c

Pistlar:

2. febrúar 2015 kl. 11:22

Árelía Eydís Guðmundsdóttir (arelia.blog.is)

Hugrekki

Hver dagur býr yfir nýjum möguleikum en það þarf hugrekki til að nýta þá. Þegar maður hugsar um hugrekki kemur oft upp í hugan lífshættulegar aðstæður þar sem einhver kastar sér fyrir bíl til að bjarga öðrum eða eitthvað álíka. En það þarf að æfa hugrekki á degi hverjum til að lifa lífinu til fullnustu. Hugrekki til að horfast í augu við erfiðar aðstæður. Hugrekki til að takast á við sársauka lífsins. Höfnun, fátækt, depurð og þungar hugsanir. Hugrekki til að deyja í sumum aðstæðum. Hugrekki til að lifa. Hugrekki til að segja eitthvað í aðstæðum sem eru óþolandi. Hugrekki til að horfast í augu við sannleikann. Það sem dregur úr hugrekki er innri gangrýnandi okkar.

Allir hafa innri rödd sem dregur úr þeim. Allir upplifa hávært innra rifrildri af og til þar sem hugsanir eins og "þú er fífl að láta þér detta þetta í hug. Þú ert vanhæf/ur, þetta á aldrei eftir að takast. Þú átt eftir að verað að athlægi. Hvernig dettur þér þetta í hug.."

Allir - líka þeir sem njóta velgegni, hafa innri gagnrýnanda. Svo virðist sem þessar innri raddir þjóni þeim tilgangi að verja okkur fyrir sársauka (eins og það sé hægt) en það sem nauðsynlegt er að vita er það þarf hugrekki til að heyra í innri gagnrýnanda sínum og taka EKKI mark á honum.

Eitt dæmi um konu sem hefur náð miklum árangri er Cherry Murray sem er deildarforseti verkfræðideildar Harvard háskóla. Hún hefur á ferli sínum leitt vísindastarf Hjá Bell í Bandríkjunum. Hefur skrifað yfir sjötíu ritrýndar vísindagreinar, hlotið æðstu viðurkenningar sem vísindamaður og setið í yfir áttatíu stjórnum. Þegar hún er spurð hvort henni finnist hún stundum ekki vera nógu hæf, svarar hún: "Mér líður alltaf þannig að ég sé ekki nógu hæf." En greinilegt er að hún hefur ekki látið það stoppa sig.

Margir listamenn hafa sterkan innri gagnrýnanda, eins og einn rithöfundur lýsti: Mér finnst í fyrsta lagi að fólk muni hlægja að mér í öðru lagi að einhver sé búin að segja allt þetta áður. Í þriðja lagi að ég hafi ekkert að segja, í fjórða lagi að einhver sem mér þykir vænt um verði sár og í fimmta lagi að hugmyndin muni aldrei blómstra.

Ég hvet þig til að hafa hugrekki til að hlusta EKKI á innri gagnrýnanda þinn - þetta er allt í hausnum og allir upplifa þetta. Þinn innri gagnrýnandi á marga samstarfsmenn.  Til að æfa hugrekki á degi hverjum þarf maður að heyra í innri gagnrýnanda og gera samt. Eða gera það sem maður er hræddur við. Gera það sem þarf að gera á hverjum degi til að verða hugrakkari. Hver dagur býr yfir nýjum möguleikum til að sýna hugrekki.

Ég ætla að gera febrúar að hugrekkis-boot campi! Vertu með - gerðu það sem gera þarf með hugrekki og brostu bara þegar rifrildið fer af stað í hausnum á þér. Eftir því sem það verður háværara því nær ertu að æfa þig í hugrekki.