„Ef hugarfarið þitt er gott þá mun það alltaf hjálpa til“

Körfuboltakappinn Kristófer Acox hefur verið lykilmaður í íslenska landsliðinu og …
Körfuboltakappinn Kristófer Acox hefur verið lykilmaður í íslenska landsliðinu og liði Vals undanfarin ár. Samsett mynd

Körfuboltakappinn Kristófer Acox hefur verið lykilmaður í íslenska landsliðinu og liði Vals undanfarin ár. Hann byrjaði þó ekki að æfa körfubolta fyrr en á unglingsárum en hefur náð frábærum árangri í íþróttinni enda hefur hann lagt á sig mikla vinnu. Kristófer æfir allt að 20 klukkustundir á viku og leggur mikla áherslu á að vera með góða rútínu, hvort sem það er á venjulegum degi eða á mikilvægum keppnisdegi.

Þótt Kristófer hafi ekki byrjað að æfa körfubolta fyrr en á unglingsárum hafði þó alltaf blundað í honum mikill áhugi fyrir körfunni og var hann því fljótlega kominn á kaf í íþróttina.

„Ég byrjaði snemma að æfa fótbolta þegar ég var krakki en kom ekki inn í körfuboltann fyrr en á unglingsárunum. Það var ekki fyrr en ég var að verða 15 ára að ég byrjaði að æfa körfu af fullum krafti – annars hafði ég bara mætt á æfingar hér og þar en entist aldrei lengi,“ segir Kristófer.

„Um leið og ég fór „all in“ í körfuna þá varð ég strax mjög heillaður af íþróttinni. Ég hafði alltaf haft miklu meiri áhuga á NBA og öllu því tengdu frekar en enska boltanum eða fótboltaliðum þótt ég hafi ekki verið að æfa körfu á þeim tíma,“ bætir hann við.

Kristófer spilar með Val á Hlíðarenda og íslenska landsliðinu.
Kristófer spilar með Val á Hlíðarenda og íslenska landsliðinu.

Í dag spilar Kristófer með Val á Hlíðarenda og æfir að meðaltali um 15 til 20 klukkustundir á viku. „Við erum yfirleitt með liðsæfingar daglega. Svo æfi ég sjálfur með aðstoðarþjálfaranum mínum Jamil Abiad eða í lyftingasalnum, oftast á morgnana,“ segir hann.

Hvernig er morgunrútínan þín?

„Ég reyni yfirleitt að vakna á sama tíma klukkan níu og fæ mér góðan morgunmat, yfirleitt það sama – hafragraut og eggjahræru. Mér finnst gott að vera búinn að vera aðeins á fótum áður en ég fer út í hús að æfa, en einstaklingsæfingarnar mínar eru alltaf fyrir hádegi.“

Kristófer byrjar flesta daga klukkan 9:00.
Kristófer byrjar flesta daga klukkan 9:00. Ljósmynd/Arkadius Raxxar

Hvernig er hefðbundinn dagur í þínu lífi?

„Reyni að vera vaknaður klukkan 9:00-9:30 og fæ mér eitthvað að borða. Svo fer ég oftast út í Val að æfa, annaðhvort með áðurnefndum Jamil eða að lyfta. Svo fæ ég mér eitthvað að borða upp úr hádegi og „chilla“ svo yfirleitt bara fram að seinni æfingunni minni sem er alltaf um kvöldið. Ekki nema ég sé í einhverjum verkefnum eða öðru slíku yfir daginn, þá reyni ég að raða deginum í kringum það.“

Ef Kristófer er í öðrum verkefnum reynir hann að skipuleggja …
Ef Kristófer er í öðrum verkefnum reynir hann að skipuleggja daginn í kringum þau.

En keppnisdagur?

„Á keppnisdegi er ég alltaf með sömu rútínu, eða reyni það allavega. Þá leyfi ég mér að sofa vel og borða nóg um morguninn. Ef mig langar að komast út úr húsi þá finnst mér fínt að keyra út í Val og komast aðeins í snertingu við boltann.

Annars bara borða ég góðan hádegismat og tek svo létt „power nap“ eftir það. Svo þegar ég vakna byrja ég að gíra mig andlega fyrir leikinn með tónlist, hugleiðingu, myndböndum eða einhverju slíku.“

Kristófer er alltaf með sömu rútínuna á keppnisdegi.
Kristófer er alltaf með sömu rútínuna á keppnisdegi. Ljós­mynd/​Ró­bert Arn­ar

Áttu þér uppáhaldsminningu úr körfuboltanum?

„Það er erfitt að velja einhverja eina þar sem körfubolti hefur verið svo stór partur af lífi mínu. En það stendur auðvitað upp úr að vinna alla titlana sem ég hef orðið svo heppinn að vera partur af. Og öll samböndin sem maður hefur mótað með liðsfélögum og þjálfurum og allt því tengt. Ef ég þyrfti að velja eina minningu þá væri það örugglega fyrsti Íslandsmeistaratitillinn minn með Val.“

Kristófer á margar góðar minningar úr körfuboltanum.
Kristófer á margar góðar minningar úr körfuboltanum.

Hver heldur þú að sé lykillinn að því að þú hafir komist á þann stað sem þú ert á í dag?

„Bara gamla góða klisjan – æfa meira en aðrir og leggja hart að sér. Síðan ég man eftir mér hef ég alltaf verið í salnum að æfa og lagt inn vinnuna. Þegar maður er búinn að vera að gera þetta svona lengi þá verður þetta eiginlega bara partur af daglegu lífi og þá kannski ekki jafn „erfitt“.

Svo er ég líka búinn að vera ágætlega heppinn með meiðsli, þannig að það hefur ekkert haldið mér frá sportinu of lengi. En það borgar sig klárlega að hugsa vel um sjálfan sig og æfa nóg.“

Kristófer segir lykilinn að árangri sínum vera að æfa meira …
Kristófer segir lykilinn að árangri sínum vera að æfa meira en aðrir og leggja hart að sér.

Hve miklu máli skiptir hugarfar að þínu mati?

„Hugarfar getur klárlega komið þér mjög langt. Ég held að það skipti ekki máli í hverju maður er eða hvað maður gerir. Ef hugarfarið þitt er gott þá mun það alltaf hjálpa til.

Hugarfarið mitt hefur alltaf snúist um að vinna, og það er auðvitað hægara sagt en gert. En það er eitthvað sem mig langar að standa fyrir og það gefur manni alltaf eitthvað auka þegar maður er þreyttur eða að ganga í gegnum eitthvert erfiði.“

Kristófer segir gott hugarfar án efa geta komið fólki langt.
Kristófer segir gott hugarfar án efa geta komið fólki langt.

Hvernig dílar þú við stress og mótlæti tengt æfingum og keppnum?

„Ég reyni yfirleitt að halda mig frá samfélagsmiðlum eða fjölmiðlum þegar ég stend í miðri úrslitakeppni eða er að spila mikilvæga leiki til að forðast einhverja óþarfa neikvæðni eða pressu. Að díla við meiðsli er kannski öðruvísi en þá geri ég allt sem ég get til að koma mér sem fyrst aftur á gólfið.

Svo hef ég verið í hugarþjálfun hjá Hreiðari í Haus hugarþjálfun síðustu mánuði. Eitthvað sem ég er að prófa í fyrsta sinn og mér finnst það hafa hjálpað mér helling, bæði með að díla við stress og pressu, og líka bara með vellíðan í daglegu lífi þegar kemur að íþróttum. Annars bara reyni ég að halda haus sama hvað, þótt það gangi illa eða vel. Reyna að halda sér bara jarðtengdum og komast í gegnum hluti hægt og rólega.“

Í úrslitakeppnum reynir Kristófer að halda sig frá fjölmiðlum og …
Í úrslitakeppnum reynir Kristófer að halda sig frá fjölmiðlum og samfélagsmiðlum.

Hvað finnst þér mest krefjandi við að vera afreksmaður í þinni íþrótt?

„Mest krefjandi við að vera afreksmaður í einhverri íþrótt er örugglega bara pressan að standa sig vel. Maður vill alltaf gera vel og standast væntingar, en það getur stundum verið erfitt og þá fylgir oft eitthvað neikvætt ef manni gengur verr en skyldi.“

Pressan að standa sig vel er það sem er mest …
Pressan að standa sig vel er það sem er mest krefjandi við að vera afreksmaður í körfubolta að mati Kristófers.

En mest gefandi?

„Mest gefandi eru pottþétt bara allar minningarnar og félagsskapurinn. Það er ómetanlegt að fá að vera í kringum gott fólk daglega sem stundar það sama og þú, og fá að fara í gegnum hæðir og lægðir með góðri liðsheild. Svo sakar ekki að fá að spila fyrir framan fullar hallir að berjast um titla.“

Félagsskapurinn er mest gefandi!
Félagsskapurinn er mest gefandi!

Hvaða venjur leggur þú áherslu á og hvað finnst þér vera ómissandi?

„Ég legg yfirleitt áherslu á að vera í góðu standi. Bæði líkamlega og andlega, en kannski aðallega að hafa skrokkinn góðan. Það felst þá í því að hugsa vel um sjálfan sig, passa hvað maður setur ofan í sig og sofa vel. Sérstaklega þegar maður er að æfa svona mikið.

Ég byrjaði reyndar á nýju ári að sleppa öllum sykri og óhollu á virkum dögum. Leyfi mér samt alveg að borða það sem ég vil um helgar, og einmitt drekka nóg af vatni daglega. Það hefur gengið ágætlega hingað til, en stundum svindlar maður og fær sér ís eða eitthvert „möns“ á virkum.“

Kristófer leggur áherslu á að vera í góðu standi, bæði …
Kristófer leggur áherslu á að vera í góðu standi, bæði líkamlega og andlega.

Ertu með einhver góð ráð fyrir ungt íþróttafólk?

„Bara æfa nóg og rúmlega það, hugsa vel um sig. Það koma alltaf einhver móment þar sem manni líður eins og eitthvað sé ekki að ganga upp eins og maður vill, en þá heldur maður bara áfram. Aldrei gefast upp eða missa trúna á vinnunni sem þú leggur inn, það mun skila sér á endanum.“

Kristófer hvetur ungt íþróttafólk til að gefast aldrei upp eða …
Kristófer hvetur ungt íþróttafólk til að gefast aldrei upp eða missa trúna á vinnunni sem þau leggja inn.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál