c

Pistlar:

17. ágúst 2016 kl. 9:56

Árelía Eydís Guðmundsdóttir (arelia.blog.is)

Bieber hættur á Instragram!

Justin Bieber er hættur á Instragram, ástæðan er að aðdáendur hans voru ótuktarlegir í garð sautján ára kærustu hans. Þetta veit ég af því að unglingsstúlkan á heimilinu segir mér allt um Bieber, jafnvel þó ég nenni ekki að hlusta. Ég veit líka hvaða íþróttamenn eru bestir og hversu mörg mörk Messi og Rónaldó skora í hverjum leik. Það er vegna þess að sonur minn segir mér þetta í svona "helst í fréttum" í matartímum. 

Þegar ég var í doktorsnámi í Bretlandi fengum við nemar skrifstofur til afnota. Á minni skrifstofu voru tvær "eldri" konur. Önnur var frá Pakistan og hin frá Japan, báðar komnar vel yfir fertugt og báðar áttu þær börn og eiginmenn. Ruksana, frá Pakistan hneykslaðist þvílíkt á okkur vestrænum konum að vera að láta karlanna fá okkur til að vera fáklæddar eða lítið klæddar bara til þess að þeir gætu glápt á okkur. "Svo þurfa þeir ekki einu sinni að sjá fyrir ykkur ef þið eigið börn" fussaði hún, "geta bara skilið og labbað í burtu..". Ég reyndi að tala um frelsi og kvenréttindi en hún bara horfði á mig meðan hún kenndi mér að elda indverskan mat og sagði mér að konur í heimi Múslima réðu öllu á sínum heimilum, "þú átt alltaf af byrja á lauk og hvítlauk.."

Junko, hin japanska sagði mér frá keppninni í lífsbaráttunni sem ríkti í Japan um að komast að, konur á þeim tíma hættu að vinna um leið og þær eignuðust börn til að koma þeim í réttu leikskólana, skólana og háskólana. Á sama tíma drykkju þær mikið Sake því þær væru upp til hópa óhamingjusamar í því hlutverki að koma barninu áfram í keppninni meðan karlinn væri í vinnunni og svo Karókí.

Ég var að hugsa hvað við mannfólkið getum kennt hvort öðru margt. Ég hef aldrei séð Japan eða Pakistan, hvað þá múslima sömu augum eftir að hafa kynnst þessum konum á lífsleiðinni. Ég sé Bieber og Rónaldó með öðrum augum. Hættan væri sú að ég myndi ekki einu sinni hafa tekið eftir þeim ef ég ætti ekki börn sem hafa áhuga á þeirra lífi. 

Í mínum augum er fátt dýrmætara heldur en hæfileikinn til að sjá eitthvað á nýjan máta. Opna augun fyrir því hvernig aðrir upplifa tilveruna, hlusta á sögur fólks. Engann hef ég hitt sem ekki er áhugaverður. Það er eins og litirnir verði dýpri í lífinu á þeim augnablikum sem maður finnur innra með sér að skilningur manns hefur aukist.Þeir sem hafa ástríðu fyrir einhverju geta kennt manni svo margt og þeir sem hafa lifað ólíku lífi eru endalaus uppspretta visku. Ég meina mér finnst að aðdáendur Biebers eigi að láta kærustu hans í friði!