c

Pistlar:

1. maí 2012 kl. 13:44

Ágústa Johnson (ajoh.blog.is)

Yngingarlyf - hefurðu prófað?

happy-people-jumping.jpgMargir hlaupa af stað í ræktina um þessar mundir staðráðnir í að líta betur út í baðfötum í sumar.  Ert þú ekki í þeim hópi?  En hvað ef ferðirnar í ræktina geta bætt árum við líf þitt?  Regluleg þjálfun er hollur lífsstíll sem hefur ekki aðeins jákvæð áhrif á líðan þína og útlit, en er að auki eitt það mikilvægasta sem þú getur gert til að stuðla að því að bæta árum við líf þitt, lífi við árin þín og halda þér í fullu fjöri fram á þinn síðasta dag.

Getur þjálfun lengt líf þitt?

Rannsóknir sýna að með því að hreyfa þig reglulega getur þú minnkað líkur á alvarlegum sjúkdómum s.s.  hjarta- og æðasjúkdómum, sykursýki 2 og sumum tegundum krabbameina.  Niðurstöður rannsóknar sem birtust í Journal of American Medical Assosiation, þar sem 14.000 manns af báðum kynjum var fylgt í 8 ár, leiddu í ljós að sá hópur sem var í besta líkamlega forminu var allt að 4,5 sinnum  ólíklegri til að láta lífið af völdum lífstílssjúkdóma en þeir sem voru í lakara líkamsástandi.  Ekki slæmt það, og það besta er að við sjálf getum haft áhrif.

Þú þarft ekki að hlaupa maraþon

Þú þarft ekki að hlaupa maraþon eða gera út af við þig í erfiðum æfingum daglega til að komast í slíkan hóp.  Regluleg þjálfun 3-4x í viku getur haft áhrif á langlífi.   En kröftug þjálfun virðist vera enn áhrifaríkari.  Með því að hlaupa hratt eða hjóla af miklum krafti minnkuðu líkur fólks á dauðsfalli um 35% skv. einni könnun.

Rólegri hreyfing t.d. garðvinna og meðalhröð ganga getur líka haft jákvæð áhrif s.s. að minnka streitu og lækka blóðþrýsting.  Klárlega er öll hreyfing betri en að liggja uppi í sófa.  Ótal rannsóknir hafa sýnt að mikil kyrrseta hefur neikvæð áhrif á heilsuna og rýrir lífslíkur.   Veltu fyrir þér hvort þú sért sófadýr.

Er betra að æfa oft og lengi?

Rannsóknir sýna að magn og ákefð þjálfunar skiptir máli.  Því meira sem við hreyfum okkur, því betra, þó vitanlega ávallt innan skynsamlegra marka.  Ofþjálfun veikir ónæmiskerfið.   Hreyfðu þig oft og mikið og af krafti, farðu reglulega út fyrir þægindarammann þinn en "hlustaðu" á líkamann og ekki ofbjóða honum.  Kraftmikil þjálfun er áhrifaríkari en þægilegir göngutúrar. 

Er of seint fyrir mig að byrja?

ekki-fleiri-afsakanir_1149993.jpgÞað er aldrei of seint að byrja.  Fólk á miðjum aldri og eldra geta bætt árum við líf sitt með þjálfun og minnkað líkur á að upplifa skort á líkamlegri getu vegna aldurs.  Æfingar geta á ýmsan hátt hægt á öldrun, t.d. haft jákvæð áhrif á beinþéttni,  dregið úr aldurstengdri vöðvarýrnun og bætt jafnvægi sem er mikilvægt því slæmar byltur geta geta leitt til beinbrota.  Eins og áður kom fram minnkar hreyfing einnig líkur á lífsstílstengdum sjúkdómum s.s. of háum blóðþrýstingi, hjartasjúkdómum, sykursýki 2 og ákv. tegundum af krabbameinum.  Rannsóknir hafa að auki sýnt fram á að þjálfun getur minnkað líkur á minnistapi sem aldur hefur gjarnan í för með sér.

Langlífi og þjálfun - lokaorð

Regluleg hreyfing bætir ekki aðeins árum við líf þitt heldur getur komið í veg fyrir að þú eyðir síðari hluta æfi þinnar á hjúkrunarheimili.  Það sem er mikilvægast er að í dag hefur þú val.    Það eina sem þú þarft að gera er að taka frá tíma og láta verða af því.
Þjálfun er besta yngingarlyfið sem til er, og e.t.v. það eina sem raunverulega virkar?

www.hreyfing.is