c

Pistlar:

3. nóvember 2016 kl. 17:20

Árelía Eydís Guðmundsdóttir (arelia.blog.is)

Skammaðar í háloftunum

Ég hef verið allann þennan mánuð, og verð áfram að fagna fimmtugsafmælinu mínu. Fimm vikur, ein fyrir hvern áratug, og ég held að ég muni fagna hvern einasta mánuð á þessu afmælisári. Vá – þetta gat ég, mér líður eins og ég sé búin með skyldukúrsana í lífinu og eigi bara eftir valáfanga.

Þar sem það var ljóst snemma á þessu ári að ég yrði að öllum líkindum fimmtug þetta haustið þá tóku vinkonur mínar stjórnina og bókuðu okkur saman í viku-afmælisfögnuð erlendis. Þar komu við sögu Adele, hvítvínsglös og hlátur og almennt þakklæti yfir vináttu, lífsreynslu og fabílös hrukkum.

Þetta var að sjálfsögðu ótrúlega gaman nema að á leiðinni út urðum við fimm ára aftur. Þær komu tvær og sóttu mig heim, áður en haldið var í flugið og við glöddumst alla leiðina, fengum okkur hvítvínsdreitil og fórum svo í gegnum fríhöfnina á bleiku skýi – við erum að fara á Adele…! Hljómaði nokkrum sinnum, “skál fyrir fimmtugs afmæli.” Ég lagði til að við myndum kaupa okkur litlar hvítvínsflöskur til að halda áfram að fagna í fluginu. Eftir flugtak, héldum við áfram að vera glaðar yfir lífinu og vorum bara nokkuð spakar. Fyrir utan að taka selfíes og skella upp úr nokkrum sinnum. Það ber að taka fram að enginn okkar á við nokkuð áfengisvandamál að stríða og við erum þó nokkuð vanar að ferðast. Í miðju löngu flugi kemur svo yfirflugfreyjan og horfir stíf á okkur. “Það er bannað að drekka sitt eigið áfengi” Við urðum strax fimm ára og báðumst afsökunar en svo bætti hún við og horfið á okkur með ströngum svip “það er mjög erfitt að komast inn í Bandaríkin í gegnum tollinn ef maður er drukkinn..” Ennþá fann fimm ára stelpan skömmina hríslast um sig. Hvað var hún að segja “skamm, skamm.. þú ert óþekk”.

Nú skal taka fram að við höfum allar búið erlendis þar af ein okkar í Bandaríkjunum í sex ár , ein var í Bandaríkjunum í mánuðnum áður og önnur er komin þangað aftur vegna vinnu. Við höfum farið víða um heiminn, og lent í mörgum töff aðstæðum, en samt urðum við fimm ára aftur þegar við vorum skammaðar.

Þegar ég hafði náð vopnum mínum kallaði ég aftur á yfirflugfreyjuna og talaði við hana um að það væri nú kannski ekki rétt að skamma okkur eins og börn. Hún vildi nú ekki meina að hún hefði skammað okkur – sem er klassískt fyrir þá sem skamma :-). Við vorum slegnar yfir skömmunum og niðurlægingunni – ætluðum aldrei aftur að flúga með Icelandair en svo reynist það erfitt :-).

Eftir á varð þetta hins vegar hin skemmtilegasta saga – stútungskerlingar skammaðar eins og fimm ára í fimmtugsreisunni. Samanlagt höfum við örugglega farið yfir hundrað sinnum inn í Bandaríkin og heim aftur og aldrei lent í vandræðum vegna drykkju – en sem sagt ég lærði það að það má ekki koma með drykk um borð því eins og yfirflugfreyjan sagði “maður kemur ekki með vín á bar…”

Það kom að því að fimmtug væri ég skömmuð fyrir áfengisneyslu :-). Næst verð ég örugglega tekin fyrir að koma nakin fram! Byrjar vel fimmtugsáratugurinn enda “who cares??”

PS Adele var fabílös og ég varð aftur grátandi táningur sem þurfti að klípa mig í handlegginn … við erum á ADELE stelpur….!