Jól í jafnvægi – er það hægt?

Inga Kristjánsdóttir næringaþerapisti rekur vefinn www.inga.is.
Inga Kristjánsdóttir næringaþerapisti rekur vefinn www.inga.is. Ljósmynd/Íris Dögg Einarsdóttir

„Stutta svarið er: Já auðvitað, með örlitlum klókindum!“

Það er svo fyndið með okkur, að við virðumst einhvern veginn finna okkur knúin til að fara alveg yfir um í áti, drykkju og neyslu um jólin. Eins og við þurfum þess endilega og það sé hreinlega grafið í stein,“ segir Inga Kristjánsdóttir næringaþerapisti í nýjum pistli á Smartlandi: 

Þetta er nú dálítill misskilningur allt saman og við þurfum ekkert að haga okkur svona.

Auðvitað viljum við njóta þess allra besta um jólin. Það höfum við gert um aldaraðir og erum ekkert að fara að hætta því neitt en hugsanlega er hægt að endurskoða aðeins munstrið.

Jólin eru bara dagar, mánudagar og laugardagar og alls konar dagar eins og árið í heild sinni er munstrað upp úr. Og við þurfum alltaf að borða, alla daga helst.

Við getum alveg notað á okkur höfuðið og hugsað rökrétt á jólunum alveg eins og alla aðra daga, sérstaklega ef við áttum okkur á því að það er kollurinn á okkur sem leiðir okkur í alla þessa neysluvitleysu!

Við erum vanaföst þegar kemur að þessu árstíma en vana er alltaf hægt að brjóta upp.

En svo er það líkaminn. Hann getur, ef við borðum eins og rugludallar, farið í það mikið ójafnvægi að við ráðum hvorki við eitt né neitt. Þá hjálpar rökhugsun lítið sem ekkert!

Við þurfum að vinna með líkamanum til að skapa frið, blóðsykursfrið!

Kolvetnakápurnar góðu koma sér sérlega vel um jólin, þar sem við notum þær til að pakka kolvetnum og sykri í hlýja jólakápu, þannig að blóðsykurinn okkar haldist stöðugur og við missum ekki stjórn á sykurlönguninni. Það er nefnilega óstöðugleiki í blóðsykri sem fyrst og fremst leiðir til óhóflegs áts og neyslu.

Jólakápurnar eru prótein, fita, grænmeti og trefjar!

Þið getið til dæmis skapað blóðsykursfrið með þessum ráðum:

Morgunmaturinn ykkar þarf að innihalda fullt af kolvetnakápum, vera mjög próteinríkur og ekki skaðar að hafa slatta af góðri fitu með. Gleymið því að borða ávexti í morgunmat um jólin, það hjálpar ekkert. Ávextir eru það sætir að þeir rugla blóðsykrinum of mikið að morgni dags, hjá flestum (tek það fram að þetta á oftast ekki við um börn og ungt fólk).

Hádegismaturinn má gjarnan líka vera í góðri jólakápu og innihalda sem minnst af kolvetnum.

Ef þið ætlið að fá ykkur smákökur, konfekt eða eitthvað svoleiðis gúmmelaði, þá er lykilatriði að klæða það í kápu. Nokkrar möndlur/hnetur á undan, eitt egg, avókadó, lítill próteindrykkur eða eitthvað annað prótein/fituríkt, veldur því að sætindin ná ekki að rugla blóðsykrinum og þið klikkist ekki úr sykurlöngun.

Meira að segja, ef þið ætlið að fá ykkur kökusneið, þá er betra að hafa rjóma með! Finnst ykkur það galið? Nei, það er bara ekkert galið, vegna þess að fitan í rjómanum klæðir kolvetnin og sykurinn úr kökunni í kápu! Þetta virkar, trúið mér.

Og áfengið. Aldrei nokkurn tíma drekka það á fastandi maga. Það þarf alltaf að borða með eða á undan. Sama gildir um jólaölið og sætu drykkina, kókið og kakóið.

Í stuttu máli þá er alltaf betra að hafa mallakútinn pínu fullan af prótein- eða fituríkum mat áður en þú dembir þér í Nóa eða rauðvínsglasið.

Hreyfingin er mikilvæg á jólum sem aðra daga og þið getið notað hana markvisst. Stutt hreyfing eftir kolvetna- eða sykurríka máltíð (jafnvel aðeins 5 til 10 mínútur) getur hjálpað mikið við blóðsykurstjórnun! Vissuð þið þetta?

Svo er eitt mjög mikilvægt. Það er blessað samviskubitið sem margir fá yfir sig þegar þeim finnst þeir hafa borðað eitthvað óæskilegt, hvað sem það nú er.

Samviskubit hefur aldrei nokkurn tíma hjálpað nokkrum manni í átt að jafnvægi og betra mataræði. Það get ég staðhæft. Á jólunum njótum við, sýnum okkur mildi og erum dálítið klók. Vinnum með líkamanum, sköpum blóðsykursfrið og klæðum máltíðirnar í mjúka og hlýja jólakápu.

Þá verðum við súper hress og spræk í byrjun nýs árs.

Gleðilega aðventu öllsömul og njótið í botn!

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál