„Opið hús er eins og stórt heimboð og mikilvægt að skapa jákvæða upplifun“

Þórunn Pálsdóttir verkfræðingur ákvað að breyta til og gerast fasteignasali.
Þórunn Pálsdóttir verkfræðingur ákvað að breyta til og gerast fasteignasali. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þórunn Pálsdóttir hefur víða komið við í atvinnulífinu. Hún er byggingarverkfræðingur að mennt og með MBA-gráðu en hefur starfað við fasteignasölu síðastliðin tíu ár og er í dag hluti af söluteymi Mikluborgar. Þórunn segist hafa farið nokkuð óvænt í fasteignabransann en hún fékk vitrun sem leiddi til breytinga á starfsferli hennar. 

Þetta er ótrúlega skemmtilegt og gefandi starf. Það að aðstoða fólk á þessum miklu tímamótum eða stóra augnabliki í lífinu er alltaf jafn ánægjulegt,“ segir Þórunn sem hefur mikið dálæti á því að hjálpa fólki að finna sitt draumaheimili.

„Það er enginn dagur eins og annar, það er það skemmtilegasta,“ segir Þórunn en hún segir mikið líf hafa verið á fasteignamarkaðnum í upphafi nýs árs og því líflegir dagar í vinnunni. „Ég nýt mín í starfinu og er mikið á ferðinni. Maður er stöðugt að hitta nýtt fólk, skoða nýjar eignir og nú þegar maður er búinn að vera í þessu þetta lengi þá þekkir maður orðið hvern krók og kima af fasteignamarkaðanum,“ segir Þórunn sem á í dag marga fastakúnna sem leita til hennar aftur og aftur vegna þekkingar hennar, reynslu og innsæis.

Búin að selja helling

Þórunn segir fasteignasölu hafa farið af stað með miklum látum í ársbyrjun.

„Fasteignamarkaðurinn er búinn að vera mjög líflegur það sem af er árinu. Oft hefur hann verið í hálfgerðum dvala til 15. janúar, fólk enn að jafna sig eftir jólahátíðina, en í ár fór hann af stað með miklum látum,“ segir Þórunn og hlær. „Sjálf er ég allavega búin að selja alveg helling það sem af er árinu.“

Aðspurð segir Þórunn erfitt að segja til um hvað valdi því nákvæmlega að sala fasteigna er sveiflukennd.

„Það koma svona góðir tímar þar sem allt er að verða vitlaust en svo hægist á og þá er bara rólegt að gera. Fullt tungl á kannski einhvern þátt í þessari sveiflu.“

Þórunn segir íslenska fasteignamarkaðinn hafa verið í hálfgerðum dvala fyrri hluta síðasta árs en það hafi orðið umskipti um sumarið. „Það hefur verið ágætis hreyfing á markaðnum frá því síðasta sumar að mínu mati, en þetta er að sjálfsögðu alltaf spurning um framboð og eftirspurn og auðvitað líka vexti og verðbólgu, en það eru veigamiklir áhrifaþættir,“ útskýrir hún. „Ég hef grun um að þessi stemning sem ríkir á markaðnum í dag sé tilkomin vegna þess að fólk trúir því að samningar muni nást sem nái þá niður verðbólgu og vöxtum.“

Mun hafa mikil áhrif á markaðinn

Það er óhætt að segja að á síðustu vikum hafi athygli landsmanna verið á hamförunum í Grindavík þar sem hús hafa nánast horfið undir hraun vegna eldgossins. Margir búsettir í bænum sjá ekki fram á að flytja aftur til Grindavíkur eftir atburðarás síðustu vikna og mun þetta því hafa mikil áhrif á fasteignamarkaðinn.

„Ég er ekki farin að sjá það enn þá en spái því,“ segir Þórunn um þróun eftirspurnar eftir íbúðaþörf fyrir bæjarbúa Grindavíkur, en þörf fyrir nýjar íbúðir hefur meðal annars aukist á síðastliðnum árum vegna hraðrar íbúafjölgunar á landinu.

„Þetta mun að sjálfsögðu hafa mjög mikil áhrif en þetta er enn þá óljóst, það þarf bara að bíða og sjá,“ segir Þórunn. „Eitt er þó ljóst að ef útfærslan verður sú að Grindvíkingar séu að fara að kaupa fleiri hundruð íbúðir á höfuðborgarsvæðinu þá mun það hafa mikil áhrif á íslenska fasteignamarkaðinn. Í augnablikinu eru rétt um 2.000 íbúðir til sölu á höfuðborgarsvæðinu og af þeim eru um það bil 850 í nýbyggingum,“ útskýrir Þórunn.

Margir velta fyrir sér hver séu eftirsóttustu hverfin á höfuðborgarsvæðinu og er ekki eitt ákveðið rétt svar við þeirri pælingu en Þórunn segir eignir í Vesturbæ og Laugarneshverfi vinsælar og oft seljast eins og heitar lummur ef og þegar þær detta inn á söluskrá.

„Fólk heldur mikilli tryggð við þessi hverfi og sama má segja um Hafnfirðinga, þeir halda sig mikið við Hafnarfjörðinn,“ segir hún. „Annars er þetta mjög persónubundið þegar kemur að því hvar fólk vill vera og bara sem betur fer,“ segir Þórunn og hlær. „Flestir vilja vera nálægt þjónustu en aðrir stutt frá vinnustað til að geta gengið eða hjólað í vinnu, enda er umferðin ekkert grín.“

Aðspurð segir Þórunn mikinn áhuga vera fyrir glæsilegri endurbyggingu á þéttingarrétt í Skipholti 1, en þar er búið að breyta gamla Myndlista- og handíðaskólanum í 34 heillandi íbúðir á rólegum staði í útjaðri miðborgarinnar. „Þetta eru mjög skemmtilegar eignir sem ég er með í sölu í augnablikinu.“

Hvað þarf að hafa í huga í kaup- og söluferlinu?

„Það þarf að sjálfsögðu að skoða eignina mjög vel, það er rík skoðunarskylda hjá kaupendum. Síðastliðna mánuði hefur markaðurinn verið þannig að kaupendur hafa getað tekið sér dágóðan tíma til að skoða. Í dag er algengt að fólk skoði tvisvar og jafnvel þrisvar sinnum áður en lokaákvörðun er tekin en markaðurinn býður kaupendum upp á það í dag.

Einnig er mikilvægt að hafa í hug að gera ekki óraunhæf tilboð. Vertu búinn að vinna undirbúningsvinnuna þegar kemur að fjármögnun og vertu með það á hreinu hverju þú hefur ráð á,“ segir Þórunn sem segir það mikil vonbrigði þegar keðjan slitnar í miðju ferli. „Ekki flýta þér um of.“

Fyrstu hughrif skipta miklu máli

Þórunn segir ástand heimilis hafa mikið að segja þegar eign er auglýst til sýnis og fór hún í gegnum nokkur atriði sem vert er að hafa í huga fyrir opið hús.

„Opið hús er eins og stórt heimboð og því mikilvægt að skapa jákvæða upplifun. Með því að leggja smávegis vinnu í undirbúning, þrífa vel, pakka niður persónulegum munum, skapa flæði og skemmtilega stemningu eykurðu líkurnar á því að mögulegir kaupendur falli strax fyrir eigninni. Fyrstu hughrif skipta miklu máli,“ segir Þórunn sem segir gott að hugsa einnig um nánasta umhverfi.

„Aðkoma að fasteigninni og nánasta umhverfi skipta einnig miklu máli, enda fyrsta upplifun mögulegs kaupanda af húsnæðinu. Það er því mikilvægt að lóð, anddyri og/eða stigagangur séu snyrtileg og aðlaðandi.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál