c

Pistlar:

16. desember 2013 kl. 17:16

Árelía Eydís Guðmundsdóttir (arelia.blog.is)

Jólabörn

"Ég er ekkert jólabarn", sagði hann maðurinn sem kom að gera við hjá okkur. "Auk þess eru margir sem eiga bágt núna..", bætti hann við. Ég varð aðeins varkárari og sagði en það væri nú léttir að ljósin væru farin að lýsa upp skammdegið. "Ég veit það nú ekki - það þarf að taka þetta niður.."

Enn á ný var ég minnt á að þessi tíma tilhlökkunar er oft svo blendin af erfiðum tilfinningum. Þeir sem ekki eiga fyrir jólunum, þeir sem hafa misst ástvini  og þeir sem eru að syrgja það sem ekki verður, eða varð. Ég bauð honum þó upp á kaffi og við áttum indæla stund saman. Þrátt fyrir að hann sé ekkert jólabarn.

Það sem gerir þennan tíma svo undursamlegan er hvað við erum öll varnarlaus fyrir alls konar... alls konar tilfinningum sem bærast í brjóstum okkar allra. Við erum eitthvað svo varnarlaus því barnið í okkur er svo nærri í sinni. Einmannaleikinn getur orðið nýstandi, gleðin svo hástemmd, blankheitin svo stingandi og kærleikurinn svo heitur. Sorginn svo dökk og missirinn svo átakanlegur. Því jólin eru að koma. Barnsandinn svífur yfir vötnum og gerir okkur svo ósköp sönn. Lagið í útvarpinu fær tárin til að streyma eða þá að maður dansar af gleði.

Þannig eru þau jólin. Þar sem við sátum við eldhúsborðið, ég og maðurinn sem kom til að gera við, áttum við yndæla stund þar sem við töluðum saman af einlægni um þá sem eiga erfitt um jólin. Hann sagði mér hluta af sögu sinni og jólaljósin úr glugganum mýktu okkur að innan. Nú er um að gera að eiga sem nánustu samveruna við hvort annað. Meðan við erum í góðum tengslum við barnið í okkur, og börnin í kringum okkur, þá erum við ekkert að þykjast. Þeir sem eru svo ósköp glaðir geta umvafið umhverfi sitt eins og tindrandi jólastjörnur sem lýsa upp fyrir þá sem ekki eru eins glaðir.  Svo tökum við niður jólaljósin seinna og göngum inn í fullorðins sjálfið, það er nógur tími fram að því.