c

Pistlar:

9. september 2015 kl. 14:23

Árelía Eydís Guðmundsdóttir (arelia.blog.is)

Kastaðu því..

Eins og góðri húsmóðir sæmir þá nýtti ég sumarið í gagngera tiltekt. Ég flokkaði, kastaði, gaf og losaði mig við. Fór með marga svarta ruslapoka í Rauða kross kasssana, setti annað til þeirra sem vildu eiga og lét hitt í ruslið.

Einn kassinn sem ég fór í gegnum var með fötum sem voru um tuttugu ára gömul - svona "ég kemst í þau bráðum föt..!" Ég er búin að burðast með þennan kassa milli margra húsa, íbúða og staða sem ég hef búin á síðustu áratugina. Talandi um að ríghalda í eitthvað!  Ég lét líka gömlu styttuna sem ein frænka mín gaf mér þegar ég var sautján ára, fara. Mér fannst þessi stytta aldrei falleg en af því að mér hafði verið gefin hún þá var hefur hún fylgt mér síðan.

Það er góð tilfinning að horfa inn í hvítan, tóman, skápin og byrja að flokka aftur inn það sem ég ætla að eiga áfram. 

Í kjölfarið hef ég líka verið að flokka viðhorf mín, hugsanir og framkvæmdir. Það er ekkert pláss lengur fyrir "ég get ekki sært þennan eða hin og þess vegna held ég aftur af mér eða hef eitthvað í kringum mig sem mér líkar ekki við (eins og svartar styttur)". Núna vel ég af kostgæfni það sem fyllir mig andagift eða lífgar upp á umhverfið. Verandi soldið ýkt þá fór ég og keypti sex tegundir af blómum.... því núna vel ég að blómstra.

Viðhorfið: "ég geri það seinna" fór á haugana.  Núna set ég inn í viðhorfaskápinn, "ég geri það fljótlega, ef það er mikilvægt." Ég nenni ekki lengur að burðast með að ég þurfi að líta út á einhvern máta en á sama tíma að hugsa betur um hvað hentar mér - aðaltjéllingunni í mínu lífi. Ég hef burðast með hugsanavillur í marga áratugi sem ég nú reyni að kasta út, eins og "það er vont að mistakast." Ég kastaði því og set inn "mistök sýna að ég er að þroskast, bravó mon cheri." Það er of langur listi að fara yfir hér hvað þarf að kasta en ég er að vinna í því.

Ég held áfram að flokka og henda hlutum af sjálfri mér svona til að sjá hverju á að halda (alveg ótrúlegt drasl þarna innra með manni). Ég mæli með því þrátt fyrir að vera ekki sjálf með á hreinu hvað verður. Ekki frekar en hvaða flíkur eiga eftir að fylla plássið sem myndaðist í skápnum mínum.