Fólk með ADHD þarf ró inn á heimilið

Berglind Guðmundsdóttir og Rakel Hlín Bergsdóttir
Berglind Guðmundsdóttir og Rakel Hlín Bergsdóttir mbl.is/Arnþór Birkisson

Berglind Guðmundsdóttir, hjúkrunarfræðingur og eigandi Salina.is, segir að það skipti máli að fólk með ADHD eigi svolítið einföld heimili. Heimili hennar var ekki þannig fyrr en Rakel Hlín Bergsdóttir kom og veitti Berglindi ráðgjöf varðandi liti á veggjum og húsgagnaval. Berglind er hálfundrandi á því hvað henni líður vel eftir breytingarnar.

Ég keypti íbúðina í október árið 2017. Það er smá kaldhæðnislegt að segja frá því en ég féll fyrir því hversu upprunaleg hún var. Húsið er byggt árið 1959 og íbúðin hafði lítið breyst frá þeim tíma. Þannig að ég féll fyrir nostalgíunni. Eldhúsið var eplagrænt með eldhúskrók og þar sá ég fyrir mér að fjölskyldan myndi taka kvöldkaffi. En svo þegar ég flutti inn komst ég fljótlega að því að það var algjörlega kominn tími á viðhald og þurfti þá að fara í tilheyrandi framkvæmdir. Þar hvarf hugmyndin um græna eldhúsið og kvöldkaffið í litla eldhúskróknum,“ segir Berglind sem fór í kjölfarið í heljarinnar framkvæmdir.

Heimili Berglindar Guðmundsdóttur hefur breyst mikið.
Heimili Berglindar Guðmundsdóttur hefur breyst mikið. Arnþór Birkisson

„Þegar ég flutti inn ætlaði ég einungis að breyta eldhúsinu örlítið sem vatt svo upp á sig eins og vill oft gerast. Ég fór því út í heljarinnar framkvæmdir á íbúðinni sem reyndu vel á þolrifin. Núna mörgum árum síðar hafði ég ekki enn haft mig í að fara í aðrar framkvæmdir þó það hafi löngu verið kominn tími til,“ segir Berglind.

Á dögunum fékk hún Rakel Hlín Bergsdóttur, eiganda Snúrunnar, til þess að hjálpa sér við að taka íbúðina í gegn.

„Við Rakel höfum þekkst í um 10 ár og brallað alls konar skemmtilegt saman. Ég held að við séum samt báðar sammála um að þetta „makeover“-verkefni sé með því skemmtilegra sem við höfum gert saman.

Fyrir tveimur árum kom Rakel með þá hugmynd að gera „makeover“ á svefnherbergi. Hún hefur oft verið að taka Snúruna í gegn og fundið fyrir miklum áhuga á þessum breytingum hjá sínum viðskiptavinum og langaði að gera það sama inni á heimili. Ég var hins vegar enn með svo mikla framkvæmdabugun og það bara þyrmdi yfir mig þegar hún nefndi þetta. En svo núna tveimur árum seinna kom rétta mómentið. Rakel var enn spennt og ég fann loksins hjá mér innri hvata til að fara í þessar breytingar sem voru í raun orðnar löngu tímabærar,“ segir Berglind.

„Mig langaði fyrst og fremst að búa til rólega og þægilega stemningu inni á heimilinu. Nýta rými við gluggann sem var lítið notað. Þar var einn sófi og skenkur en með því að setja aðeins stærri sófa, stól á móti og borð á milli þá varð þetta að setustofu sem nýtist miklu betur í dag. Áður þegar gestir voru að koma í heimsókn þá var setið inn í eldhúsi en núna er þetta aðal svæðið. Íbúðin stækkaði að mínu mati nánast um helming við þessar litlu breytingar,“ segir Rakel.

Berglind gerði eldhúsið upp þegar hún festi kaup á íbúðinni …
Berglind gerði eldhúsið upp þegar hún festi kaup á íbúðinni á sínum tíma. Svo fékk hún algert framkvæmdaógeð eða þangað til Rakel bankaði upp á og bauðst til að hjálpa henni að töfra fram rólegra og notalegra heimili. Arnþór Birkisson

Svefnherbergi klárt á fimm dögum

Áður en stofan var tekin í gegn fór Rakel mjúkum höndum um svefnherbergi Berglindar.

„Við vinkonurnar skemmtum okkur svo vel í þessu verkefni að Rakel stakk upp á því að fyrst við værum byrjaðar þá ættum við kannski að vinda okkur í breytingar á stofunni líka. En þetta lýsir Rakel svo vel, hún býr yfir svo miklum drifkrafti og ég verð að segja að þrátt fyrir að hafa þekkt Rakel í öll þessi ár þá kom hún mér samt svo á óvart í þessu ferli. Hún er svo kröftug og drífandi og það er í raun ekkert sem hún getur ekki gert. Hún mætti til mín með borvél og málningarbursta og bretti bara upp ermar og hóf verkið. Viðhorfið hennar er líka aðdáunarvert því það er ekki til það vandamál í hennar huga sem ekki er hægt að leysa. Það pirraði hana mest að kunna ekki að tengja rafmagn en ef ég þekki hana rétt þá verður hún búin að læra það næst þegar við hittumst,“ segir Berglind.

Svefnherbergið var málað í hólf og gólf áður en ráðist …
Svefnherbergið var málað í hólf og gólf áður en ráðist var í framkvæmdir í stofunni. mbl.is/Arnþór Birkisson

Dót úti um allt!

Breytingarnar á stofunni tóku okkur svo um tvær vikur með nokkurra daga pásum. Berglind segir að Rakel hafi bent sér á að það var allt of mikið dót á heimilinu.

„Já, hún benti mér á allt þetta aukadót sem ég var með inni á heimilinu og var að færa til allan liðlangan daginn. Dót sem ég notaði varla og var bara fyrir mér en ég tímdi ekki að henda því kannski einn daginn. Æ, þið vitið. Við byrjuðum á að losa mig við þessa hluti og létta á heimilinu. Ég get ekki lýst því hversu jákvæð áhrif það hefur haft á andlega líðan,“ segir hún og hlær.

Hvaða dót var þetta?

„Hálfdauð planta í blómapotti sem ég vonaðist til að myndi vakna til lífsins án minnar aðstoðar samt,“ segir Berglind og skellihlær. „Alls konar bækur og ósamstæð húsgögn. Nokkrir brotnir stólar eða stóll með rifnu áklæði.“

Hvers vegna vildir þú ekki henda því?

„Sko eins og með stóllinn með rifna áklæðinu, þó hann hafi ekki verið neitt flottur að þá var hann gagnlegur. Ég gat fleygt fatahrúgunni í svefnherberginu á hann. Núna hef ég engan stól og þau þurfa að fara inn í skáp. Alls konar svona lausnir sem ég var með sem Rakel eyðilagði fyrir mér. En án gríns þá var ég bara með fullt af dóti sem ég var orðin samdauna,“ segir Berglind.

Berglind segir að það hafi allt verið úti um allt og alls konar litir. Hvernig fórstu að því að sannfæra hana um það að gera heimilið rólegra?

„Ég var svo heppin að eftir að við tókum í gegn svefnherbergið þá treysti Berglind mér fullkomlega til þess að gera stofuna. Ég valdi inn vörur sem ég vissi að myndi henta hennar stíl og hugmyndum um þægilegt og rólegt heimili. Það eru margir með miklar skoðanir á hvernig hlutirnir eiga að vera og blessunarlega þá leyfði hún mér alveg að stjórna ferðinni,“ segir Rakel.

„Rakel kenndi mér líka að horfa á hönnunina með heildarmyndina í huga. Ég hef til dæmis aldrei spáð í það að velja einhverja ákveðna liti inn í íbúðina enda var ég með gulan stól, bláan sófa og túrkislitaðan skenk,“ segir Berglind og skellihlær og bætir við:

„Það er meiri ró yfir íbúðinni núna. Sonur minn sagði meira að segja þegar við kláruðum: „Mamma, finnurðu þögnina,““ segir hún og brosir.

Rakel mætti með borvél og málningu heim til Berglindar. Hér …
Rakel mætti með borvél og málningu heim til Berglindar. Hér er búið að festa upp spegla, mála og veggfóðra og andrúmsloftið gjörbreyttist. mbl.is/Arnþór Birkisson

„Liturinn heitir Haven og er svona beige-grár litur aðeins dekkri en liturinn inn í svefnherberginu hjá henni. Er hann úr litapallettunni okkar í Sérefni, en hann hentaði svo fullkomlega fyrir stofuna. Svo skemmtilega vildi líka til að við vorum búnar að skíra hann Haven sem er griðastaður og passaði nafnið svo vel við heimilið. Er þetta algjörlega orðin hennar griðastaður núna sem hægt er að slaka á í,“ segir Rakel. Hún segir jafnframt að það sé hægt að breyta miklu með því að mála veggina og færa til húsgögn.

„Hún Rakel er svo með puttann á púlsinum þegar kemur að hönnun og fræddi mig meðal annars um að dökkur viður væri að koma sterkur inn aftur svo nú vitið þið það líka. Við lögðum upp með dökka viðinn í vali á húsgögnum eins og sófaborðunum og sjónvarpsskenknum. Einnig völdum við dökkan viðarramma utan um The Frame frá Ormsson en það er ægifagurt sjónvarp sem hægt er að breyta í listaverk þegar slökkt er á því. Forstofan var frekar dimm og drungaleg svo Rakel fékk ljósaráðgjafa frá Pfaff til að koma heim og gefa góð ráð varðandi lýsinguna. Ég mæli svo mikið með að fá slíka ráðgjöf,“ segir hún.

Rakel segir að þetta svæði í íbúðinni hafi ekki verið …
Rakel segir að þetta svæði í íbúðinni hafi ekki verið nýtt til fulls. Hún kom fyrir sófa og stól og nú geta gestir setið í stofunni en áður safnaðist fólk saman í eldhúsinu vegna óskipulags. mbl.is/Arnþór Birkisson

Skiptir það þig máli að hafa fallegt í kringum þig?

„Ég elska að vera í kringum fagurkera sem kunna að gera fallegt í kringum sig. Það er hins vegar ekki minn styrkleiki nema ég vandi mig mjög mikið. Það er ákveðin kúnst að gera heimili að kósí heimili og alls ekki á allra færi en Rakel er mjög góð í því. Öll þessi „litlu“ atriði eins og að klára að setja upp lista, sem ég var alltaf á leiðinni að fara að gera, rósetta í loftum, vera með fallegar plöntur og nokkra fallega hluti, ég elska þetta en Rakel á 200% heiðurinn af þessu og ég er endalaust heppin að hafa hana í mínu lífi.

Mér fannst líka eitthvað breytast innra með mér við breytinguna á svefnherberginu. Það er svo notalegt að koma inn í herbergi þar sem eru fáir hlutir og allt er á sínum stað. Ég bý um rúmið á hverjum morgni og hef haldið því hreinu og fínu frá því að framkvæmdirnar kláruðust. Það er svo dásamlegt að koma heim í hreint herbergi og vonandi næ ég að halda stofunni svona fínni áfram líka.“

Berglind nýtur þess að vera heima.
Berglind nýtur þess að vera heima. mbl.is/Arnþór Birkisson

Hvaða þýðingu hefur heimilið fyrir þig?

„Heimilið hefur mikla þýðingu fyrir mig. Heimilið á að vera öruggt skjól þar sem maður hvílist frá amstri dagsins. Ég er mjög heimakær og börnin mín eru það líka.“

Hvernig myndir þú lýsa þínum heimilisstíl?

„Ætli það sé ekki bara kósí ef það flokkast sem heimilisstíll. Ég elska mjúka sófa, hlýlega liti og notalegt umhverfi. Ég held að fyrir ADHD-fólk eins og mig sé gott að tileinka sér mínimalískan lífsstíl til að einfalda sér lífið en ég á nú samt eitthvað í land með það. Sjáum hvort það breytist ekki til hins betra með þessum breytingum,“ segir hún og hlær.

Nýtur lífsins eftir erfiða tíma

Berglind hefur gengið í gegnum ýmislegt í lífinu. Nú segist hún kunna að njóta lífsins betur.

„Ég er að njóta og uppskera. Síðasta ár var frekar krefjandi og ég tók því ákvörðun í byrjun árs að taka ábyrgð og breyta því sem ég gæti breytt. Það fól í sér atriði eins og að hætta að drekka áfengi, byrja að hlaupa, stunda hugleiðslu og jóga reglulega. Já, ætli sjálfsástin sé ekki bara að koma sterk inn á þessu ári. Mér finnst ég að minnsta kosti vera að uppskera alla daga eftir að ég tók þessa ákvörðun og lífið er stórkostlegt,“ segir Berglind. Hana skortir ekki verkefni og er alltaf með ýmislegt sniðugt á prjónunum.

„Svona fyrir utan það er ég að starfa sem hjúkrunarfræðingur bæði í grunn- og framhaldsskólum, sinni símaráðgjöf fyrir Upplýsingamiðstöðina, fer með hópa til annarra landa sem leiðsögumaður og held úti Lífsgleðinni á Instagram. Ásamt því rek ég vefmiðilinn salina.is með það að markmiði að gefa konum vettvang til að miðla þekkingu sinni og efla í leiðinni hver aðra og hvetja.

Lífið er svo miklu fallegra þegar konur standa saman og lyfta hver annarri upp,“ segir Berglind, ánægð með lífið og ekki síst nýuppgert heimili sitt.

mbl.is/Arnþór Birkisson
mbl.is/Arnþór Birkisson
mbl.is/Arnþór Birkisson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál