Eineggja tvíburar en ekki alltaf sammála

Jakobína og Elín Jónsdætur eru eineggja tvíburar og reka líkamsræktarstöðina …
Jakobína og Elín Jónsdætur eru eineggja tvíburar og reka líkamsræktarstöðina Grandi 101. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Elín og Jakobína Jónsdætur eru eineggja tvíburar og svo líkar að þeim er reglulega ruglað saman. Það þýðir þó ekki að þær séu alltaf sammála. Saman, ásamt eiginmönnum sínum, Núma Snæ Katrínarsyni og Grétari Ali Khan, reka þær líkamsræktarstöðina Granda 101. Systurnar hafa ekki fengið leið hvor á annarri þó rúmlega fimm ár séu síðan þær létu drauminn um sína eigin líkamsræktarstöð verða að veruleika.

Elín og Jakobína, sem yfirleitt er kölluð Jakó, sinna báðar þjálfun í stöðinni og einnig daglegum rekstri. Báðar hafa þær sérhæft sig í þjálfun á meðgöngu og eftir fæðingu, enda eiga þær báðar þrjú börn og hafa æft langt fram á meðgönguna og byrjað að æfa snemma eftir fæðingu. 

Systurnar hafa stundað íþróttir alla sína ævi og prófuðu allar íþróttir sem í boði voru á Seltjarnarnesi þar sem þær ólust upp. Þær æfðu sund fram á menntaskólaárin.

„Þá fórum við að prófa okkur áfram í líkamsræktarstöðvum landsins með misgóðum árangri. Við vorum svo rétt rúmlega tvítugar þegar við fórum að vera með spinning tíma í bæði Nordica Spa, WorldClass og í Hreyfingu og þá svona fyrst kviknaði áhuginn fyrir líkamsrækt. Ég var með spinning tíma í einhver sex ár eða þar til ég datt alveg inn í Crossfit-ið og fór í fulla vinnu við að þjálfa í því,“ segir Jakobína.

Ákváðu að taka þetta alla leið

Grandi 101 opnaði í febrúar árið 2017 og eru systurnar sammála um að það hafi verið stórt skref fyrir öll þau sem komu að opnun stöðvarinnar. 

„Við systur og mennirnir okkar höfðum rætt þetta okkar á milli í einhvern tíma en þetta var fjarlægur draumur til að byrja með. Við Númi vorum búsett í Svíþjóð á þessum tíma og vorum aðeins farin að horfa heim eftir 7 ára búsetu. En þegar draumurinn er skýr er ótrúlegt hvernig hjólin geta farið að rúlla,“ segir Elín. Húsnæðið kom fyrir tilviljun upp í hendurnar á þeim og þá ákváðu þau að taka þetta alla leið. 

„Þessi eftirvænting að fá að skapa eitthvað saman frá grunni blundaði eflaust í okkur öllum. En þetta var mjög stórt skref og á vissan hátt erfitt fyrir okkur öll en við lögðum virkilega allt undir,“ segir Elín.

„Fótunum var svolítið kippt undan okkur“

Að reka eigin fyrirtæki er ekkert grín. Að reka líkamsræktarstöð í heimsfaraldrinum var líka meira en að segja það. Jakobína segir að þau hafi auðvitað mætt ýmsum áskorunum á síðustu fimm árum en að fótunum hafi verið kippt undan þeim í faraldrinum. 

„Þetta hefur verið alveg ótrúlega lærdómsríkur tími. Á köflum mjög krefjandi en á sama tíma mjög gefandi líka. Það tók á að þurfa að loka stöðinni í marga mánuði og/eða starfa undir ströngum takmörkunum í heimsfaraldrinum og var í raun mikið erfiðara en ég hefði getað ímyndað mér. Fótunum var svolítið kippt undan okkur. Það var líklega stærsta áskorunin og við vonum innilega að það gerist aldrei aftur,“ segir Jakobína.

Elín, Grétar Ali Khan og Jakobína sjá um daglegan rekstur …
Elín, Grétar Ali Khan og Jakobína sjá um daglegan rekstur og þjálfun á Granda. mbl.is/Arnþór Birkisson

Elín segir fyrsta árið í rekstrinum hafa líka verið erfitt en þá gengu þær báðar með sín önnur börn. „En við lögðum öll á okkur gríðarlega mikla vinnu og það var gaman að sjá þegar allt fór að rúlla. Áskoranirnar hafa verið margar en við drögum heilmikinn lærdóm frá öllu sem við höfum gengið í gegnum en þær hafa líka hjálpað okkur að þroskast sem fyrirtæki og einstaklingar,“ segir Elín.

Ólík sýn en komast að sameiginlegri niðurstöðu

Elín og Jakobína eru eineggja tvíburar og ákaflega líkar. Þær eru þó alls ekki sama manneskjan. Spurðar hvort þær verði ekki leiðar hvor á annarri, sérstaklega þar sem þær vinna og æfa saman, segja þær báðar nei. 

„Ég verð allavega ekki þreytt á Elínu, en við erum ekkert alltaf sammála. Þó við séum eineggja tvíburar og mjög líkar á margan hátt þá erum við líka ólíkar og oft með ólíkar skoðanir. Við eigum það þó sameiginlegt að við berum virðingu fyrir skoðunum hvorrar annarrar og komumst yfirleitt að sameiginlegri niðurstöðu þó að önnur eða báðar þurfi aðeins að bakka frá sinni sannfæringu. Þess vegna hefur þetta líklega gengið hjá okkur,“ segir Jakobína.

„Ég er alveg sammála Jakobínu og verð mjög sjaldan leið á henni, haha. Við höfum stundum ólíka sýn á hlutina en getum alltaf rætt okkar á milli, sem er mikilvægt. Þannig komumst við líka að yfirleitt að sameiginlegri og þá einnig bestu niðurstöðunni fyrir Granda,“ segir Elín. 

Elín Jónsdóttir.
Elín Jónsdóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Eiga samtals sex börn

Elín og Jakobína eiga hvor um sig þrjú börn á aldrinum átta til eins árs. Þær segja það geta verið erfitt að láta allt spila saman, fjölskyldulífið, vinnuna og æfingar, en að allt gangi upp með góðu skipulagi. 

„Það góða við að vera í eiginn rekstri er klárlega sveigjanleikinn en það erfiða er að vera alltaf í vinnunni, þurfa alltaf að vera til taks. Mér finnst mikilvægt að ná inn einni æfingu á dag en ég leyfi dagsforminu algjörlega að ráða hvernig sú æfing er. Ef það er mikið álag t.d. tek ég yfirleitt æfingu í rólegri kantinum en ég finn vel hvað hreyfingin er mér mikilvæg fyrir bæði líkamlegu og ekki síður andlegu heilsuna,“ segir Elín.

Jakobína leggur líka áherslu á að komast á æfingu flesta daga og þá helst í tíma á Granda.

„Þegar við byrjuðum með Granda sá ég fyrir mér að ég yrði bara alltaf á æfingu en sú varð aldeilis ekki raunin. Þetta er svo ótrúlega mikil vinna, ekki aðeins þjálfunin heldur öll bakvinnslan líka. Við erum náttúrulega að sjá um allt tengt fyrirtækinu. Ég hefði varla getað ímyndað mér hvað þetta væri mikið,“ segir Jakobína.

Hreyfing á meðgöngu mikilvæg

Jakobína og Elín æfðu báðar á öllum sínum meðgöngum og byrjuðu snemma að hreyfa sig eftir fæðingarnar. Þegar þær opnuðu Granda voru þær spenntar að búa til vandað námskeið ætlað óléttum konum og nýbökuðum mæðrum.

„Fyrir okkur var það svo mikilvægt að hreyfa okkur og var stór ástæða þess hve vel okkur leið, líkamlega og andlega, bæði á meðgöngu og eftir að við fæddum börnin okkar. Okkur langaði því að hjálpa öðrum konum að upplifa þessa vellíðan og fannst mikilvægt að kafa dýpra og öðlast meiri þekkingu á þessum hópum, sem eru viðkvæmir og þarf að passa vel upp á,“ segir Jakobína en báðar hafa þær sérhæft sig í þjálfun á meðgöngu og eftir fæðignu.

„Okkur langaði að miðla okkar þekkingu og reynslu og búa á sama tíma til sameiginlegan vettvang fyrir þennan hóp að hittast. Smá spjall og góð æfing geta gert svo ótrúlega mikið fyrir líkamann og ekki síður sálina og við finnum hvað þessi hópur hefur gott af þessu. Við heyrum oft frá nýbökuðum mæðrum að skemmtilegustu dagar vikunnar séu dagarnir sem þær mæta í MömmuFit,“ segir Jakobína.

Í tímunum læra konur hvaða æfingar henta vel á þessum tíma og líka hvaða æfingar er skynsamlegt að bíða með. 

„Við leggjum til dæmis mikla áherslu á styrkingu grindarbotns- og djúpvöðva sem er ótrúlega mikilvægt fyrir konur að virkja aftur og styrkja eftir barnsburð. Þá er líka gott að þjálfari geti undirbúið óléttar konur undir hvað koma skal varðandi æfingar eftir barnsburð því hann þarf tíma til að jafna sig og þolinmæði er algjört lykilatriði fyrstu mánuðina á eftir,“ segir Elín.

Erfitt að komast af stað eftir faraldurinn

Auk almennu tímanna sem leggja áherslu á hreysti, þrek og styrk eru fleiri fjölbreytt námskeið. Eitt námskeiðanna er sérhannað fyrir konur sem vilja koma sér af stað í hreyfingu eftir faraldurinn. 

„Námskeiðið „Konur - Leið að betri líðan“ spratt upp aðallega vegna þess að við vitum af mörgum konum sem eru annað hvort alveg að brenna út af álagi eða eru nú þegar útbrenndar og þurfa endurhæfingu,“ segir Jakobína. Elín segir þær vonast til þess að námskeiðið hjálpi konum að koma reglulegri hreyfingu inn í lífsstílinn. 

Tímar fyrir sextíu ára og eldri slógu í gegn

Undanfarin ár hefur námskeið fyrir sextíu ára og eldri verið í boði. Jakobína var búin að ganga lengi um með hugmyndina í kollinum áður en þau létu af henni verða. „Ég hef svo mikla trú á hreyfingu því hún gerir svo mikið fyrir mig sjálfa og mér fannst alveg vanta hreyfingu, sem væri bæði góð og líka skemmtileg, fyrir þennan hóp. Við köllum þessa tíma HeldriFit en þeir eru ætlaðir 60 ára og eldri. Afi okkar, Snæbjörn, notaði alltaf þetta orð, Heldri, og fannst það svo virðingarvert svo það kom einhvern veginn ekkert annað til greina en að nota það,“ segir Jakobína. 

Í tímunum er lagt áherslu á alls konar æfingar, liðleikaæfingar, úthaldsæfingar, styrktaræfingar og jafnvægisæfingar. „Alla fimmtudaga enda svo tímarnir á dansi en þá er eitthvað skemmtilegt lag sett á fóninn og allir dansa. Þá kveðja allir skælbrosandi. Æi, það er svo ótrúlega gefandi að vinna við þetta,“ segir Elín.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál