Dró andann djúpt og féll í faðm foreldra sinna

Kolbrún Sara á bjarta framtíð fyrir höndum.
Kolbrún Sara á bjarta framtíð fyrir höndum. Samsett mynd

Kolbrún Sara Haraldsdóttir er metnaðargjörn og bráðskörp ung kona. Hún er 21 árs gömul og leggur stund á nám í læknisfræði við Háskóla Íslands. Kolbrún Sara sá ekki fyrir sér framtíð í lækningum á æskuárum sínum, en hana hryllti við tilhugsuninni um að sjá blóð. 

Í dag er Kolbrún Sara að ljúka öðru námsárinu og á góðri leið í átt að læknastarfi. 

Vill hafa jákvæð áhrif

Aðspurð segist Kolbrún Sara hafa slysast í læknisfræði, en hún ætlaði sér aldrei að verða læknir og átti sér allt aðra drauma á yngri árum. „Nei, bara alls ekki. Ég átti mér enga drauma um að klæðast læknaslopp.

Merkilegt nokk þá var ég þekkt á grunnskólaárunum fyrir að vera hrædd við blóð, allt vegna þess að það leið einu sinni yfir mig í smíðatíma þegar ég skar mig á sög,“ segir Kolbrún Sara og hlær. „Ég komst að þeirra niðurstöðu að ég gæti aldrei starfað á spítala og hvað þá orðið læknir.“

Eftir grunnskóla lá leið hennar í Verzlunarskóla Íslands. Kolbrún Sara útskrifaðist árið 2021 og skráði sig rakleiðis í nám í lífefna- og sameindalíffræði við Háskóla Íslands. „Eftir smátíma fann ég að hugurinn leitaði annað. Ég var alltaf að bíða eftir kaflanum um hagnýtingu mannslíkamans, það var þá sem ég áttaði mig á því að ég væri í afneitun, mig langaði bara víst að verða læknir,“ segir Kolbrún Sara sem byrjaði fljótt að undirbúa sig fyrir inntökuprófið í læknisfræði. 

Stelpur eru í miklum meirihluta í árgangi Kolbrúnar Söru.
Stelpur eru í miklum meirihluta í árgangi Kolbrúnar Söru. Samsett mynd

Hvað er það sem heillar þig við læknisfræði?

„Fyrir það fyrsta þá er bara eitthvað svo sturlað við það að fá að læra um allt sem er að gerast í líkama þínum og þeirra sem eru í kringum þig.

Það eru líka svo mikil forréttindi að fá að nýta þekkingu sína til að hjálpa fólki. Er það ekki stefna flestra í lífinu, að hafa jákvæð áhrif á líf fólks?,“ spyr Kolbrún Sara. 

Endaði í 3. sæti

Kolbrún Sara undirbjó sig gaumgæfilega og eyddi ótal klukkustundum í lestur og rannsóknarvinnu. „Inntökuprófið er erfitt en ekki óyfirstíganlegt. Meginhluti prófsins byggist á aðalnámskrá framhaldsskóla ásamt helstu fréttum dagsins, heimsmálum og samfélagsmálum.“

Hvernig tæklaðir þú inntökuprófið?

„Ég fór í gegnum nánast hverja einustu námsbók sem kennd er við Verzlunarskóla Íslands. Ég las stærðfræðibækur, efna- og eðlisfræðibækur og líf- og lífeðlisbækur. Þetta var heilmikill páfagaukalærdómur í sex mánuði, en ég las og lærði í hálft ár frá þeim tíma sem ég hætti í lífefna- og sameindalíffræði,“ útskýrir Kolbrún Sara. 

„Ég hafði miklar áhyggjur, enda útskrifaðist ég af eðlisfræðibraut ekki líffræðibraut. Ég taldi mig ekki eiga góða möguleika, en svo var alls ekki raunin. Ég átti mjög auðvelt með að læra líffræðihlutann og get vart ímyndað mér stöðuna hefði ég þurft að læra eðlisfræðina frá grunni fyrir inntökuprófið. Svona fyrir framtíðarnemendur, þá mæli ég alveg með eðlisfræðibraut hvað varðar undirbúning fyrir prófið.“

Kolbrún Sara læknaði marga veika bangsa á bangsaspítalanum á 1. …
Kolbrún Sara læknaði marga veika bangsa á bangsaspítalanum á 1. ári. Ljósmynd/Aðsend

Kolbrún Sara beið spennt eftir niðurstöðum. „Ég var á vakt á Hrafnistu þegar ég fékk póstinn með niðurstöðunum úr inntökuprófinu. Ég beið með að opna póstinn og ákvað að klára vinnudaginn í rólegheitum. Samstarfskonur mínar voru að farast úr spenningi og vildu helst senda mig fyrr heim þar sem ég vildi ekki opna póstinn án mömmu og pabbi,“ segir hún. 

„Ég dreif mig beint heim að vinnudegi loknum og settist við matarborðið ásamt foreldrum mínum. Ég dró andann djúpt, opnaði póstinn og féll í faðm foreldra minna þegar ég las niðurstöðurnar. Þetta var ógleymanlegt augnablik,“ segir Kolbrún Sara sem fékk fleiri góðar fréttir aðeins seinna um daginn.

„Ég gat flett upp og séð í hvaða sæti ég lenti. Ég var að sjálfsögðu forvitin um útkomuna en alls ekki að búast við miklu. Þegar ég sá að ég hafði náð þriðja sætinu af hundruðum nemenda, hljóp ég öskrandi fram til mömmu og pabba. Þessar fréttir gerðu góðan dag enn þá betri.“

„Læknanemar vinna hart en þeir djamma líka hart“

Aðspurð segir Kolbrún Sara það hafa verið ótrúlega tilfinningu að mæta fyrsta daginn. „Þetta var alveg frábær dagur. Ég þekkti nánast engan þegar ég byrjaði en maður rakst á nokkur kunnugleg andlit.

Ég bjóst alls ekki við mikilli bekkjarstemningu í læknisfræði, svona eins og maður upplifði á Verzlunarskólaárunum, enda hélt ég að „alvarlegi skólinn“ væri að hefjast. Ég komst fljótt að því að deildin er uppfull af frábæru fólki, það er mikið líf og allir svo góðir vinir,“ útskýrir hún. 

Glaður verðandi læknanemi.
Glaður verðandi læknanemi. Ljósmynd/Aðsend

Hvernig er lærdómsálagið, er tími fyrir félagslíf?

„Persónulega finnst mér lærdómsálagið mjög þægilegt. Kennt er í lotukerfi og erum við í einum til þremur áföngum í einu. Það gefur manni gott tækifæri til að gerast algjör sérfræðingur í hverju fagi og það á stuttum tíma. Maður getur sökkt sér í smáatriðin. En þetta þýðir líka að það er í boði að halda fleiri próflokapartí á hverju ári, ekki bara tvö, sem er svo sannarlega plús. Eins og vitur maður sagði eitt sinn: „Læknanemar vinna hart en þeir djamma hart líka.“

Félagslíf læknanema við Háskóla Íslands er fjölbreytt og skemmtilegt að sögn Kolbrúnar Söru. „Við erum með árlegt fótboltamót og höldum einnig læknaleikana. Svo verð ég auðvitað að minnast á hina sívinsælu árshátíð læknanema sem er rétt handan við hornið. Það er eftirvænting í loftinu og mikil tilhlökkun,“ útskýrir Kolbrún Sara en Félag Læknanema heldur uppi öflugu félagsstarfi. 

„Hópurinn er einstaklega samheldinn og baukar ýmislegt saman. Við fórum saman í frí til Króatíu í páskafríinu, bara stelpurnar. Strákarnir drifu sig til Lundúna á sama tíma í fótboltaferð. Slík samvera eflir okkur í því sem við erum að gera.“

„Það hefur lítið verið rætt um sjúkdóminn hér á landi“

Kolbrún Sara stefnir á sérfræðinám í lækningum. „Ég veit ekki alveg hvað mig langar að gera, það breytist með hverjum áfanga. Eftir að hafa lært fósturfræði þá ætlaði ég að verða fæðingarlæknir. Þegar ég fylgdist með fyrstu aðgerðinni ákvað ég að leggja fyrir mig skurðlækningar og gerast skurðlæknir og nú þegar ég er á fullu að læra sýkla- og veirufræði þá stefni ég að sjálfsögðu á smitsjúkdómalækningar,“ segir Kolbrún Sara og hlær. 

„Ég hef mikinn áhuga á bættri meðferð og rannsóknum tengdum sjúkdómi sem heitir Lipoedema eða fitubjúgur á íslensku. Sjúkdómurinn er nýlega viðurkenndur af Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni og hrjáir einkum konur,“ segir hún. 

„Það hefur lítið verið rætt um sjúkdóminn hér á landi. Ég hef spurt kennara og útskrifaða nemendur um hvort þeir kannist við sjúkdóminn en hingað til hefur verið fátt um svör, þar til að fréttir fóru að berast af rannsókn Hildar Skúladóttir á sjúkdómnum. Hún starfar í Noregi og er svo sannarlega mín helsta fyrir fyrirmynd, ég get vart beðið eftir niðurstöðunum.“

Stjórn Félags Læknanema 22/23.
Stjórn Félags Læknanema 22/23. Ljósmynd/Aðsend

„Ég vissi ekki við hverju mátti búast“

Kolbrún Sara lauk nýverið vinnustaðanámi á kviðarhols- og þvagfæraskurðlækningadeild. Hún segir það skemmtilegustu og lærdómsríkustu viku lífs síns. „Nemendur fara á spítalann í einu viku á 2. ári. Ég vissi ekki við hverju mátti búast en var samt með ákveðin verkefni. Ég átti að taka fimm sjúkrasöguviðtöl eða líkamsskoðun og passa að vera ekki fyrir,“ segir hún.

„Ég var mjög heppin að lenda á deild 13EG á Hringbraut, en það er kviðarhols- og þvagfæraskurðdeild. Ég elti deildarlæknanna út um allt eins og lítill hundur og fékk fylgjast með alvöru sérfræðingum að störfum. Það var mögnuð upplifun að fylgjast með aðgerðum og samskiptum lækna og sjúklinga. Fyrir þessa viku taldi ég mig ekki geta orðið skurðlækni en eftir þetta þá er ég á annarri skoðun.“

Kolbrún Sara mun eyða stærstum hlusta sumarsins á kvennadeild Landspítalans. „Ég er nýbúin að fá starf á kvennadeildinni. Ég get ekki beðið eftir að byrja,” segir hún í lokin.

Kolbrún Sara á verklegri æfingu.
Kolbrún Sara á verklegri æfingu. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál