Fröken Fix hannaði ný húsakynni Biskupsstofu

Sesselja Thorberg sem rekur hönnunarfyrirtækið Fröken Fix fékk það verkefni sumarið 2019 að hanna nýja Biskupsstofu á nýjum stað í turninum við Katrínartún í Reykjavík. Hún notaði kirkjulitina og gætti þess að það færi sem best um starfsmennina og auðvitað biskupinn, Agnesi Sigurðardóttur. 

Verkefnið snerist um að koma á nýju skipulagi og verklagi fyrir starfsfólkið, nútímavæða skrifstofustarfsemina og þannig koma að framtíðarsýn starfsemi Biskupsstofu. Nú, rétt um einu og hálfu ári seinna, er verkefninu lokið og ekki verra að fagna 10 ára afmæli Fröken Fix hönnunarstudio með þessum hætti,“ segir Sesselja.

Hvaða fyrirmæli fékkstu?

„Ég notast talsvert við konsepthönnun í nálgun minni á öll skrifstofuverkefni og var Biskupsstofa þar engin undantekning. Ég styðst einnig mikið við tákn- og sálfræði þegar ég byrja í hugmynda- og skipulagsvinnu og fékk ég hér tækifæri til þess að teygja þann ramma talsvert yfir verkefnið. Skipulagið er hannað út frá verkefnamiðuðum stöðlum á skrifstofuhúsnæði í bland við óskir Biskupsstofu. Fyrir utan starfsstöðvarnar, sem eru þó sérstaklega næðismiðaðar, þá var lögð mikil áhersla á örfundarrými og svæði þar sem starfsfólk gæti breytt um umhverfi eða fært sig inn í rými þar sem er enn meira næði.

Einnig lagði ég áherslu á samsetningu vinnusvæða og stærri borðsvæða þar sem hægt væri að dreifa gögnum, fljótandi vinnustöðva og annarra svæða þar sem starfsfólk gæti tekið sér pásur. Skrifstofurýmið allt er mikið til opið svæði, enda vildu þau auðvelda verklag starfsfólks og samskipti á milli deilda. Örfáar sérskrifstofur fengu þó að vera.“

Sesselja vildi skapa eins hlýlegt og heimilislegt andrúmsloft og hægt væri.

„Mér fannst mikilvægt að bæði starfsmenn og gestkomandi fengju strax á tilfinninguna að þeim væri tekið opnum örmum af umhverfinu.

Táknfræðin fékk að vera áberandi í þessu tiltekna verkefni enda tilefni til. Ég notaðist við kirkjulitina í árinu sem skiptast eftir deildum og svæðum, þríhyrningarnir í öllum filmum á gleri sem teygja sig svo niður í teppin í öllum fundarrýmum eru að sjálfsögðu vísun í hina heilögu þrenningu. Útskornu krossarnir sem eru svo í fljótandi milliveggjum eru auðvitað augljós tilvísun í kirkjuna, en svo langaði mig einnig að bæta smá húmor inn í þetta allt saman og því fengu allir starfsmenn sinn eigin „geislabaug“ fyrir ofan starfsstöðvar sínar.

Húsgögnin eru héðan og þaðan, mikið til blanda af A4 og Pennanum en mjög mikið er þetta teiknað af mér og smíðað. Sóló húsgögn og IK Innréttingar voru mér mestmegnis innan handar í þeim fasa og svo var það nýtt sem hægt var af Laugaveginum.“

Sesselja Thorberg rekur hönnunarfyrirtækið Fröken Fix.
Sesselja Thorberg rekur hönnunarfyrirtækið Fröken Fix.

Hvernig viðbrögð hefur þú fengið frá biskupnum og starfsfólkinu?

„Ég get ekki annað sagt en að starfsfólkið sé hæstánægt en þetta voru auðvitað mikil viðbrigði fyrir marga – að koma úr gamalgrónu húsi á Laugaveginum yfir í Katrínartúnið. Þetta er síður en svo einföld aðgerð og í mjög mörg horn að líta, sér í lagi þegar að framkvæmdinni sjálfri kemur. Því er mjög mikilvægt að hafa sterka heildarsýn frá upphafi til enda, áður en haldið er af stað, algjört lykilatriði.

Ég hef nú oft spaugað með það að hlutverk mitt er að vera 80% hönnuður, 20% sálgæslukona og 100% verkstýra! En stjórnin hafði mikla trú á mér og treysti mér fullkomlega til þess að takast á við allar áskoranir og koma þessu öllu í höfn. Sú tilfinning er ómetanleg frá byrjun og gefur manni byr undir báða vængi alla leið.

Frú Agnes og stjórnin öll í raun voru allt ferlið mjög jákvæð og óspör á hrósið bæði til mín og samstarfsfólks míns, en gríðarlega margir komu að verkefninu á einn eða annan hátt.“

Hvað er næst á dagskrá hjá þér?

„Ég er í miðjum klíðum í samstarfi við Tvíhorf Arkitekta að hanna allt inn í spennandi hús sem þau eru að teikna, en þar hef ég fengið frjálsar hendur með konsept og innréttingar. Ofsalega skemmtilegt fólk að vinna með þar skal ég segja þér, en því verkefni lýkur ekki fyrr en einhverntíma á næsta ári. Þau voru svo sniðug að taka hönnuð inn í ferlið mjög snemma í ferlinu. Svo hef ég einnig tekið það að mér að endurhanna höfuðstöðvar Advania í Guðrúnartúninu en það verkefni mun vera viðloðandi af og til næstu árin enda mjög svo yfirgripsmikið. Ég er líka mjög jákvæð fyrir því verkefni, það verður allt allt öðruvísi en Biskupsstofa enda allt öðruvísi starfsemi. Ég hlakka bara til að takast á við þetta allt saman!“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál