðvamagn, fituhlutfall og hvernig líkamsfitan dreifist, til dæmis hvort um er að ræða kviðfitu eða uppsöfnun á fitu undir húð, þá er hægt að leggja línurnar fyrir áframhaldandi meðferð. Ég fókusera alltaf á langtímaárangur og áherslan er alltaf á að bæta heilsu og auka lífsgæði. Stundum er efnaskiptaaðgerð skynsamlegasta leiðin og þá er að loknum undirbúningi hægt að sækja um greiðsluþátttöku SÍ í aðgerð, þegar staðfest er að viðkomandi einstaklingur uppfylli skilyrði. Sú staðfesting fæst eftir meðferð á offitusviði Reykjalundar eða með því að fara í gegnum undirbúninginn hjá okkur. Stundum er lyfjameðferð góður kostur og slíka meðferð er líka hægt að fá hjá heimilislæknum og öðrum sérgreinalæknum.“

Hvers konar lyfjameðferð er notast við?

„Við notum stungulyf og eru lyfin í raun og veru í grunninn sykursýkislyf, sem hafa áhrif á insúlínkerfi líkamans. Lyfin hafa einnig áhrif á hormón sem meltingarvegurinn framleiðir og gefur skilaboð um seddu.

Margir af þeim sem ég vinn með hafa stanslaust verið með þessa tilfinningu um svengd, sama hversu mikið þeir borða. Þegar þeir fá lyfið eru þeir stundum í fyrsta skiptið að finna fyrir þeirri tilfinningu að vera saddir.

Lyfin hægja einnig á meltingu og veita þá einstaklingum þá tilfinningu að vera saddir lengur. Þá langar síður í skyndiorku, því lyfin hafa áhrif á vissar stövar í heilanum líka og svengdarhormónin verða ekki eins ráðandi. Það getur verið mjög mikið frelsi að fá frí frá sykurlöngun og sífelldum hugsunum um mat fyrir einstaklinga sem hafa upplifað þá tilfinningu mjög sterkt lengi.“

Erfitt að lækna offitu en hægt að halda sjúkdómnum í skefjum

Offita er ævilangur sjúkdómur að mati sérfræðinga, nokkuð sem ekki er læknað en má halda niðri og hindra að valdi heilsutjóni.

„Við sjáum marga fylgikvilla offitu og það sem vekur okkur til umhugsunar er hversu stór hópur hér á landi er með líkamsstuðulinn yfir 30.

Ég hef séð tölur sem ýja að því að allt að fjórðungur landsmanna sé kominn yfir það sem talið er heilbrigt að vera í þyngd, miðað við hæð.“

Það segir sig sjálft að til að veita góða meðferð fyrir svona stóran hóp þarf góðan mannskap. Erla Gerður kemur að nýju námskeiði fyrir starfsfólk heilsugæslu um offitu sem haldið verður um land allt, sem er stórt skref í að þálfa upp fleiri til að veita sérhæfða meðferð við offitu. Hún hefur einnig hafið störf hjá Heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu, þar sem áherslan í því starfi er lögð á þjónustu við konur og þá sjúkdóma sem herja sérstaklega á konur. Þar er meðal annars horft til þess hvernig þyngdarstjórnunarkerfi kvenna eru öðruvísi en karla og beita þarf viðeigandi meðferð á mismunandi aldursskeiðum kvenna.

Hvað með þá sem eru með matarfíkn?

„Matarfíkn getur verið fyrir hendi hjá sumum, en það er svo margt sem getur verið í gangi þegar fólk upplifir stjórnleysi gagnvart mat. Stundum getur vandinn átt upptök sín í meltingarvegi, fituvef eða í öðrum stöðvum heilans og því þarf greiningarferlið að vera nákvæmt og ítarlegt.

Ég er á því að tölurnar um matarfíkn séu lægri en haldið hefur verið fram og margir sem töldu sig vera með matarfíkn finna að þegar veitt er viðeigandi meðhöndlun við undirliggjandi vanda þá fyrirfinnst þessi líðan ekki lengur, eins og ég nefndi meðal annars að er raunin hjá mörgum sem fá lyfjameðferð við offitu.“

Hvers konar aðgerðir fara þeir sem eru með offitu í?

„Þeir fara annaðhvort í magaermi eða í magahjáveituaðgerðir. Það eru kostir og gallar við þessar aðgerðir. Magabandsaðgerðir eru barn síns tíma og ekki lengur gerðar en til að aðgerðir sem nú eru framkvæmdar komi að gagni þarf að undirbúa sig vel og fólk þarf að vita hvað það er að fara út í. Aðgerðunum fylgir ævilöng eftirfylgni og meðferð, þess vegna er mikilvægt að vita við hverju má búast eftir aðgerðina.“

Fylgikvillar offitu fjölmargir

Eru þessar aðgerðir ekki hættulegar?

„Það fylgir alltaf viss áhætta öllum aðgerðum. Þess vegna er mikilvægt að vanda sig. Þegar fólk er hins vegar komið í lífshættulegt ástand vegna offitu er talið að svona aðgerðir lengi lífið um áratug en að sjálfsögðu geta þær snúist upp í andhverfu sína.

Góður undirbúningur og val á réttri aðgerð á réttum tíma hjá hverjum einstaklingi skiptir mjög miklu máli. Vissulega ræður fólk hvað það gerir við líkama sinn, en það er mikilvægt að taka upplýsta ákvörðun. Eins er mikilvægt að fjalla um að þetta eru efnaskiptaaðgerðir fyrst og fremst þótt verið sé að minnka magann, sem margir halda að sé helsti tilgangur aðgerðanna.“

Hvað áttu við með því?

„Það sem ég á við er að með aðgerðinni erum við búin að aftengja þyngdarstýrikerfi líkamans tímabundið og þá fær líkaminn glugga til að ganga á fituforða sinn og viðkomandi léttist. Ef við förum í sveltisástand án þess að aftengja varnarkerfið þá hægir á brennslunni og viðkomandi lendir á miklu verri stað. Sá sem fer í gegnum svona aðgerð þarf að gæta þess að borða reglulega, fá nægan vökva, taka viðeigandi vítamín ævilangt og fylgjast þarf reglulega með gildum í blóði viðkomandi.“

Að mati Erlu Gerðar er erfitt að segja nákvæmlega til um hver langtímaárangur svona aðgerða er og svo vekur hún máls á því að margir þyngist aftur eftir aðgerð.

„Það er í raun eðli líkamans að bregðast við svona inngripi og sporna við því og ekki alltaf á valdi einstaklingsins að stjórna hvernig fer. Þessi kerfi sem verið er að breyta eru mjög öflug og því er mikilvægt að fá réttan stuðning og hjálp til að líkaminn haldist í góðu jafnvægi og þekking sé fyrir hendi til að bregðast við því ef líkaminn fer að þyngjast aftur.“

Hverjir eru fylgisjúkdómar offitu?

„Það eru gríðalega margir fylgisjúkdómar og ef ég ætti að nefna einhverja þá eru það sykursýki og krabbamein og hjartasjúkdómar. En offita getur verið dánarorsök þótt engir þessara sjúkdóma fyrirfinnist. Upp getur komið sú staða að lungun anni ekki þessum miklu efnaskiptum sem eiga sér stað í líkamanum. Nái þá ekki að losa sig við úrgangsefni og það að taka nógu mikið súrefni inn. Því þarf súrefnismeðferð á vissu stigi í offitu, og ef ekkert er að gert fer hvert líffærið á eftir öðru að gefa sig og viðkomandi lifir sjúkdóminn ekki af.“

Mikilvægt að vinna í áföllum og því sem liggur undir yfirborðinu

Hvað með áföll í lífinu og það þegar fólk borðar til að halda frá sér fólki eða stuðla að því að vera óaðlaðandi sem eins konar vörn gagnvart umheiminum?

„Það skiptir mjög miklu máli að greina áhrif áfalla og vinna með þau á viðeigandi hátt og er það vinna sem ég vil leggja enn þá meiri áherslu á. Svo ekki sé talað um vanrækslu í æsku, sem stundum flokkast sem erfiðasta áfallið. Einstaklingar sem ekki var hugsað um í æsku eiga oft erfiðara en aðrir með að passa upp á eigin heilsu.

Eins er vert að nefna að áföll geta breytt þyngdarstjórnunarkerfi líkamans sem og verkjaþröskuldi í heilanum. Við sjáum tengsl og fylgni á milli áfalla og vefjagigtar og þegar fólk er komið með offitu ásamt vefjagigt getum við næstum fullyrt að áfallasaga einstaklingsins er töluverð,“ segir hún og bætir við að eins sé vel þekkt að fólk geri sig óaðlaðandi til að verja sig og er þá oft búið að aftengja líkamsmynd sína. Svo er vitað að matur getur haft almennt sefjandi áhrif á taugakerfið.

„Það er því hægt að öðlast örlítið betra ástand tímabundið með því að borða. Þegar fólk er svo komið í offitu kallar fituvefurinn líka á meiri mat með sínum boðefnum. Greining og rétt fræðsla skiptir því höfuðmáli í átt að heilbrigði á þessu sviði.“

Fordómar leynast víða í íslensku samfélagi og byggjast eðli málsins samkvæmt oftast á vanþekkingu að mati Erlu Gerðar.

„Orðið fordómar segir sig sjálft. Þeir dæma sem ekki vita betur. Þjóðin þarf að sýna umburðarlyndi og sjálfir einstaklingarnir sem glíma við offitu mættu gjarnan sýna sér sjálfmildi.

Fræðslan þarf að vera einstaklingsmiðuð og hnitmiðuð. Ástæðan fyrir því að hún þarf að vera einstaklingsmiðuð er sú að líkamar okkar bregðast ólíkt við áhrifum umhverfisins og mikilvægt að átta sig á hverju er hægt að breyta og hverju ekki, að það er ekki einstaklingnum að kenna hvernig líkami hans vinnur. Þarna skipta erfðir meðal annars miklu máli.“

Grunnstefið í vinnu Erlu Gerðar er að reyna að koma jafnvægi á líkama og sál. Að vinna ítarlega greiningarvinnu og að bjóða upp á sérhæfð inngrip þar sem við á.

„Það er alveg jafn eðlilegt að leita eftir heilbrigðisþjónustu með þessi mál sem önnur. Svo er nauðsynlegt að minnast á að það eru ekki allir of þungir með sjúkdóminn offitu. Þótt tengsl geti verið á milli holdafars og heilsu á marga vegu þá segir holdafar okkar ekkert til um lífshættina, persónuna eða lífsgæðin,“ segir hún að lokum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál