c

Pistlar:

27. febrúar 2015 kl. 10:58

Árelía Eydís Guðmundsdóttir (arelia.blog.is)

Að taka sig alvarlega..

"Þessi kennari getur ekki ætlast til að hún sé tekin alvarlega.." Ég sat með kennsluumatið fyrir framan mig, fyrstu viðbrögð, eins og venjulega voru að hugsa hvernig ég gæti skipt um vinnu. Fjórum sinnum á ári fáum við háskólakennarar kennslumat sem er nafnlaust og því geta nemendur sett fram skoðanir sínar frjálst og án ábyrgðar. Í ár hafði ég fengið nokkuð góða dóma, svona yfirhöfuð en svo koma alltaf þessar athugasemdir sem fylgja manni eins og vond lykt allann daginn sem maður les þau. "Alvarlega.." ha? 

Ég hef oft áður fengið þessa athugasemd, bæði í kennslumati og öðru og stundum hefur mér fundist að ég ætti að taka sjálfa mig mun alvarlega en svo á ég erfitt með að koma því í verk. Flest allir sem ég dáist að taka sig nefnilega hvorki hátíðlega né alvarlega. Lífið sjálft er svo oft allt of alvarlegt. 

Hvert tilefni, hver dagur sem gefst til þess að vera maður sjálfur er gjöf í sjálfu sér. Sumir eru alvarlegir og svo dásamlega hátíðlegir og það er þeirra karakter. Ég þekki svona fólk sem stekkur sjaldan eða næstum aldrei bros en hafa samt svo góða nærveru að manni líður eins og malandi köttur í nærveru þeirra. Þeir eru ekkert að þykjast - bara eru svona. Svo eru manneskjur eins og ég og amma mín heitin (ég fæ þetta þaðan, get ekkert að þessu gert..) sem gleymum okkur og segjum eitthvað sem við áttum alls ekki að segja.. Eða hlægjum of hátt og gerum grín að því sem á helst ekki að gera grín að.. Trúið mér, ég hef lent í ýmsum pínlegum aðstæðum. 

Kennslumat er reyndar frábær aðferð til að þróa námið. En það er alltaf jafn erfitt að takast á við sumar athugasemdir. Ég er reyndar hætt að fá athugasemdir eins og "stelpan er nokkuð glúrin..(eitthvað með aldur að gera)" Ekki nóg með að háskólakennarar fái mat á frammistöðu sína í kennslu fjórum sinnum á ári (alla vega í HÍ) heldur sendum við jafnan út greinar sem eru settar í jafningamat og allir fá einhvern tímann höfnum á þeim. Talandi um alvarleika!  Ég ætti kannski að taka það alvarlega að skipta um vinnu!