c

Pistlar:

1. október 2013 kl. 12:43

Árelía Eydís Guðmundsdóttir (arelia.blog.is)

Hverjum er að kenna?

"Það vantar leiðtoga, okkur vantar leiðtoga á öllum sviðum!" Sagði konan, sem ég hitti í boði, eftir að hún vissi hvað ég starfa. Ég horfði á hana og spurði hvernig leiðtoga hún vildi fá. "Bara almennilega leiðtoga" var svarið. 

Ég kenni leiðtogafræði og velti mér upp úr stjórnun og leiðtogafræðum á næstum hverjum degi. Leiðtogar eru margir og mismunandi en ég get þó fullyrt að enginn þeirra nær árangri í umhverfi vantrausts og þar sem fólk er tilbúið til að ásaka og kenna hvort öðru um allt á milli himins og jarðar. Það eru fimm ár frá því að "hrunið" varð á Íslandi og vantraust, eftirlit og það að finna hverjum var að kenna hefur einkennt þessi fimm ár. Nýsköpun og frjór jarðvegur fyrir leiðtoga er einfaldlega ekki til staðar og hefur ekki verið til staðar. Í slíku umhverfi þurfa þeir sem taka að sér leiðtogastörf að vera tilbúnir til að missa æruna og vera hafðir að háði og spotti. Ástæðan er að ekkert getur orðið til þess að traust komist á nema við sjálf og hvernig við fóstrum leiðtoga. Hvernig fjallað var um Jóhönnu Sigurðardóttur eða nú nýlega Björn Zoega sýnir sitt um hvað það er sem fólk þarf að leggja á sig.

Sköpunarkraftur og vellíðan þarf ákeðinn jarðveg. Við vitum það úr rannsóknum. Við þurfum að finna til öryggis og trausti og láta af því að kenna öðrum um - þrátt fyrir að margt hafi farið misgörðum. Við þurfum að finna fyrirgefningu, vilja til að læra af mistökum og halda áfram.

Ég legg til að við styðjum Páll Mattíasson, starfandi forstjóra LHS, styðjum ráðherra hans og ríkisstjórn (hvar sem við stöndum í pólítik, það koma aðrar kostningar...). Við styðjum stjórnendur okkar, í okkar fyrirtækjum og styðjum hvort annað eins mikið og kostur er. Með þeim hætti fáum við "réttu" leiðtogana.

Í alkafræðunum stendur að þegar fíflunum fjölgar í kringum þig þá sé tími til að líta í eiginn barm. Kannski er komin tími til að renni af okkur vantraustið. Nýjir og betri tímar eru framundan!